Forsætisráðherra eða fórnarlamb?

Auglýsing

Ef ég skil málflutning þinn rétt þá á ég að vera þakklát fyrir að þú sért forsætisráðherra Íslands. Svo á ég líka að vera þakklát konunni þinni fyrir að fórna arfinum sínum á altari pólitískrar sannfæringar þinnar. Í einrúmi hafið þið komið ykkur saman um að færa persónulegar fórnir í mína þágu. Þú hefur fylgt pólitískri sannfæringu þinni um að uppgjörinu við föllnu bankanna skyldi ráðstafað í skuldaleiðréttingu handa þeim sem keyptu sér fasteignir á tilteknu tímabili og konan þín fórnaði hluta af sínum peningum meðal annars í að fjármagna þá leiðréttingu. Fyrir þetta á ég að vera þakklát. 

Þú tókst ákvörðun um að stíga inn í opinbert rými og leggja þína pólitísku sannfæringu undir dóm kjósenda í kosningum. Árangur þinn á þeim opinbera vettvangi stendur og fellur með trúverðugleika. Trúverðugleiki þinn jókst verulega þegar síðari dómurinn í Icesave-málinu féll og málflutningur þinn um að þeir samningar væru ekki hliðhollir íslenskum almenningi var staðfestur. Þar með urðu til væntingar til þín um að það sem þú hafðir fram að færa væri satt og rétt. Sjálfur hefur þú ýtt undir þessar væntingar með því að byggja upp ímynd af sjálfum þér sem manni sem syndir á móti straumnum, óhræddur við að fara þínar eigin leiðir. Gulrótin sem þú hefur notað til að byggja upp ímynd þína er nokkurs konar samspil þess að höfða til frumtilfinninga fólks um að eitthvað geti bjargað þeim frá sjálfu sér, nánar tiltekið sjálfsköpuðum og þjakandi fasteignaskuldum, og svo að hægt sé leggja traust sitt á þig því að þú búir yfir persónulegum styrk og óbrigðulli dómgreind til að taka ákvarðanir fyrir okkur hin. 

Meðal annars út af samspili þessara væntinga kjósenda þinna og því að málflutningur þinn öðlaðist trúverðugleika utan frá ert þú forsætisráðherra. 

Auglýsing

Þegar kemur svo í ljós að þú og eiginkona þín hafið í einrúmi ákveðið að halda upplýsingum leyndum sem hafa mjög afgerandi áhrif á trúverðugleika þinn í dag og í fortíðinni þá bregstu við með því að draga upp sjálfsvorkunnarkylfu og gerir tilraun til að búa til samviskubit og skömm hjá almenningi yfir því að við séum ekki þakklát fyrir allt sem þið hjónin hafið fórnað fyrir okkur, óumbeðin. Vandinn við þetta er að þið eruð ekki foreldrar okkar sem færðuð fórnir sem við munum einn daginn átta okkur á þegar við eignumst okkar eigin börn og verðum þakklát fyrir. Samband okkar við þig sem forsætisráðherra er ekki samband föður við börnin sín. Við báðum þig ekki um að bjóða þig fram og allar þær fórnir sem þú hefur fært, hvort sem þær eru í einkalífi þínu eða í opinberu lífi, eru á þína ábyrgð. 

Með því að stíga inn á opinbert svæði máttu eiga von á því að fá viðbrögð við því sem þú hefur fram að færa. Þegar þú gengur svo enn lengra og býður þig fram til að taka ákvarðanir fyrir hönd annarra skiptir máli hvernig það atvikast og hvað er satt og hvað er rétt. 

Það er ekki satt að upplýsingar um að eiginkona þín sé meðal kröfuhafa föllnu bankanna komi almenningi ekki við. Það er ekki rétt að þær upplýsingar hefðu ekki breytt neinu. Þessar upplýsingar hefðu haft áhrif á möguleika þína til að njóta trúverðuleika og þú vissir það og þess vegna ákvaðst þú að sleppa því að segja frá því. Nú ertu reiður yfir því að upp um þig komst og þá beitirðu fyrir þig að verið sé að ráðst á fjölskyldu þína og gerir tilraun til að búa til mynd af ykkur sem fórnarlömbum í ómaklegri herferð gegn þér. 

Einu fórnarlömbin í þessari atburðarrás eru kjósendur þínir sem höfðu ekki forsendur til að meta hversu mikið mark væri takandi á þér því þú leyndir þá mikilvægum upplýsingum. Þar með er trúverðugleiki þinn horfinn. Sama hvort þér og eiginkonu þinni gekk gott eitt til. Þú hefur tækifæri til að viðurkenna mistök þín, axla ábyrgð, segja af þér og boða til kosninga. Aðeins þannig getur þú lagt þessar upplýsingar í dóm kjósenda og fengið úr því skorið hvort þær skipta máli og hvort þær hafi áhrif á vilja kjósenda til að treysta þér og dómgreind þinni. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Ragnar Þór Ingólfsson
Land tækifæranna, fyrir útvalda!
Kjarninn 18. september 2021
Líkurnar á að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur haldi velli komnar niður í 38 prósent
Í lok ágúst voru líkurnar á því að sitjandi ríkisstjórn myndi halda 60 prósent. Þær hafa minnkað hratt en á sama tíma hafa líkurnar á myndun fjögurra flokka stjórnar án Sjálfstæðisflokks aukist umtalsvert.
Kjarninn 18. september 2021
Sólveig Anna Jónsdóttir
Sjálfsvirðing
Kjarninn 18. september 2021
Bára Huld Beck
Trúir einhver þessari konu?
Kjarninn 18. september 2021
Stefán Ólafsson
Rangfærslur Áslaugar Örnu um skatta
Kjarninn 18. september 2021
Utanríkisráðuneytið afturkallaði einungis eitt liprunarbréf af öllum þeim sem gefin voru út eftir að faraldur COVID-19 skall á.
Einungis eitt liprunarbréf afturkallað af fleiri en tvö þúsund slíkum
Liprunarbréfið sem Jakob Frímann Magnússon óskaði eftir fyrir barn vinar síns í mars í fyrra er það eina sem utanríkisráðuneytið hefur þurft að afturkalla af fleiri en tvö þúsund slíkum sem gefin voru út eftir að faraldur COVID-19 hófst.
Kjarninn 18. september 2021
Steinar Frímannsson
Óvissuferð án fyrirheits – Umhverfisstefna Framsóknarflokks
Kjarninn 17. september 2021
Minnkandi fylgi Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna gæti skilað þeim báðum utan stjórnar
Vinstri græn eru nú í þeirri stöðu að þrír miðjuflokkar eru með meira fylgi en þau og Viðreisn mælist með nákvæmlega það sama. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með sitt lægsta fylgi í kosningaspánni.
Kjarninn 17. september 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar
None