Agnes Sigurðardóttir biskup Íslands flutti prédikun í Dómkirkjunni í gær, og kom inn á mikilvæg málefni er tengjast hryðjuverkum, sem nú ógna öryggi borgara víða um heim. Þá ræddi hún einnig um málefni flóttamanna.
Orðrétt sagði Agnes þetta: „Ofbeldisverk eru ekki unnin í nafni trúar. Kærleiksverk eru unnin í nafni trúar. Kristnir menn eiga að taka höndum saman til að vinna gegn þeirri óöld sem ríkir í heiminum. Kristnir menn eiga að standa saman og standa með lífinu og mennskunni hver sem í hlut á.“
Fyrsta setningin er mikilvæg í þessu samhengi, og raunar lykilatriði. Það á ekki að gera ofbeldismönnum það til geðs, að færa þeim trúarlega vængi í umræðu um skelfileg ofbeldisverk þeirra. Skýringa má leita á hatrinu, og ólöglegu ofbeldi þeirra, en rætur verknaðarins verða ekki skýrðar með trúnni, hver sem hún er.
Það er gott hjá biskupi að hvetja fólk til að standa með hinu góða og rétta fram hjálparhönd til flóttamanna, hverrar trúar sem þeir eru, eins og hún gerði í prédikun sinni.