Það er skemmtilegt hvernig sagan fer sífellt í hringi. Nú boðar stjórnarandstaðan þingrof og Sjálfstæðismenn hnussa yfir þeirri fásinnu. Árið 1979 var því öfugt farið, Sjálfstæðismenn lögðu fram tillögu um þingrof eftir að stjórn Óla Jó hafði setið að völdum í hálft ár. Efnahagsmálin voru aðalástæðan. Geir Hallgrímsson, formaður flokksins, mælti fyrir tillögunni. Í miklu uppáhaldi er hjá mér þessi málsgrein hjá honum, sem á kannski vel við í dag:
„Viljum við Íslendingar að gjaldmiðill okkar sé gjaldgengur hvar sem er í heiminum og launþeginn telji alvörupeninga upp úr umslaginu, eða viljum við loka okkur frá umheiminum með gervigjaldmiðli sem er aðeins skömmtunarseðill á það sem valdhafarnir á hverjum tíma vilja láta í té?“
En, þar sem nú hyllir undir aðra þingrofsumræðu hef ég tekið að mér það óeigingjarna starf að lesa mig í gegnum ræður Sjálfstæðismanna frá 1979. Stjórnarandstaðan nú getur sótt vopn í smiðju þeirra og kvótað að vild:
Geir Hallgrímsson:
„Fullkomin ástæða er til þess að kjósendur fái að kvitta fyrir þessar blekkingar og svik með því að ganga aftur að kjörborðinu sem fyrst."
„Það er þessi tvískinnungur, þessi loforð fyrir kosningar og vanefndir þeirra loforða eftir kosningar, sem er auðvitað ein höfuðástæðan fyrir flutningi þingrofstíll okkar."
„Herra forseti. Ég vonast til þess að sú atkvgr., sem fram fer á morgun um þáltill. okkar sjálfstæðismanna, leiði í ljós hvaða þm. hafa þor og kjark til þess að áfrýja málum til kjósenda."
Friðrik Sóphusson:
„Ég tel tímabært, herra forseti, að leggja valið í hendur kjósenda."
Matthías Á. Mathiesen:
„Þingrof og nýjar kosningar eru nauðsynleg. Þjóðin hefur verið blekkt og þess vegna verður valið að vera hennar á ný. "
Matthías Bjarnason:
„Og ég skil ósköp vel þá menn, sem sópuðu til sín atkv. á s. l. sumri á fölsk:um forsendum og með lyginni einni saman og hafa staðið sig jafnhörmulega og þeir hafa staðið sig frá því að núv. ríkisstj. var mynduð, að þeir séu hræddir við nýjar kosningar og dóm fólksins. Ég er ekkert að álasa þeim fyrir það. Þeir eru ekki kjarkmeiri menn en það, að þeir þora ekki að standa frammi fyrir þjóðinni og leggja úrræðaleysi sitt og aumingjaskap undir dóm hennar. Það er ekki alltaf reglulegur svefn sem þeir hafa, þessir piltar, ef þeir hafa einhverja samvisku."
Sverrir Hermannsson:
„Það er svo komið fyrir þessari hæstv. ríkisstj., að henni ber siðferðileg skylda til þess að skila af sér þessum völdum. Þjóðinni bráðliggur á því og það er blátt áfram þingræðisleg skylda hennar, eftir að svo er komið sem blasir við allra augum, að hún þegar í stað segi af sér eða rjúfi þing og efni til nýrra kosninga, eins og við höfum lagt til."
Ragnheiður Helgadóttir:
„Þessi till. fjallar um það, að nú sé kominn tími fyrir dóm kjósenda."
Ellert B. Schram:
„Tilgangur okkar sjálfstæðismanna er að upplýsa þjóðina um það ástand sem ríkir núna innan ríkisstj. og þeirra flokka sem styðja hana, upplýsa þjóðina um þá sundrungu sem ríkir um þau veigamestu mál, efnahagsmálin, sem nú eru efst á baugi, og það er tilgangur okkar að gefa þessum flokkum, sem nú standa að ríkisstj., tækifæri til þess að leggja stefnu sína eða stefnuleysi í dóm þjóðarinnar, þannig að hún geti sjálf tekið ákvörðun um það, hvort hún vilji að þessir menn stjórni áfram eða ekki. Og ef ástandið er svo gott sem t. d. hæstv. iðnrh. gaf í skyn í gær og reyndar fleiri hæstv. ráðh. gerðu, hvers vegna eru þeir þá hræddir við að leggja stefnu sína undir dóm þjóðarinnar?"