Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, undirritaði í gær samninga við fjórar heilbrigðisstofnanir um þátttöku þeirra í skipulögðu átaki til að stytta bið sjúklinga eftir ákveðnum brýnum aðgerðum.
Samningarnir eru við Landspítalann, Sjúkrahúsið á Akureyri, Heilbrigðisstofnun Vesturlands og fyrirtækið Sjónlag hf. Í tilkynningu frá velferðarráðuneytinu kemur fram að áætlað er að verja um 1,6 milljarði króna til verkefnisins á árunum 2016-2018 en þar af mun helmingur fjárins vera nýttur á þessu ári.
Í ár verður ráðist í að stytta til bið fólks eftir liðskiptaaðgerðum, hjartaþræðingum og augasteinsaðgerðum en markmiðið er að í lok átaksins þurfi sjúklingar ekki að bíða lengur en þrjá mánuði eftir aðgerð.
Þó deilur séu oft það sem helst færi athyglina á hinu pólitíska sviði, þá er sanngjarnt að hrósa stjórnmálamönnum þegar vel tekst til. Þetta er mikilvægt átaksverkefni sem heilbrigðisráðherra hefur forystu um, og vonandi mun vel takast til við að hrinda átakinu í framkvæmd.