Miklar deilur hafa staðið yfir á Akranesi vegna umsóknar HB Granda um breytingu á deiliskipulagi á svokölluðu Breiðarsvæði og áform fyrirtækisins um að byggja nýja fiskþurrkun sem á að skila þrefalt meiri afköstum en sú sem er fyrir. Allt frá upphafi starfsemi Laugafisks á Akranesi, sem er nú í eigu HB Granda, hafa íbúar bæjarins kvartað undan megnri ólykt frá fiskþurrkuninni en bæjaryfirvöld, heilbrigðiseftirlit og fleiri hafa daufheyrst við.
Sem Skagamaður hef ég að sjálfsögðu ekki farið varhluta af þeim átökum sem hafa ríkt í bæjarfélaginu og af þeim sökum ákvað ég að taka saman og útskýra tengsl hagsmuna, valda og gildismats í anda danska skipulagsfræðingsins og prófessorsins Bent Flyvbjerg þegar kemur að samþykktri tillögu bæjarstjórnar Akraness að breytingu á deiliskipulagi, en frestur til að gera athugasemdir við hana rennur út 30. mars næstkomandi.
Hagsmunaaðilar
Mat á hagsmunum getur verið huglægt. Hver er til dæmis munurinn á þeim sem eiga raunverulegra lögvarinna hagsmuna að gæta og þeirra sem upplifa sig eiga hagsmuna að gæta? Almenningur sem kann að verða fyrir áhrifum af, eða upplifir að hann verði fyrir áhrifum vegna skipulagsákvörðunar, beint eða óbeint hlýtur ætíð að vera hagsmunaaðili, mismiklir þó eðli málsins samkvæmt. Það má aðgreina hagsmunaaðila í þrjá hópa, þeir eru umsagnaraðilar, beinir og óbeinir hagsmunaaðilar.
Umsagnaraðilar
Í tilfelli fyrirhugaðrar stækkunar fiskþurrkunar á Akranesi eru umsagnaraðilar einn hópur hagsmunaaðila, það eru opinberar stofnanir og stjórnvöld sem sinna lögbundnum verkefnum á sviði skipulagsmála og leyfisveitingum þeim tengdum. Það er Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun, Samgöngustofa, Vegagerðin og Heilbrigðiseftirlit Vesturlands svo einhverjir séu nefndir.
Heilbrigðiseftirlit Vesturlands (HEV) er rekið af sveitarfélögunum á Vesturlandi. Í verklagsreglum heilbrigðiseftirlita segir meðal annars að markmið þeirra sé að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi. Hjá HEV eru tveir starfsmenn auk sjö nefndarmanna sem mynda stjórn. Framferði HEV í ferlinu hefur verið misvísandi og hefur umhverfisráðuneytið hnekkt eða breytt ákvörðun HEV um endurnýjun starfsleyfis í tvígang.
Beinir hagsmunaaðilar
Annar hópur hagsmunaaðila eru þeir sem eiga beinna hagsmuna að gæta. Það getur verið sveitarfélagið, íbúar og lóðahafar. Auk þeirra eru rekstrar-, þjónustu- og framkvæmdaraðilar þó að óljóst sé á þessum tímapunkti hverjir það verða. Gera má ráð fyrir að ef af fyrirhugaðri starfsemi verður, þurfi að hanna og setja upp hús og vinnslulínur og sjá henni fyrir heitu vatni, loftþurrkunarbúnaði, mengunarvörnum, landflutningum og svo framvegis.
Íbúar Neðri-Skaga í námunda við núverandi hausaþurrkun og framtíðar uppbyggingarsvæði nýrrar verksmiðju finna mest fyrir lyktarmenguninni og margir vilja meina að ólyktin komi niður á lífsgæðum og valdi jafnvel fjárhagslegum skaða. Nefnt hefur verið að ekki sé hægt að viðra þvott eða lofta út og að fasteignaverð sé lægra á Neðri-Skaga.
HB Grandi hf. er sjávarútvegsfyrirtæki með starfstöð á Akranesi og í Reykjavík. Fyrirtækið leggur áherslu á samfélagslega ábyrgð og heldur því fram að mögulegt sé að starfrækja fiskþurrkun við íbúabyggð án þess að valda ónæði eða hvers kyns mengun. HB Granda bráðvantar að eigin sögn stærra hús til að ná hagræðingu í vinnsluna og er umhugað að klára verkefnið sem nú þegar hefur kostað mikla vinnu og tíma.
Akraneskaupstaður eða bæjarstjórn Akraness er að svo komnu máli samþykk tillögu að breytingu á deiliskipulagi Breiðarsvæðis. Tillagan á þó enn eftir að koma til endanlegrar afgreiðslu í bæjarstjórn. Skipulagsákvarðanir eru alltaf með einum eða öðrum hætti hagsmunamál fyrir sveitarfélög eða sveitarstjórnir sem þær taka. Í þessu tilfelli eru hagsmunirnir miklir og flóknir þannig að bæjaryfirvöld standa frammi fyrir mismunandi valkostum.
Faxaflóahafnir sf. er sameignarfélag í eigu sveitarfélaga við Faxaflóa. Reykjavíkurborg er með 75% eignarhlut, Akraneskaupstaður er með 10,7% og önnur sveitarfélög eitthvað minna. Tilgangur Faxaflóahafna er rekstur Reykjavíkurhafnar, Akraneshafnar, Grundartangahafnar, Borgarneshafnar og annarra hafna sem kunna að verða aðilar að félaginu. Hafnarstjórn Faxaflóahafna hefur frá upphafi markað þá stefnu að efla Akraneshöfn sem fiskihöfn.
Aðrir áhrifavaldar
Þriðji hópur hagsmunaaðila eru þeir sem eiga ekki beinna hagsmuna að gæta en láta sér skipulagssvæðið varða. Hér er yfirleitt átt við íbúa og lögaðila þess sveitarfélags þar sem skipulagsverkefnið fer fram en það má þó setja alla Íslendinga í þennan hóp. Í yfirstandandi deilu á Akranesi hefur mest farið fyrir tveimur undirskriftasöfnunum, með og á móti, en Verkalýðsfélag Akraness og fjölmiðlar hafa einnig látið sig málið varða.
Uppbygging á Akranesi Hópur undir yfirskriftinni Aukin uppbygging safnar undirskriftum til stuðnings breytingartillögu við deiliskipulag á Breiðasvæðinu. Þau sem eru í forsvari fyrir undirskriftasöfnuninni eiga það öll sameiginlegt að búa fjarri fiskþurrkuninni.
Betra Akranes Hópur undir yfirskriftinni Betra Akranes safnar undirskriftum á móti auglýstri breytingu á deiliskipulagi Breiðarsvæðis og skora á bæjaryfirvöld að hafna fyrirliggjandi skipulagstillögu og hefja í kjölfarið viðræður við HB Granda um aðra staðsetningu í sátt við alla íbúa Akraness.
Fjölmiðlar hafa látið sig skipulagstillöguna varða ekki síst út frá kvörtunum íbúa vegna lyktarmengunar.
Þátttakendur
Atburðarás verkefnisins - Taflið greint
2003
Laugafiskur hefur starfsemi fólgna í heitloftsþurrkun sjávarafurða á Akranesi.
2004
Í byrjun árs eru sjávarútvegsfyrirtækin Haraldur Böðvarsson hf. og Grandi hf. sameinuð undir nafninu HB Grandi hf.
2005
1. janúar 2005 eru Reykjavíkurhöfn, Akraneshöfn, Grundartangahöfn og Borgarneshöfn sameinaðar í Faxaflóahafnir sf. Í stofnsamningi Faxaflóahafna kemur fram að Akraneshöfn muni verða efld sem fiskihöfn.
Í apríl samþykkir Heilbrigðisnefnd Vesturlands 50% skerðingu á starfsleyfi Laugafisks yfir sumarmánuðina og að óbreyttu verði starfsleyfi fyrirtækisins ekki endurnýjað eftir tvö ár. Þessi ákvörðun er tekin á þeim forsendum að allt frá upphafi starfseminnar hafi þrálátar umkvartanir nágranna, viðræður og ábendingar heilbrigðisfulltrúa ekki leitt til lausna á vandamálum í rekstri fyrirtækisins.
Í maí hefst verkefni með það að markmiði að draga úr mengun frá þurrkverksmiðjum. Verkefnið ber vinnuheitið Peningalykt - lyktarminni framleiðsla á þurrkuðum þorskafurðum og er styrkt um 6 milljónir af AVS rannsóknasjóði í sjávarútvegi og unnið í samstarfi við Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Umhverfisstofnun og nokkra helstu framleiðendur þurrkaðra fiskafurða, meðal annars Laugafisk.
Fyrri samþykkt Heilbrigðisnefndar Vesturlands frá því í apríl er dregin til baka og Laugafiski sett ákveðin skilyrði, svo sem að endurskoða innra eftirlit, halda kynningarfund fyrir bæjarbúa, setja upp lyktarmengunarnema o.s.frv.
2006
Í maí eru niðurstöður verkefnisins Peningalykt - lyktarminni framleiðsla á þurrkuðum þorskafurðum kynntar og í framhaldinu bókar Heilbrigðiseftirlit Vesturlands þann 30. júní að lyktarmengun sé meiri en forsendur starfsleyfis geri ráð fyrir og lausnir til að koma í veg fyrir lyktarmengun frá Laugafiski í og við sitt næsta nágrenni séu ekki til staðar. Því næst mæta fulltrúar Heilbrigðiseftirlitsins á fund bæjarráðs Akraness þar sem málefni fyrirtækisins eru rædd. Á fundinum lýsa bæjarráðsmenn yfir vilja sínum fyrir endurnýjuðu starfsleyfi Laugafisks og hvetja jafnframt fyrirtækið til að halda rannsóknum og tilraunum áfram til að útrýma ólykt frá framleiðslunni. Tveimur mánuðum seinna veitir Heilbrigðiseftirlit Vesturlands Laugafiski endurnýjað starfsleyfi til fjögurra ára. Forsenda starfsleyfisins er að fyrirtækið haldi áfram að þróa leiðir til að lágmarka lyktarmengun frá starfseminni. Íbúar á neðri Skaga leggja fram stjórnsýslukæru þar sem nýtt starfsleyfi var hvorki auglýst né kynnt.
26. apríl 2006 er Aðalskipulag Akraness 2005-2017 staðfest af umhverfisráðherra, en þar er meðal annars gert ráð fyrir stækkun hafnarsvæðis með stórskipahöfn, nýjum hafnargarði og athafnasvæðum.
Í byrjun sumars er fyrsti fundur nýrrar bæjarstjórnar. Meirihluta skipar Sjálfstæðisflokkur og fulltrúi óháðra á F-lista.
2007
602 undirskriftir íbúa Akraness sem mótmæla lyktarmengun frá Laugafiski eru afhentar bæjarstjóra. Heilbrigðiseftirlit Vesturlands segir íbúa hafa Laugafisk fyrir rangri sök og að starfsemi fyrirtækisins hafi farið eftir skilyrðum starfsleyfisins.
Í lok sumars úrskurðar umhverfisráðuneytið að við útgáfu nýs starfsleyfis Laugafisks hafi ekki verið gætt hagsmuna þeirra sem búa í grenndinni og fellir úr gildi útgáfu Heilbrigðisnefndar Vesturlands á starfsleyfinu. Ráðuneytið veitir Laugafiski þó undanþágu frá starfsleyfi þar til ný ákvörðun heilbrigðisnefndar um starfsleyfi liggur fyrir.
Í ágúst óskar stjórn HB Granda eftir að Faxaflóahafnir flýti gerð landfyllingar og hafnargarðs á Akranesi og úthluti lóðum undir fiskiðjuver, en áður hafði stjórn fyrirtækisins gefið út yfirlýsingu þess efnis að fyrirtækið hygðist sameina alla landvinnslu félagsins á botnfiski í einu fiskiðjuveri á Akranesi sem átti að vera tilbúið árið 2009. Mánuði seinna fellur stjórn HB Granda frá þeirri fyrirætlun þar sem Faxaflóahafnir telja ekki fært að verða við öllum óskum fyrirtækisins.
2008
Í byrjun árs tilkynnir HB Grandi að öllum starfsmönnum í landvinnslu á Akranesi verði sagt upp 1. febrúar, eða um 60 starfsmenn og síðan verði tuttugu starfsmenn endurráðnir. Ákvörðunin kemur fólki í opna skjöldu í ljósi fyrri yfirlýsinga og fyrirheita fyrirtækisins. Viðbrögðin láta ekki á sér standa og bæjarstjórn Akraness segir að með ákvörðun stjórnenda HB Granda sé verið að binda endi á 100 ára atvinnusögu útgerðar og fiskvinnslu á Akranesi. Bæjarstjórn óskar eftir neyðarfundi með stjórn fyrirtækisins og þingmönnum kjördæmisins. Verkalýðsfélag Akraness telur HB Granda ekki fara að lögum og segir að ef af uppsögnum verði hafi tapast 150 störf á Akranesi frá sameiningu HB Granda árið 2004. Því næst skorar bæjarráð Akraness á stjórn HB Granda að endurskoða fyrirhugaðar uppsagnir starfsmanna fyrirtækisins á Akranesi. Bæjarráð lýsir því jafnframt yfir að bæjaryfirvöld séu reiðubúin til að „gera allt sem í þeirra valdi stendur til að liðka fyrir flutningi á frekari starfsemi fyrirtækisins til Akraness“. Í kjölfarið skorar bæjarstjórn Akraness á stjórn Faxaflóahafna og stjórn HB Granda að taka upp þráðinn frá því sem frá var horfið um flutning HB Granda til Akraness.
Bæjarstjórn Akraness tekur afstöðu með fyrirhuguðu framlengdu starfsleyfi Laugafisks og í framhaldinu endurnýjar Heilbrigðisnefnd Vesturlands starfsleyfi Laugafisks til 12 ára eða til ársins 2020. Í kjölfarið leggja íbúar á Neðri-Skaga fram tvær stjórnsýslukærur sem fyrst og fremst eru byggðar á lyktarmengandi starfsemi Laugafisks og að skilyrðum sem starfseminni voru sett séu óskýr og ófullnægjandi. Í lok árs er aftur kveðinn upp úrskurður í umhverfisráðuneytinu, niðurstaðan er að starfsleyfi Laugafisks skal stytt um 4 ár og gilda til ársins 2016 og kveðið er á um skýrari skilyrði.
6. október biður forsætisráðherra Íslands Guð að blessa Ísland.
2009
Siglingastofnun skilar áfangaskýrslu þar sem gerð er grein fyrir ýmsum þáttum undirbúnings fyrir þróun hafnar og framkvæmdakostnaður metinn. Framkvæmdin er ekki talin raunhæf og í kjölfarið ákveða bæjaryfirvöld að fella hana út úr aðalskipulagi.
2010
Nýr meirihluti í bæjarstjórn Akraness er skipaður fulltrúum Samfylkingar, Vinstri Grænna og Framsóknarflokki og óháðum. Um vorið telur nýkjörin bæjarstjórn þarft að endurskoða nokkra þætti aðalskipulagsins, meðal annars vegna breyttra áherslna á uppbyggingu hafnarinnar.
2011
Í áhættuskoðun Almannavarnanefndar Akraness kemur fram að búast megi við lyktarmengun frá fiskimjölsverksmiðju og hausaþurrkun Laugafisks.
2012
Faxaflóahafnir úthluta HB Granda 1óð á Norðurgarði í Reykjavík undir frystigeymslu m.a. með þeim forsendum að HB Grandi vinni að endurbótum á útliti eigna sinna í Reykjavík og vinni með myndlistarmönnum að hönnun á ytra byrði frystigeymslunnar þannig að útlit hennar verði öllum til mikils sóma.
2013
Í maí er lögð fram tillaga að Aðalskipulagi Akraness 2013-2025, sem er endurskoðun Aðalskipulags Akraness 2005-2017. Í tillögunni er meðal annarra þátta horfið frá fyrri áætlunum um byggingu stórskipahafnar en haldið inni 70 þús. m² landfyllingu í og við Steinsvör og Skarfavör undir hafnarsvæði. Þær hugmyndir ala af sér grasrótarhreyfingu sem mótmælir kröftuglega þeirri ráðagerð. Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar Akraness í ágúst er byggingar- og skipulagsfulltrúa falið að ræða við skipulagshönnuð og skipulagsfulltrúa Faxaflóahafna varðandi minnkun á landfyllingu hafnarsvæðisins. Þetta er ákveðið að undangengnum fundi með bæjarráði þar sem fram kemur að haft skuli að leiðarljósi að fylla ekki upp í Steinsvör og Skarfavör.
HB Grandi kaupir starfsemi Laugafisks hf. Sem er gamalgróið fyrirtæki á sviði þurrkunar á fiskafurðum fyrir Nígeríumarkað og Vigni G. Jónsson hf. rótgróið fyrirtæki á sviði hrognavinnslu og sölu.
2014
HB Grandi óskar eftir úthlutun lóðar á Breiðarsvæðinu í eigu Akraneskaupstaðar þar sem þeir hyggjast flytja og sameina starfsemi við forþurrkun, eftirþurrkun og pökkun á afurðum. Í því felst stækkun á lóð og húsnæði.
HB Grandi festir kaup á öllu hlutafé framleiðslufyrirtækisins Norðanfisks ehf. á Akranesi sem sérhæfir sig í vinnslu sjávarafurða. Kaupin eru liður í áherslu HB Granda á aukna verðmætasköpun úr aflaheimildum félagsins. Norðanfiskur er þriðja fyrirtækið á Akranesi sem HB Grandi festir kaup á á stuttum tíma.
Nýr meirihluti Sjálfstæðisflokks og Bjartrar Framtíðar tekur til valda á Akranesi í byrjun sumars. Fljótlega eftir það leggur HB Grandi fram deiliskipulagsuppdrátt að Breiðarsvæðinu sem skipulags- og umhverfisnefnd tekur vel í.
Í september samþykkir bæjarráð erindi HB Granda um stækkun lóðar og felur bæjarstjóra að stofna starfshóp um Breiðarsvæðið til að undirbúa breytingu á gildandi deiliskipulagi.
Um haustið kynnir HB Grandi hugmyndir sínar fyrir stjórn Faxaflóahafna þar sem þeir gera ráð fyrir nýrri frystigeymslu og byggingum undir vinnslu á bolfiski og uppsjávarafurðum á Akranesi. Í lok árs taka Faxaflóahafnir og Akranesbær til umfjöllunar tillögur að landfyllingu sunnan Akraneshafnar vegna áforma HB Granda um að reisa þar byggingar undir fiskvinnslu og tengda útgerðarstarfsemi sína og dótturfélaga. Hér er komin aftur inn í umræðuna sambærileg landfylling og gert er ráð fyrir í Aðalskipulagi Akraness 2005-2017, eða allt að 70 þús. m² að landstærð, en forsendurnar eru aðrar. Óljóst er hvernig á að verða úti um þá 600 þús. rúmmetra af landfyllingarefni sem þarf til verksins og hvernig aðgerðin á að standa undir kostnaði. Upp frá þessu er aldrei minnst á Steinsvör eða Skarfavör í þessu samhengi, heldur er talað um landfyllingu sunnan Akraneshafnar, en þar eru einmitt varirnar tvær.
2015
Í apríl kemur út lyktarmatsskýrsla VSÓ að beiðni Akraneskaupstaðar með það að markmiði að leggja mat á mengunarvarnir sem HB Grandi ætlar að nota til að draga úr lyktarmengun frá nýrri fiskþurrkunarverksmiðju. Niðurstaða skýrslunnar er að lykt ráðist af mörgum þáttum en að lykt muni minnka frá fiskþurrkun HB Granda ef áform þeirra ná fram að ganga. Aldrei verði þó hægt að reisa vinnslu sem er algjörlega lyktarlaus.
28. maí mæta um 200 íbúar Akraness á kynningarfund um málefni HB Granda á Breiðinni. Þar kynnti forstjóri HB Granda framtíðarsýn fyrirtækisins á Akranesi, VSÓ ráðgjöf fór yfir lyktarmatsskýrslu sína og fulltrúi Betri byggðar afhenti bæjarstjóra undirskriftarlista með á fjórða hundrað nöfnum bæjarbúa sem mótmæla fyrirhugaðri stækkun Laugafisks.
Málefni fiskþurrkunarinnar er tekið fyrir í Kastljósi á RÚV á haustmánuðum. Daginn eftir er erindi skipulags- og umhverfisnefndar Akraness vegna umsóknar HB Granda um breytingu á deiliskipulagi á Breiðarsvæðinu tekið fyrir á fundi bæjarstjórnar Akraness þar sem bæjarstjórn samþykkir að óska eftir ítarlegri skipulagsgögnum og upplýsingum um búnað og aðferðir sem HB Grandi hyggst beita til að sporna gegn lyktarmengun. Viðbrögð formanns Verkalýðsfélags Akraness í fjölmiðlum eru að meira sé gert úr málinu en efni standa til og það sé ekki eins og það sé ýldufýla á Akranesi 365 daga ársins. Á meðan að á þessu stendur eða um svipað leyti festir HB Grandi kaup á 16 lóðum og lóðahlutum á Akranesi af óljósum ástæðum, alls um 30 þús. m².
Bæjarráð og bæjarstjórn Akraness samþykkja skömmu fyrir jól að hefja viðræður við Faxaflóahafnir um fyrirhugaða framkvæmd við landfyllingar sunnan Akraneshafnar. Kostnaðurinn er áætlaður um eða yfir tvo milljarða króna og Faxaflóahafnir leggja áherslu á að þetta sé samstarfsverkefni Akraneskaupstaðar, Faxaflóahafna og HB Granda. Bæjaryfirvöld leggja áherslu á að skoðuð verði sérstaklega áhrif landfyllingar á Langasand. Bæjarstjórn Akraness er að öðru leyti mjög jákvæð gagnvart áformum HB Granda, markmið hennar er að fjölga störfum í sjávarútvegi á Akranesi og afleiddri starfsemi.
2016
HB Grandi birtir umhverfisskýrslu sína 19. janúar vegna fyrirhugaðrar starfsemi fyrirtækisins á Breiðarsvæðinu. Fram kemur að ekki verði hægt að komast hjá allri lyktarmengun frá fiskþurrkuninni en hún ætti ekki að vera meiri en dauf nema í undantekningartilvikum.
26. janúar samþykkir bæjarstjórn Akraness að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi Breiðarsvæðis. Deiliskipulagstillagan felur meðal annars í sér stækkun og breytingu lóða, 4.000 m². landfyllingu í Steinsvör og norður af Skarfavör og sjóvarnargarð til að verja hús og lóðir fyrir ágangi sjávar, heimild upp á 6.868 m² byggingamagn og 13 metra háar byggingar.
16. febrúar heldur bæjarstjórn Akraness kynningarfund um tillögu að breytingu á deiliskipulagi Breiðarsvæðis. Í kjölfarið fara af stað tvær undirskriftasafnanir á vegum íbúa á Akranesi. Annars vegar til stuðnings breytingartillögu að deiliskipulagi sem felur í sér áform um stækkun fiskþurrkunar á Breiðarsvæðinu og hins vegar undirskriftasöfnun til stuðnings loftgæðum fyrir alla sem felur í sér að hafna núverandi áætlun og skoða aðra staðsetningu fyrir fiskþurrkun HB Granda.
Valdatafl
Eftir höfðinu dansa limirnir
Skipulagsvaldið er í höndum sveitarstjórna, lýðræðiskjörinna fulltrúa sem starfa í umboði íbúa og eiga að starfa í þágu þeirra. Það er því í höndum kjósenda að velja það fólk til starfanna sem þeir treysta til að setja hagsmuni heildarinnar ofar öðru. Stjórn Faxaflóahafna fer með valdsvið hafnarstjórnar sem hefur stjórnunarlega ábyrgð á Akraneshöfn. Hún þarf að vera höfð í samráði við skipulag hafnarsvæðis og samþykk allri mannvirkjagerð sem sveitarstjórn veitir framkvæmdaleyfi fyrir.
Bæjarstjórnir síðustu ára á Akranesi, skipaðar öllum flokkum, hafa stutt starfsemi fiskþurrkunar í óþökk hluta íbúanna. Það hefur verið gert með þeim formerkjum að rekstraraðilar haldi meðal annars áfram að þróa og betrumbæta mengunarvarnarbúnað. Vera má að það hafi með sanni verið einlæg trú hverrar bæjarstjórnar á fætur annarri að með tímanum myndi ólyktin hverfa eða dofna, eða fólk myndi hætta að taka eftir henni. Annar möguleiki er að bæjaryfirvöldum hafi fundist ólyktin réttmætur fórnarkostnaður fyrir starfsemina eða viljað láta hana njóta vafans. Gera má ráð fyrir að bæjaryfirvöld séu undir nokkrum þrýstingi frá Verkalýðsfélagi Akraness, HB Granda og afleiddri starfsemi þegar kemur að fiskþurrkuninni og réttlæti núverandi deiliskipulagsbreytingu með stefnu og markmiðum sínum um eflingu sjávarútvegs og afleiddrar starfsemi á Akranesi.
Vald HB Granda er í formi stöðu þeirra. Þeir nýta sér fjárhagslegan styrk sinn og tengdra hagsmunaaðila og geta látið bæjarbúa, starfsfólk, stofnanir og önnur fyrirtæki kenna aflsmunar. Hugmyndir HB Granda um stækkun fiskþurrkunarinnar er bara eitt púsl í mun stærra púsluspili. Fyrirtækið hefur sín áform og með kröfum, yfirlýsingum og aðgerðum sínum skapar það þrýsting meðal annars á stofnanir og ráðamenn sveitarfélaga. HB Grandi er stórt fyrirtæki sem gegnir miklu ábyrgðarhlutverki í samfélaginu, þar sem það fer með tímabundinn ráðstöfunar- og nýtingarrétt á fiskiauðlindinni. HB Grandi gegnir ekki síður stóru ábyrgðarhlutverki gagnvart eigendum sínum og starfsmönnum. Fyrirtækið starfar í samkeppnisvæddu umhverfi á sviði sjávarútvegs og megin markmið þess er fyrst og fremst að lifa af, tryggja framtíðarrekstur og auka hagvöxt.
Einhverjum gæti þótt það skjóta skökku við að fyrirtækið skuli sýna svona mikla dirfsku þegar mið er tekið af stöðu markaðarins fyrir þurrkaðar fiskafurðir og kynnu að spyrja sig eftir hverju það er raunverulega að slægjast. HB Grandi hefur verið að kaupa upp fyrirtæki og lóðir á Akranesi og sækist eftir úthlutun lóða við höfnina og á Breiðinni. Það fellst mikil hagræðing í því að hafa alla starfsemina á sama punktinum, tryggja sér framtíðar atvinnusvæði og stöðu á samkeppnismarkaði.
Vald þeirra sem eru á móti breyttu deiliskipulagi er fyrst og fremst í formi málstaðar. Þau vekja athygli á málstað sínum í gegnum fjölmiðla, samfélagsmiðla og á íbúafundum og eiga þannig greiða leið að fólki og geta komið skoðunum sínum á framfæri. Fylgjendur nýja deiliskipulagsins saka mótmælendur um tilbúning, ósannindi, að standa í vegi fyrir atvinnuuppbyggingu og spilla samstöðu bæjarbúa. Á móti eru þeir sakaðir um hræðsluáróður, ósannindi og að standa með peningaöflunum.
Atburðarrás verkefnisins segir okkur að mótmælendur hafi mátt sín lítils í baráttunni við fiskþurrkunina. Sveitarfélagið hefur gefið HB Granda mikla vigt í samfélaginu og bæjaryfirvöld hafa gengið erinda fiskþurrkunar og starfsemi henni tengdri. Faxaflóahafnir hafa helst staðið HB Granda á sporði sem hefur með kænsku og aflsmunum tekið sér stöðu á valdataflinu.
Pólitísk samþætting og Nimby áhrif
Að undanförnu hefur HB Grandi keypt upp lóðir og sjávarafurðarfyrirtæki á Akranesi. Áform fyrirtækisins er að reisa nýja fiskþurrkun, frystigeymslu og byggingar undir vinnslu á bolfiski og uppsjávarafurðum á Akranesi. Bæjaryfirvöld hafa lýst því yfir að þau séu reiðubúin að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að greiða götur HB Granda þegar kemur að frekari uppbyggingu á Akranesi og það er yfirlýst stefna Faxaflóahafnar að efla Akraneshöfn sem fiskihöfn. Í því samhengi liggur fyrir samningur á milli Akraneskaupstaðar, Faxaflóahafnar og HB Granda um lóðaúthlutanir og miklar landfyllingar undir fyrirhugaða starfsemi HB Granda á Akranesi. Það er því nokkuð ljóst að Akraneskaupstaður, Faxaflóahafnir og HB Grandi eru í meginatriðum sammála um að efla og styrkja sjávarútveg og afleidda starfsemi á Akranesi. Hvað varðar málefni fiskþurrkunar eru sömu aðilar ásamt Heilbrigðiseftirliti Vesturlands sammála um að lyktarmengun af völdum fiskþurrkunar í bænum hafi verið ólíðandi fram til þessa. Það sem fólki greinir á um er hvort það verði hægt að halda ólykt innan viðunandi marka, sem að hlýtur að vera upp að vissu marki persónubundið mat.
Íbúasamtökin Betra Akranes berjast fyrir jöfnum loftgæðum fyrir alla og vilja að bæjaryfirvöld hefji viðræður við HB Granda um aðra staðsetningu í sátt við alla íbúa Akraness. Bæjaryfirvöld, Heilbrigðiseftirlit Vesturlands og þeir íbúar sem vilja samþykkja breytingartillögu að deiliskipulagi eru aftur á móti sammála um að leyfa fiskþurrkuninni að njóta vafans og treysta á fyrirheit HB Granda um bættar mengunarvarnir og minni lyktarmengun í framtíðinni.
Íbúar Akraness eru flestir sammála um að viðvarandi lyktarmengun hafi stafað af fiskþurrkuninni og vilja ekki hafa starfsemi hennar nálægt sínum heimkynnum. Jafnframt eru flestir íbúar sammála um mikilvægi iðnaðarins í atvinnulífi Akraness og flestir eru sammála um að vert sé að athuga möguleikana á því að flytja fyrirtækið innan bæjarfélagsins en út fyrir íbúabyggð. Margir virðast þannig líta á þetta sem ákveðna og jafnvel sjálfsagða framþróun í samfélaginu en fólk vill bara að hún eigi sér stað fjarri sínum heimahögum. Það er að segja „Not In My Back-Yard“.
Skortur á lýðræði
Lýðræðiskjörnir fulltrúar og stjórnsýslan fara með mikil völd í formi pólitískra ákvarðanna og ábyrgðar. Valdið er vandmeðfarið og þarf að beita á uppbyggilegan hátt í sátt og samlyndi við sem flesta. Almennt er það sveitarstjórnum til framdráttar ef þær geta stuðlað að heilbrigðri og skynsamlegri rökræðu áður en átök hefjast og fólk fer í skotgrafirnar. Þegar niður í grafirnar er komið er hætt við að fólk vilji ekki lengur kynna sér mismunandi sjónarmið og í stað þess að beita röksemdarfærslum beitir það hlutdrægri staðfestu eða réttlætingu. Allir vilja ná sínu fram án þess að miðla málum. Til að ná völdum er beitt kænsku eða aflsmunum, jafnvel með því að höfða til tilfinninga fólks, ala á fordómum eða ótta með einhverskonar áróðri eða mælskufræði.
Ákveðnir ráðamenn skjóta upp kollinum ítrekað í mismunandi ábyrgðarhlutverkum í ferlinu, sem vekur upp spurningar um hagsmuni og hæfi. Þannig er formaður bæjarráðs einnig í stjórn Heilbrigðiseftirlits Vesturlands og stjórn Faxaflóahafna og fyrsti varaforseti bæjarstjórnar Akraness jafnframt formaður umhverfis- og skipulagsnefndar, formaður starfshóps um Breiðarsvæðið, varamaður í stjórn Faxaflóahafnar og tæknistjóri hjá Skaganum hf. sem er leiðandi fyrirtæki í hönnun og framleiðslu vinnslubúnaðar fyrir matvælaiðnað. Annar varaforseti bæjarstjórnar og áheyrnarfulltrúi í stjórn Faxaflóahafnar er formaður Heilbrigðisnefndar Vesturlands.
Hver græðir, hver tapar og hin mörgu ef?
Að vissu leyti hefur samfélagið á Akranesi tapað án þess að ákvörðun hafi verið tekin. Umræðan, umfjöllunin og átökin hafa magnast og hætt er við að sama hver niðurstaðan verður muni ekki ríkja sátt um hana, heldur muni hún valda óánægju, sem bitnar á þeim er með ákvörðunarvaldið fara.
Ef það verður af breyttu deiliskipulagi uppfyllir Akraneskaupstaður loforð sín gagnvart HB Granda. Það er hins vegar engin staðfesting fyrir því að af uppbyggingu HB Granda verði. Fáist öll tilskilin leyfi getur HB Grandi ráðist í fyrirhugaðar framkvæmdir. Ef að af uppbyggingu verður mun HB Grandi ná hagræðingu í vinnsluna með nýrri og hagkvæmari fiskþurrkun og samfélagið allt, ekki síst rekstrar-, þjónustu- og framkvæmdaraðilar, gæti hagnast á auknum umsvifum fyrirtækisins. Aukin umsvif HB Granda væru í takt við yfirlýst markmið Akraneskaupstaðar og Faxaflóahafna og vilja Verkalýðsfélags Akraness um styrkingu fiskihafnar, fleiri störf í sjávarútvegi og afleiddri starfsemi á Akranesi.
Framkvæmdir á Breiðarsvæðinu munu hafa í för með sér landfyllingar sem hefðu óafturkræf áhrif á ásýnd svæðisins þar sem háir veggir rísa meðal annars fyrir aftan núverandi forþurrkunarhús. Fyrir utan það kosta framkvæmdir við landfyllingu mikla fjármuni sem að hlutaðeigandi aðilar ætla sér þó væntanlega að fá til baka með einum eða öðrum hætti og helst ríflega. Það er sannreynd þekking að fiskþurrkun veldur lyktarmengun en ef sett markmið HB Granda ná fram að ganga á lyktarmengun vegna nýrrar fiskþurrkunarverksmiðju hins vegar ekki að valda nágrönnum sínum ama. Nú er svo komið að hverjar sem lyktir markmiðasetninga HB Granda verða er hætt við að það muni verða reiðarslag fyrir marga íbúa Neðri-Skaga og þeim til vitnis um mikið óréttlæti, samþykki bæjarstjórn deiliskipulagsbreytinguna. Margir íbúar Neðri-Skaga hafa barist gegn núverandi fiskþurrkun í rúman áratug og hætt er við að þau skilaboð yrðu mörgum þungbær. Ef markmið HB Granda ná hins vegar ekki fram að ganga og af fiskþurrkuninni hlýst áfram ólíðandi lyktarmengun gæti reynst full seint að byrgja brunninn og afleiðingarnar yrðu margþættar og sama ferlið heldur einfaldlega áfram.
Ef deiliskipulagsbreytingin nær ekki fram að ganga mun framtíð fiskþurrkunar áfram vera í óvissu, sem fer illa í starfsfólk og bitnar á starfsemi verksmiðjunnar. Þeirri óvissu væri hægt að eyða ef fólk myndi sameinast um aðra staðsetningu. Það yrði kannski ákveðið bakslag í áformum bæjaryfirvalda, Faxaflóahafna og HB Granda en fyrir liggja fleiri hugmyndir um uppbyggingu á svæðinu. Náttúran fengi að vera í friði og fjármunir af fjárlögum myndu sparast. HB Grandi hefur ítrekað að engin áform séu uppi um að hætta starfsemi á Akranesi sama hver niðurstaðan verður. Ef þeim snýst hugur og myndu setja stefnuna á annað uppbyggingarsvæði yrði samfélagið af mörgum störfum og bæjaryfirvöld og Faxaflóahafnir yrðu af tekjum og gjöldum. Að sama skapi myndi lyktarmengandi iðnaður hverfa á braut og íbúar Neðri-Skaga myndu njóta sömu loftgæða og aðrir íbúar. Þá gæti skapast rými til að endurskoða Aðalskipulag Akraness 2005-2017 og áherslur í atvinnuuppbyggingu.
Sama hvernig fer er ekki ólíklegt að málið muni leiða af sér áframhaldandi deilur.
Hvert stefnum við?
Átök íbúa eru í fyrirrúmi á meðan framkvæmdaaðilar hylja sig af kænsku á bak við valdhafa sem skýla sér á bak við lýðræðislega ferla, stefnu, lög og reglur. Má vera að ákvörðun hafi verið tekin og réttlætingar leitað í kjölfarið? Eru bæjaryfirvöld að ögra almenningi?
Þrátt fyrir langt og strembið ferli ríkir enn ágreiningur um verkefnið. Starfsemi fiskþurrkunar hefur farið í gegnum mörg starfsleyfi þrátt fyrir langvinnar umkvartanir nágranna vegna óþefs. Starfsemin hefur setið af sér nokkrar stjórnsýslukærur, þrálátar viðræður, ábendingar og skilmála heilbrigðisfulltrúa, umhverfisráðuneytis og bæjaryfirvalda vegna annmarka á rekstri og óuppfylltra skilyrða. Að auki hefur verið haft samráð við hagsmunaaðila, leitað eftir öllum tiltækum leiðum til að vinna bug á óþefnum til að vera í meiri sátt við íbúa.
Þannig að svo virðist sem við hjökkum í sama fari. Vitnað er í gildandi aðalskipulag sem forsendur fyrir deiliskipulagsbreytingu en árin upp úr aldamótum voru sveitarfélögin við Faxaflóa í mikilli samkeppni um lendingu sameiginlegrar stórskipahafnar og svokölluð Skarfatangahöfn með nýjum hafnarsvæðum og athafnasvæði rambaði inn í Aðalskipulag Akraness 2005-2017. (Sambærileg tískufyrirbrigði komu til dæmis fram í skipulagi fyrir Straumsvík í Hafnarfirði, Kársnes í Kópavogi og Grundartanga í Hvalfjarðarsveit). Þessi áætlun var sett inn á aðalskipulag samkvæmt drögum Siglingastofnunar sem meginforsenda uppbyggingar í sjávarútvegi á Akranesi, þrátt fyrir að sýnt væri að af framkvæmdinni hlytust talsverð óafturkræf áhrif á strönd, minjar og bæjarmynd. Seinna átti eftir að koma í ljós að forsendur og skilyrði fyrir þessum mannvirkjum voru ekki til staðar og ekki heldur vilji hjá bæjarbúum. Endurskoðun á gildandi aðalskipulagi hefur aftur á móti dregist mjög á langinn sem gerir það að verkum að nú er hægt að skýla sér á bak við úreltar og ófullunnar hugmyndir í gildandi aðalskipulagi.
Niðurstöður lyktarmatsskýrslu VSÓ, umhverfisskýrslu HB Granda, starfshóps um Breiðarsvæðið og kynningarfunda hafa ekki verið til þess fallnar að friðþægja mótmælendur né fyrirheit um óháðan lyktarskynmatshóp eftir að fyrsta hluta framkvæmda verður lokið. Fjárhagsleg rök eða peningaöflin njóta vafans og nágrannar fiskþurrkunar, sem virðast ekki hafa lögvarinna hagsmuna að gæta, mega sín lítils ef bæjaryfirvöld standa ekki við bakið á þeim.
Er slík þróun ásættanleg?
Það er ekki sveitarstjórnum til framdráttar ef þær geta ekki stuðlað að heilbrigðri og skynsamlegri rökræðu áður en átök hefjast. Ekki er hægt að sætta sig við þróun mála ef við viljum bæta þau og hafa ferlana í lagi. Ef við viljum koma í veg fyrir sífellda árekstra hagsmunaaðila á öllum stigum málsins og jafnvel eftir að framkvæmdir eru hafnar þarf eitthvað að breytast, til dæmis hugarfar og vinnulag, og bæta þarf faglega þekkingu og hæfi þeirra sem vinna að skipulagi hjá sveitarfélögum.
Óþarfi er að tíunda kosti fjölbreytni fram yfir fábreytni en það á líka við um flóru mannauðsins. Leiða má líkum að því að íbúar neðri Skagans séu að einhverju leyti aðrar manngerðir en íbúar efri Skagans. Á neðri Skaga er gamla þorpið, elstu hús Akraness sem geyma ákveðna sögu, uppruna og anda þorpsins. Í þessum eiginleikum geta falist mikil verðmæti fyrir sveitarfélög. Viðhald gamalla húsa er krefjandi og þarfnast kannski ákveðinnar natni, ástríðu og hugsjónar. Vert er því að hugleiða gaumgæfilega þau skilaboð sem þessum íbúum eru send og hver viðbrögð þeirra verða.
Ein megináherslan í aðalskipulagi Akraness er á fjölbreytt atvinnulíf. Samfélag með einhæft atvinnulíf er berskjaldaðra fyrir sveiflum á markaði. Sveiflur í starfsemi HB Granda hafa til að mynda komið illa niður á Vopnfirðingum, þar sem utanaðkomandi orsakir, viðskiptaþvinganir á Rússa, höfðu verulega neikvæð áhrif á samfélagið. Þannig hafa miklar sveiflur verið í starfsmannaveltu HB Granda á Akranesi fram til þessa og lamaður Nígeríumarkaður fyrir þurrkaðar fiskafurðir gefur ekki tilefni til bjartsýni.
Í ljósi þessa eru umsvif HB Granda á Akranesi og sterk staða fyrirtækisins ekki endilega góð fyrir íbúalýðræðið. Bæjaryfirvöld eiga hugsanlega í erfiðleikum með að samsvara aflsmunum þeirra. Þá er HB Granda í lófa lagt að sýna samfélagslega ábyrgð af eigin frumkvæði og skoða aðra kosti eða staðsetningu fyrir fiskþurrkunina sína. En sumum gæti þótt það löglegt en siðlaust að bæjaryfirvöld taki peningavöldin fram yfir rétt íbúa til heilnæms umhverfis.
Hvað er hægt að gera í málinu?
Hluti af því að skilja nútíma skipulag er að hafa augu og eyru opin og velta fyrir sér framtíðinni. Stundum með gagnrýni og afskiptum og stundum með nýrri sýn eða afstöðu. Horfa þarf á tengslin og samhengið á milli mismunandi þátta, líkt og rökvísi, valds, sannleika, rökhyggju og þekkingar. Það virðist vera í þessu máli sem og í mörgum sambærilegum málum að það hafi skort skynsama og heilbrigða rökræðu, það hafi ekki verið raunverulegur vilji fyrir málamiðlunum og fólk hafi verið fljótt í skotgrafirnar.
Það þarf að skoða áhrif fyrirtækja, stofnana, hópa og einstaklinga í krafti stöðu þeirra og vera vakandi fyrir og bregðast við valdamisvægi. Völd valda vandamálum þegar kemur að valddreifingu og hættan er að stjórnmálafólk neiti að deila valdinu. Þannig ber að varast að sömu einstaklingarnir komi að því að taka ákvarðanir á mörgum stigum í ferlinu. Líkt og í bæjarstjórn, heilbrigðisnefnd, skipulags- og umhverfisnefnd, hafnarstjórn o.s.frv. Það kann að sæta undrun að Heilbrigðiseftirlit Vesturlands, skipulags – og umhverfisnefnd og bæjarstjórn vilji samþykkja fiskþurrkun í nálægð við íbúabyggð. Ekki síst orkar það tvímælis í ljósi skilyrða heilbrigðiseftirlitsins og bæjaryfirvalda þess efnis að fiskþurrkunin valdi ekki lyktarmengun, þegar niðurstöður rannsókna og umhverfisskýrslna hafa leitt í ljós að hún geti aldrei orðið lyktarlaus.
Við lifum nýja tíma, örar breytingar hafa orðið á íslenskum atvinnuháttum, fólk ver tíma sínum öðruvísi en áður og áherslur hafa breyst. Gömlum hefðum, sem svara ekki lengur kröfum nútímans, hefur verið skipt út fyrir ný viðhorf og gildi. Stóraukinn hluti fólks hefur tileinkað sér óhefðbundnari og meira skapandi lifnaðarhætti. Gildismat, smekkur og jafnvel almenn skynsemi hefur breyst. Kröfur um umhverfisgæði hafa almennt aukist hjá Íslendingum og er tími til kominn að taka frekara mark á íbúum í nágrenni við illa lyktandi iðnað og sýna kröfum þeirra um jöfn loftgæði fyrir alla meiri tillitsemi. Vera má að um gloppur í kerfinu eða löggjöfinni sé að ræða og að grípa þurfi til siðgæðis og hyggjuvits. Stofnanir og sveitarfélög þurfa að taka ákvarðanir sem verða til eftirbreytni og í hag komandi kynslóða.
Í rauninni greinir fólki ekki á um margt en það þarf að taka ákvörðun byggða á þekkingu en ekki geðþótta. Skipulagsmál og hönnun umhverfisins þarfnast viðeigandi sérfræðiþekkingar til að minnka líkurnar á afkáralegu skipulagi. Hægt yrði að vinna að ásættanlegri áætlun með hjálp óháðra fagaðila þar sem allir hefðu sama möguleika á að nálgast upplýsingar.
Það er oft mikið fúsk í skipulagsvinnu sem er síðan notað til að réttlæta aðgerðir. Aðalskipulag er ekki verkfræðiteikning, það er lifandi plagg þar sem stefna sveitarstjórnar um landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi, umhverfismál, þróun byggðar og byggðamynstur birtist og sem slíkt á það alltaf að vera í endurskoðun. Þrátt fyrir að núverandi breytingartillaga að deiliskipulagi samsvarist að hluta ákveðnum hugmyndum sem fólk hafði við gerð gildandi aðalskipulags þá væri hægt að tína til mörg atriði sem orka tvímælis, má þar nefna leiðarljós aðalskipulagsins sem segir „Á Akranesi skulu vera góðar aðstæður fyrir öflugt og fjölbreytt atvinnulíf og fjölskylduvæn búsetuskilyrði í heilnæmu umhverfi, fallegum bæ með traustum samgöngum“.
Mikilvægt er að fylgja efnahagsþróuninni og vera í sífelldri endurreisn, því hættan er sú að samfélagið vaxi á óraunhæfum hraða og staðni. Í verstu mynd gæti Akranes orðið ósjálfbær svefnbær í útjaðri Reykjavíkur með fábreyttu atvinnusvæði. Verði þróun Akraness sjálfbær, miði vexti þess áfram á raunhæfum hraða og verði áhersla lögð á félagslega samstöðu íbúa um stefnu og þróun, gæti sveitarfélagið skapað frjótt umhverfi sem stuðlar að vexti og framgangi skapandi atvinnustarfsemi með heildstæðri stefnu í skipulagsmálum, sem skilar sér í efnahagslegum og samfélagslegum ávinningi fyrir Akranes.
Höfundur er skipulagsfræðingur.