Hryðjuverkin í Brussel eru skelfileg áminning um það hversu mikinn skaða hatur og illska getur skapað í samfélagi okkar. Hugurinn er hjá þeim sem eiga um sárt að binda, og vonandi verða viðbrögð þjóðarleiðtoga á þá leið, að þau veki upp von um frið og öryggi. Yfirlýsingar Francois Hollande, forseta Frakklands, þar sem hann stóð þrútinn af reiði eftir hryðjuverkin í París, og lýsti yfir stríði gegn íslamska ríkinu, eru ekki endilega þau viðbrögð sem teljast geta verið til fyrirmyndar, og mikið umhugsunarefni hvort þau hafi skapað meiri ótta en minni þegar upp er staðið.
Vígvöllur hryðjuverkanna er óræður, og um margt ósýnilegur, nema þegar hann birtist, leiftursnöggt, sekúndubrotum áður en skaðinn er skeður. Loftárásir í fjarlægum löndum geta ógnað lífi saklausra borgara þúsundir kílómetra í burtu. Flókin mál sem þessi verða ekki leyst svo glöggt, og vonandi tekst með einhverjum ráðum, að skapa meira jafnvægi í heiminum þegar að þessu kemur. Uppgangur öfgahópa af ýmsum tóga, í Evrópu, Afríku og Bandríkjunum, svo dæmi séu tekin, vekur ugg í brjósti.
Það er ekki hægt að skýra það sem að baki liggur hryðjuverkum í stuttu máli, nema þá með hinu augljósa, að þau eru birtingarmynd haturs og illsku eins og áður sagði.
Það á ekki að gera hryðjuverkamönnum það til geðs, að gefa glæpum þeirra trúarlega vængi, en þjóðarleiðtogar vesturlanda þurfa vafalítið að horfa inn á við og spyrja sig að því, hvort viðskiptapólitískt valdabrölt geti verið rótin að því að sjúka hugarfari sem þarf til þess, að drepa saklausa borgara.
Sádí-Arabía kemur upp í hugann þegar að þessu kemur, en Bretar og Bandaríkjamenn hafa haldið hlífiskildi yfir stjórnarfari þar í landi - vegna viðskiptahagsmuna eins og öllum er kunnugt - en stjórnarfarið einkennist meðal annars af hatri og illsku. Heimildarmynd, sem fjölmiðlar hafa fjallað um að undanförnu, sýnir hroðalegar gjörðir gagnvart borgurum í landinu, konum og körlum, þar sem hatur og illska eru hluti af stjórnarathöfnum. Niðurlæging, ofbeldi, og aftökur í takt við siðalögmál miðalda, eru daglegt brauð.
Fámenn elíta, tengd fjölskylduböndum, rakar til sín olíuauðæfum sem gætu vel eytt miklum vandamálum í heimshluta sem er á barmi allsherjareyðileggingar vegna styrjaldar. Þaðan sem vígamenn koma til að fremja hryðjuverk í Evrópu og víðar.
Þessi staða er mikið umhugsunarefni, svo ekki sé meira sagt.
Megi ljós vonar og góðmennsku, slökkva hatur og illsku. Þó það verði seint og um síðir, og því miður líklega eftir frekari blóðsúthellingar.