Það berast ánægjulegar fréttir úr skapandi iðnaði á Íslandi þessa dagana, þar sem mörg frumkvöðlafyrirtæki hafa lokið fjármögnun að undanförnu.
Íslenska tæknifyrirtækið Kaptio ehf. hefur fengið fjármögnun upp á 325 milljónir króna frá tveimur sjóðum, hinum íslenska Frumtaki 2 og bandaríska áhættufjárfestingasjóðnum Capital A Partners, og fyrrum fjárfestum, Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins og Kaski. Fjármögnun er liður í því að gera Kaptio kleift að styrkja vöru á Kaptio Travel lausninni á Bretlandsmarkaði og undirbúa frekari vöxt fyrirtækisins alþjóðlega.
Kaptio var stofnað árið 2009 af Arnari Laufdal Ólafssyni og Ragnari Fjölnissyni. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Hlíðarsmára í Kópavogi. Kaptio opnaði í febrúar söluskriftstofu í London. Fyrir rak fyrirtækið þróunarskrifstofur í Heidelberg í Þýskalandi og í Minsk í Hvíta-Rússlandi. Fjöldi starfsmanna telur 16 manns.
Vonandi tekst fleiri fyrirtækjum, sem eru að færa sig úr því að vera sprotafyrirtæki í að verða fullburða fyrirtæki í vaxtarhugleiðingum, að taka skrefið til fulls og fjármagna mikilvæg framtíðaráform.