Í fyrsta sinn síðan ég man eftir mér líður mér líkamlega illa yfir því að búa á Íslandi, og nei, það er ekki aðeins vegna málsins sem hefur tröllriðið allri umræðu í landinu seinustu vikur, varðandi tengsl Sigmundar Davíðs forsætisráðherra við aflandsfélagið Wintris Inc. og fleiri hátt setta ráðherra í landinu sem eru viðloðin slík félög.
Ég finn fyrir gríðarmikilli innilokunartilfinningu í litlu samfélagi þar sem allir hrópa það sama. Ég vil meina það að líf okkar og tilfinningar séu á mun hærra plani en almenn pólitík getur boðið uppá, en í svona máli þar að sem maður í valdamestu stöðu þjóðarinnar hreinlega blekkir alla landsmenn að þá virðist vera engin undankomuleið fyrir þær hundsúru tilfinningar sem að krauma eflaust í kviðum margra akkúrat núna.
Mér finnst það ekki vera ýkjur þegar að ég segi að það sé eins og öll þjóðin standi á öndinni, bíðandi eftir því augnabliki þegar að við getum loks andað frá okkur. En hvenær verður það? Maður myndi halda að það myndi verða EF að svo kemur til að forsætisráðherra segi af sér eða Ólafur Ragnar Grímsson forseti leysi hann af störfum eins og honum einum er kleift að gera.
Það sem gerist í framhaldinu af því er hins vegar allt annað mál. Það sem ég sé fyrir mér er að einhver svipaður kemur í hans stað og að Sigmundur verði ráðinn ritstjóri eins stærsta fjölmiðils landsins þar sem þjóðin bíður átekta eftir næsta hneykslismáli. Það sem er að gerast í íslenskum stjórnmálum núna er í raun bein afleiðing þess sem gerðist í hruninu árið 2008. Það má endilega einhver benda mér á þær framfarir sem hafa orðið varðandi spillingu þeirra sem gegna hæstu valdastöðum inni á þingi því að ég get ekki komið auga á neinar.
Fyrir mér ætti tími nútímastjórnmála að vera löngu liðinn. Ég kýs ekki, og mun halda mig við þá ákvörðun svo lengi sem að það sem er í boði táknar engan veginn þau gildi og hagsmuni sem ég og mínir líkir teljum okkur hafa að gæta í samfélaginu.
Ég veit að það gæti reitt einhverja til reiði sérstaklega þar sem að margir minnihlutahópar hafa í gegnum tíðina þurft að berjast fyrir sínum kosningarétti, en ástæðan fyrir því að m.a. konur stóðu í ströngu til að berjast fyrir þeim rétti að geta kosið er væntanlega vegna þess að þær vildu geta kosið einhvern sem að talar fyrir þeirra hagsmunum. Ef að enginn slíkur stendur til boða til hvers þá að halda afram að taka þátt í þessum fáranlega skrípaleik sem að virðist engan endi ætla að taka?
Ég neita hér með að taka þátt í þessari áframhaldandi sirkus sýningu og að þurfa að pína mig til þess eins að kveikja á sjónvarpinu eða fara inn á samfélagsmiðla til að fylgjast með nýjustu fréttum í málinu.
Ég er ekki að segja að það sé engin von framundan, það er von, en hugarfarið þarf að breytast, og það ekki seinna en núna. Framtíð þessa lands er sem betur fer ennþá í okkar höndum sama hversu óraunverulegt það kann að hljóma þessa stundina.