Áhugaverð fyrirspurn liggur nú á borði Bjarna Benediktssonar, efnahags- og fjármálaráðherra, sem hann þarf að svara. Hún snýr af fjármagnsflutningum álfyrirtækjanna þriggja, Rio Tinto, Alcoa og Century Aluminum, úr landi frá því að lög um fjármagnshöft voru staðfest á Alþingi í nóvember 2008.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, spurðist fyrir um málið.
Fyrirspurnin er þessi:
1. Hve mikið fé hafa álfyrirtækin sem starfrækt eru á Íslandi flutt úr landi eftir að gjaldeyrishöft voru sett, sundurliðað eftir árum og fyrirtækjum?
2. Hve stórum hluta af heildarútflæði gjaldeyris nam hluti álfyrirtækjanna hvert ár 2009– 2015?
3. Hve mikið fé greiddi á sama tíma hvert og eitt álfyrirtækjanna árlega í vexti til erlendra lánveitenda annars vegar og hins vegar í afborgarnir af lánum erlendra lánveitenda?
4. Hverjar voru arðgreiðslur álfyrirtækjanna á árunum 2009–2015?
5. Hve mikil opinber gjöld greiddu álfyrirtækin hérlendis sömu ár? Óskað er eftir sundurliðun fyrir hvert og eitt fyrirtæki og að fjárhæðirnar séu bæði tilgreindar á verðlagi hvers árs og uppreiknaðar miðað við vísitölu í mars 2016.
Áhugavert verður að sjá svörin við þessum spurningum, og skýringar á því hvers vegna fyrirtækin hafa komist upp með flytja tugi milljarða úr landi í gjaldeyri á ári. Auðvitað hefði Alþingi fyrir löngu átt að ræða um þessi mál fyrir opnum tjöldum, og birta allar upplýsingar um þessi miklu fjármagnsflutninga úr landi eftir að setningu hafta. Ekki skorti á umræðuna, því fjölmiðlar hafa bent á það, að þarna vanti skýringar á augljósum atriðum. Almenningur hefur þurft að sýna farseðla fyrir gjaldeyri, og laga sig að skammtakerfi sem stjórnmálamenn settu á með lögum.
En allir verða að vera jafnir fyrir lögunum.