Auglýsing

Opinberun Ketils Sigurjónssonar Orkubloggara á starfsháttum Norðuráls hefur eðlilega vakið mikla athygli. Ketill sagði frá því að íslenskur bankastjóri hefði sagt sér að fyrirtækið ætlaði að reyna að ráða almannatengla til að stýra herferð gegn málflutningi hans, en Ketill hefur lengi skrifað af mikilli þekkingu um hversu lágt verð stóriðja á Íslandi greiðir fyrir þá orku sem hún nýtir. Hann sagði að bankastjórinn hafi bætti við að „þeir ætla að eyðileggja þig“.

Ketill lýsir því reyndar í grein sinni að fyrst hafi framkvæmdastjóri hjá Norðuráli reynt að ráða hann í óskilgreint verkefni, í kjölfar þess að Ketill hafði rætt við fréttaskýringarþátt um orkusölu til álvera. Þarna virðist mjög augljóslega vera um tilraun til að kaupa sérfræðing til hlýðni að ræða.

Ketill rak lengi vel sjálfstæðan vettvang þar sem hægt var að nálgast upplýsingar um íslensk orkumál í samstarfi við ýmsa hagsmunaraðila. Þeim aðilum sem tóku þátt í halda vettvangnum uppi fækkaði hins vegar hratt undanfarin misseri og aðrir sem ætluðu sér að koma að honum hættu við. Þessi þróun átti sér stað eftir að Ketill fór að gagnrýna það verð sem Norðurál greiðir fyrir orku og tala fyrir mögulegri lagningu sæstrengs til að auka arðsemi Íslendinga af orkusölu. Ketill segir að þetta hafi komið í kjölfar þess að honum hafi verið færðar fregnir af því að Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls, væri að hringja í stjórnendur fyrirtækja og kvarta yfir samstarfi þeirra við Ketil.

Auglýsing

Nú hefur Ketill ákveðið að snúa sér að öðrum verkefnum, utan Íslands.

Leitað í utandeildina

Líkt og kom fram í fréttaskýringu á Kjarnanum í desember þá stendur nú yfir gríðarlega hörð barátta um afnot að sjálfbærum orkuauðlindum íslensku þjóðarinnar. Sú barátta er tilkomin vegna þess að raforkusamningur sem Norðurál, sem á og rekur álver á Grundartanga, gerði við Landsvirkjun seint á tíunda áratug síðustu aldar rennur út árið 2019 og verið er að reyna að endursemja um hann.

Gildandi samningur þykir í flestum samanburði slakur fyrir Landsvirkjun, og þar af leiðandi íslensku þjóðina sem á fyrirtækið. Landsvirkjun vill nú fá hærra verð fyrir orkuna, enda sá samningur sem nú er í gildi einn af ódýrustu gildandi orkusölusamningum til álvera sem er til í heiminum í dag. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, hélt sérstakan blaðamannafund í desember síðastliðnum til að undirstrika eindregið þá stefnu fyrirtækisins að vilja hærra verð fyrir þá dýrmætu náttúruauðlind sem því er falið varðveisla á fyrir hönd þjóðarinnar. Í máli hans kom einnig skýrt fram að hann teldi Norðurál, og eigendur þess, vera að beita öllum mögulegum meðulum til að halda verðinu til sín sem lægstu.

Það virðist vera sem að Norðurál hafi lent í vandræðum með að ráða fagfólk til að ganga erinda sinna gegn Katli og Landsvirkjun. Þess í stað leituðu stjórnendur þeirra í utandeild almannatengsla og ráðgjafar og réðu þaðan mannskap sem virðist tilbúinn að leggjast niður á plan sem þekktist bara hjá hinum skelfilega miðli AMX á árum áður, í málflutningi sínum. Hræðsluáróðurinn og ávirðingarnar sem bornar eru fram á vefjum eins og Auðlindunum okkar og Veggurinn.is eru þó þess eðlis, og svo kjánalegar, að þær valda líkast til meiri skaða en árangri fyrir þá sem fyrir þetta greiða.

Háskólamenn hræddir við valdafólk

Það er sannarlega ekki einsdæmi að aðilar sem hafa ríka hagsmuni af því að halda skipan mála á Íslandi óbreyttri beiti sér með þessum hætti gegn þeim sem dirfast að hafa, oft á tíðum mjög vel rökstudda, aðra skoðun á málunum. Í maí 2014 greindi Kjarninn frá könnun sem sýndi að sjötti hver háskólamaður á Íslandi hafði komið sér hjá því að tjá sig við fjölmiðla vegna ótta við viðbrögð valdafólks úr stjórnmála- og efnahagslífi. Þar kom einnig í ljós að meirihluti háskólamanna taldi að akademísku frelsi fræði- og vísindamanna á Íslandi stfi ógn af gagnrýni eða hótunum frá valdafólki í stjórnmálum, efnahags- og atvinnulífi.

Skömmu síðar birti Kjarninn umfjöllun þar sem sagt var frá því hvernig  Jón Steinsson, dósent í hagfræði við Columbia-háskólann í New York, hefði fengið að finna fyrir því að skrifa reglulega um hitamál samfélagsins í íslenska fjölmiðla, sérstaklega um fiskveiðistjórnunarkerfið, auðlindanýtingu og skattamál. Jón greindi frá því að gagnrýni hans á annars vegar kvótakerfið og hins vegar Sjálfstæðisflokkinn og Davíð Oddsson hafi kallað fram sérstaklega hörð viðbrögð. Honum hafi til að mynda verið sagt að hann myndi aldrei geta fengið vinnu á Íslandi. Grófasta dæmið hafi hins vegar verið þegar áhrifamaður í íslensku atvinnulífi sendi bréf til deildarforseta Columbia-háskólams þar sem hann gerði athugasemdir við skrif Jóns í íslenska miðla. „Ef þessir menn reyna að hafa áhrif á yfirmann hagfræðideildar í Columbia, sem þeir hafa augljóslega engin tök á, þá getur maður bara ímyndað sér hvernig það er þegar einhver í háskólum á Íslandi skrifar svona,“ sagði Jón.

Umræðuburðardýrin ósýnilegu

Fjölmiðlar sem starfa í örsamfélaginu Íslandi, og ætla sér að vera gagnrýnir og upplýsandi, finna sannarlega fyrir áhrifum valdafólks í stjórnmálum og atvinnulífi. Það hefur bein áhrif á tilverugrundvöll þeirra ef þeir þjónka ekki völdum hagsmunum. Sá þrýstingur og það áreiti kemur jafnt úr umhverfi stjórnmála og úr atvinnulífinu í formi rógburðar, skertra tekjumöguleika og árásar á trúverðugleika ef miðlarnir dansa ekki réttan dans.

Þessi hagsmunagæsla er oftar en ekki í höndum almannatengla eða ráðgjafa sem sjást ekki opinberlega, en hanna atburðarrásina. Það mætti kalla þá umræðuburðardýr. Þeirra hlutverk er að hafa þannig áhrif á umræðuna að hagsmunir fámennra hópa græði á henni, í stað almennings. Fyrir það fá þeir greitt háar fjárhæðir.

Við sjáum þetta mjög skýrt í þeirra aðför sem Ketill Sigurjónsson hefur orðið fyrir þar sem stórfyrirtæki sem rekur stóriðju hérlendis er ábyrgt. Við sjáum þetta mjög skýrt í þeirri atburðarrás sem Jón Steinsson lýsti og rakin er hér að ofan. Við sjáum þetta mjög skýrt í þeirri fordæmalausu árás sem gerð er á stoðir íslensks réttarkerfis vegna þess að það hefur dæmt menn í fangelsi fyrir efnahagsglæpi. Og við sjáum þetta á hverjum degi í íslenskum fjölmiðlum, þar sem peningar og völd styðja við þá sem þykja þóknanlegir en reynt er að svelta hina til hlýðni eða dauða.

Þjóðarhagsmunir

Almenningur verður að átta sig á að það eru þjóðarhagsmunir okkar allra að þessi öfl fái ekki að vinna. Að þeirra þröngu fjárhagslegu- eða valdahagsmunir verði teknir framfyrir hagsmuni heildarinnar. Það eru þjóðarhagsmunir að opinber íslensk orkufyrirtæki sem fá að nýta auðlindir okkar nái að hámarka virði þeirrar orku sem þau selja okkur öllum til hagsbóta. Það eru þjóðarhagsmunir að réttlátt verð sé greitt fyrir nýtingu á sjávarauðlindinni. Og það eru þjóðarhagsmunir að fjölmiðlar sinni aðhaldshlutverki sínu með því að gagnrýna og upplýsa almenning.

Það er fámenn klíka sem vill halda málum á Íslandi nákvæmlega eins og þau eru. Þar sem arðsemi auðlinda okkar rennur í fáa vasa og þar sem valdaþræðir liggja allir á hendi fárra aðila. Það eru mestu þjóðarhagsmunir íslensks almennings að leysa upp þessa stöðu og spyrna við henni. Það má ekki leyfa mönnum sem vilja eyðileggja okkur, og umræðuburðardýrum þeirra, að gera það.   

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Davíð Helgason, einn stofnenda og fyrrum forstjóri Unity.
Segir Ísland geta orðið „einhvers konar tilraunasetur fyrir framtíðina“
Frumkvöðullinn og milljarðamæringurinn Davíð Helgason flytur til Íslands í sumar og ætlar að fjárfesta í fyrirtækjunum sem vinna gegn loftslagsvandanum. Að hans mati er margt sem gerir landið að góðum fjárfestingarkosti.
Kjarninn 18. maí 2021
Palestínumennirnir fimm fyrir utan húsnæði Útlendingastofnunar í Hafnarfirði í dag.
„Við viljum frekar deyja á götunni á Íslandi en að fara aftur til Grikklands“
„Íslensk yfirvöld hlusta ekkert á okkur. Þó að þau viti hvernig ástandið er í okkar heimalandi og þær áhyggjur sem við höfum. Ég meina, húsin sem við bjuggum í hafa sum verið jöfnuð við jörðu.“ Þetta segir Palestínumaður sem er lentur á götunni á Íslandi.
Kjarninn 18. maí 2021
Fasteignaverð hækkar meira með hverjum mánuðinum sem líður, þar sem eftirspurn er mikil og minna er um nýbyggingar.
Ekki meiri hækkun síðan árið 2017
Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 13,7 prósent í apríl á ársgrundvelli, miðað við vísitölu Þjóðskrár. Vísitalan hefur ekki hækkað jafnmikið milli ára síðan í desember 2017.
Kjarninn 18. maí 2021
Þröstur Ólafsson
Var þanþolið rofið?
Kjarninn 18. maí 2021
„Þegar mikil eftirspurn er eftir húsnæði getur fyrirvari um ástandsskoðun fasteignar talist kauptilboði til frádráttar,“ segir í greinargerð með þingsályktunartillögunni.
Ástandsskýrslur fylgi öllum seldum fasteignum
Nýsamþykkt þingsályktunartillaga felur ráðherra að móta frumvarp um ástandsskýrslur fasteigna. Slíkum skýrslum er ætlað að auka traust í fasteignaviðskiptum en ábyrgð vegna galla sem ekki koma fram í ástandsskýrslum mun falla á matsaðila.
Kjarninn 18. maí 2021
Allir hljóta að hafa skoðun á vegferð Ísraelsmanna að mati Hönnu Katrínar Friðriksson þingmanns Viðreisnar.
„Við Íslendingar höfum sterka rödd á alþjóðavettvangi“
Íslensk stjórnvöld þurfa að láta í sér heyra og hvetja aðra til að gera slíkt hið sama vegna átaka milli Ísraels og Palestínu að mati þingmanna Viðreisnar og Framsóknarflokks. Þó svo að íslenska þjóðin sé fámenn hafi hún sterka rödd og hana þurfi að nota.
Kjarninn 18. maí 2021
Samkvæmt ASÍ og BSRB er skuldasöfnun ríkisins ekki áhyggjuefni þegar vextir eru lágir
Gagnrýna „afkomubætandi ráðstafanir“ og vilja breyta fjármálareglum
Sérfræðingahópur á vegum ASÍ og BSRB varar stjórnvöld við að beita niðurskurði í yfirstandandi kreppu og segir að fjármálareglur hins opinbera þurfi að vera sveigjanlegri í nýrri skýrslu um efnahagsleg áhrif faraldursins.
Kjarninn 18. maí 2021
Græni miðinn er aftur kominn upp á gafl Hafnarborgar.
Listaverk sem fjarlægt var af bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði komið upp á nýjan leik
Listaverk þeirra Libiu Castro og Ólafs Ólafssonar var fjarlægt af gafli Hafnarborgar fyrr í þessum mánuði að beiðni bæjaryfirvalda. Listaverkið er nú aftur komið upp en líklega hafa bæjaryfirvöld látið undan þrýstingi fagfélaga að mati listamannanna.
Kjarninn 18. maí 2021
Meira úr sama flokkiLeiðari
None