„Ég þoli ekki LÍN!“ eru orð sem flestir í kringum mig sem stunda eða hafa stundað lánshæft lán, hafa látið frá sér falla í mín eyru. Ég er ekki undanskilinn því að ég hef svo sannarlega sagt þessi orð nokkuð oft. Enda er það ekki skrítið. Þessi blessaða stofnun og starfsemi hennar er svo langt fyrir ofan minn skilning og það þrátt fyrir það að ég er bara nokkuð meðalgreindur mannapi eins og Georg myndi segja.
Ég ætla að fara yfir nokkra punkta á hundavaði um það sem mér finnst vera mest ámælisvert við þessa stofnun og starfsemi hennar.
1. Ég skil ekki með nokkru móti hvers vegna námsmenn sem þurfa að nýta sér þjónustu LÍN, þurfi í raun að vaða eld og brennistein til þess að fá lán svo viðkomandi þurfi ekki að stunda fulla vinnu með námi sínu. Það er samt raunin, flestir stunda einhverja vinnu með námi. Fólk sem sagt sækir um lán hjá stofnuninni og fær samþykkt. Það er gleðiefni, því jú það skemmtilegasta sem fólk veit er að skuldsetja sig. En nei ferlinu er ekki lokið, því viðkomandi þarf svo að fara í viðskiptabankann sinn og væla út yfirdrátt til þess að geta lifað með námi þangað til að önninni er lokið og námsárangri er skilað inn til LÍN. Þá er yfirdrátturinn greiddur niður og skuldin færist frá bankanum og yfir til LÍN. Það er að segja ef viðunandi námsárangri er náð, alls ekki fyrr!
2. Ef þú ert námsmaður erlendis sem ert í öðruvísi annarfyrirkomulagi en þekkist hér þá geturðu lent í heljarinnar vandræðum með að fá greidd út námslán á réttum tíma til að borga leigu og uppihald. Því að í LÍN er viðhorfið oft á tíðum „computer says no“.
3. Ef þú ert einstaklingur sem ert búinn að vera á vinnumarkaði í einhvern tíma þá geturðu eiginlega gleymt því að þú fáir námslán. Farðu bara aftur á vinnumarkaðinn, enda tímasóun að mennta sig, er það ekki? Nei, ég held að flestir séu sammála mér í því að mennt er máttur. En ef þú ert einhleypur einstaklingur sem býrð í leiguhúsnæði og átt ekki börn og hefur haft heildartekjur upp á 6.500.000 á árinu sem gera 540.000 í heildarlaun á mánuði, þá færðu heilar -89.010 krónur. Já, þetta er mínus fyrir framan töluna! En ef þú ert giftur eða í sambúð með tvö börn og sömu laun og hér að ofan að þá færðu heildarlán upp á kr. 121.590. Þetta er s.s. talan fyrir önnina, ekki á mánuði. Þetta er samkvæmt reiknivél á heimasíðu LÍN.
4. Ef þú ert einstaklingur sem átt barn úr fyrra sambandi en ert ekki með lögheimili barnsins hjá þér, þótt barnið búi jafn mikið hjá þér og lögheimilisforeldrinu þá þarftu með stimpluðum pappírum frá sýslumanni að færa sönnur á að þú eigir þetta barn svo mögulegt sé að fá hækkun á lánin vegna framfærslu barnsins. Þarna er reyndar ekki eingöngu LÍN að kenna, heldur löggjafanum sem er ekki enn búinn að breyta skráningarfyrirkomulagi er varða mál af þessu tagi. Þarna eru stofnanir ekki að ræða saman.
5. Ef þú ert einstaklingur sem hefur lent í fjárhagsvandræðum og ert á vanskilaskrá þá er eina leiðin fyrir þig til þess að fá námslán að fá einhvern til þess að ábyrgjast þig. Þó að það svo myndi ganga eftir og LÍN myndi samþykkja það, þá gætir þú ekki farið í bankann þinn til þess að fá þennan guðdómlega yfirdrátt til þess að draga fram lífið því bankastofnuninn myndi ekki veita þér yfirdráttinn og það jafnvel þótt þú kæmir með manneskju sem væri reiðubúin til þess að ábyrgjast þig.
6. Ef þú ert einstaklingur sem býr í leiguíbúð, eins og stór hluti ungs fólks á Íslandi gerir. Því ekki hefur ungt fólk efni á að kaupa sér íbúð (Hæ Eygló!). En já, ef þú býrð í leiguhúsnæði og ert með meðleigjanda sem skráður er fyrir leigusamningnum þá ertu bara í djúpum, alveg upp fyrir hnén. Því að þá ertu samkvæmt LÍN að búa frítt einhverstaðar og rýrna námslánin í samræmi við það!
Þetta eru nokkur dæmi sem ég get talið upp. Íslenskir námsmenn eru kannski bara bjánar að láta bjóða sér þessa framkomu, ég veit það ekki. Í það minnsta er þetta ekki mikið rætt af þeim aðilum sem eru til þess bærir. Hagsmunasamtök stúdenta hafa jú minnst á framfærsluna sem er svo skammarlega lág að það nær ekki nokkurri átt en það þarf að halda upp miklu stífari áróðri.
Alþingismenn þurfa að taka af skarið og búta LÍN niður í frumeindir og byggja eitthvað nýtt á grunninum. Námsmenn eiga ekki að þurfa að upplifa sig sem annars flokks þjóðfélagsþegna fyrir þá sök að stunda nám. LÍN eða það sem kæmi í staðinn ætti að taka upp styrkjafyrirkomulag eins og þekkist á nágrannalöndum okkar. Það þarf að stoppa þetta samkrull LÍN og bankanna. Það þarf að gera námsmönnum kleift að stunda nám án þess að þurfa að stunda vinnu með. Það á ekki að refsa fólki sem sýnir vilja til þess að bæta eða auka menntun sína, fyrir að hafa verið á vinnumarkaði.
Höfundur er stjórnarmaður í Bjartri
framtíð.