Þegar áföll dynja yfir og trúnaður brestur er eðlilegt að fyrstu viðbrögð hins vonsvikna séu reiði og æstar tilfinningar. En aldrei er eins nauðsynlegt að leyfa yfirvegun og skynsemi að komast að – eins fljótt og auðið er – og þegar heill þjóðar er í húfi. Þótt Íslendingum séu nú efst í huga málefni stjórnmálamanna og breytni getum við ekki ýtt því til hliðar að fram undan er forsetakjör. Þessi grein geymir almennar hugleiðingar sem það varða. Hún var að mestu samin í mars. Óhjákvæmilega hefur hún tekið breytingum eftir 3. apríl, þótt höfundur hafi reynt að halda ró sinni.
Í mörgum löndum heims eru sterkir forsetar eða forsætisráðherrar, valdamiklir menn sem virðast lítt bundnir af stjórnarskrám og lögum. Dæmi: Pútín og Erdogan. Til eru líka lönd eins og Bandaríkin, þar sem forsetinn fer með framkvæmdavaldið. Þar er aðskilnaður löggjafarvalds og framkvæmdavalds alger. Þannig tvöfalt kerfi er dýrt fyrir litlar þjóðir og getur verið lamandi þegar ágreiningur er á milli forseta og þings. Ýmsar millileiðir hafa vissulega verið farnar. Á fyrstu árunum eftir seinni heimsstyrjöld höfðu Finnar sterka forseta sem fóru að miklu leyti með utanríkismálin og sömdu við voldugan nágranna í kyrrþey. Finnar gáfust upp á þessu og hafa nú svipaðan hátt á og hér á landi. Þjóðverjum hefur eftir stríð gefist vel að hafa valdalitla forseta sem hafnir eru yfir dægurþras.
Reynslan sýnir að þeir sem fá mikil völd fara einatt að dýrka valdið – og sjálfa sig – og vilja meira. Einhvern veginn verður að setja þeirri valdsókn skorður. Það gera góðar stjórnarskrár. Nú lítur út fyrir að Ísland sé í alvarlegri stjórnmálalegri kreppu, trúnaðarbrestur hvert sem litið er. Forsetakosningar eru fram undan, og þá kann það að virðast freistandi hugsun að við þurfum sterkan forseta sem geti sett ríkisstjórn stólinn fyrir dyrnar. Ætli það sé rétt? Er ekki virkt þingræði í samvirkni við málfrelsi og virka frjása fjölmiðlun besta vörnin? Líklegasta leiðin til að hægt sé að leiðrétta þau mistök sem við kunnum að hafa gera á kjördögum?
Hvernig forseta þurfum við þá? Fáir munu óska sér rússneska eða tyrkneska fyrirkomulagsins, en þó hafa heyrst raddir um að við þurfum sterkan forseta, líklega eitthvað í ætt við Kekkonen sáluga. Slíkar raddir heyrast gjarnan frá þeim sem bölva stjórnmálamönnum í sand og ösku og telja nauðsynlegt að einhver geti sett þeim stólinn fyrir dyrnar, finnst að þingræðið sé gjaldþrota. En jafnvel úr hópi stjórnmálamanna heyrast raddir um að mikilvægt sé að forseti sé þjálfaður í pólítísku tafli, geti t.d. ráðið nokkru um það hvernig ríkisstjórn sé í landinu. Það var, sýndist mér, eitt af meginatriðum í grein sem Össur Skarphéðinsson birti nýlega í Fréttablaðinu. E.t.v. vonast einhverjir til að í skjóli óskýrra stjórnarskrárákvæða geti snjallir forsetar gert embættið sterkara og sterkara. En viljum við það? Viljum við að forseti hafi völd sem erfitt er að hemja?
Lýðræði og þingræði
Þegar kosinn er sterkur forseti er einum manni falið mikið vald. Lýðræði með þingbundinni stjórn felur líka í sér framal valds, en því er dreift á einstaklinga og flokka. Nútímaþjóðfélagi verður ekki stjórnað vel og skynsamlega nema vald sé framselt kjörnum fulltrúum í takmarkaðan tíma. „Beint lýðræði“ þarf að eiga sér farvegi oftar en á kjördag, en engin von er til að við getum öll sett okkur með fullnægjandi hætti inn í mikinn hluta þeirra mála sem þing þarf að afgreiða. Við almennir kjósendur verðum að treysta fulltrúum okkar fyrir valdi, en á þeim hvílir þung ábyrgð að sýna að þeir séu traustins verðir. Þingræði sem styðst við skilvirka stjórnarskrá, réttlátt kosningakerfi, trausta löggjöf og heilbrigðar stjórnar- og stjórnsýsluhefðir virðist vera besta stjórnskipulag sem völ er á. Forseti sem misstígur sig getur setið sem fastast til loka kjörtímabils, en forsætisráðherra og ríkisstjórn eiga sína stöðu undir þinginu og endanlega þjóðinni sjálfri. Þingræði þarf auðvitað að fylgja fullt málfrelsi og virkt fjölmiðlafrelsi. Gott dæmi um frjálsa fjölmiðlun er ríkisútvarp sem afhjúpar misfellur í stjórnarfari; vesæl og gangslaus er slík stofnun ef hún lætur stjórnmálamenn þagga niður í sér.
Þótt fólk hafi einatt hörð orð um stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka, er ekki hægt án þeirra að vera. Þjóðarinnar er að kjósa og veita aðhald með gagnrýni. Árin frá stofnun lýðveldis hafa fært okkur Íslendingum heim sanninn um að lýðræðið er ekki fengið í eitt skipti fyrir öll. Það er verkefni sem krefst stöðugrar árvekni og umræðu og verður að geta tekið bæði áföllum og sigrum. Lýðræðisvitund og siðferði lýðræðisins verður að rækta með þjóð, og það tekur tíma. Stundum virðist fremur miða aftur en fram.
Forseti, þing og þjóð
Samráð, samræða og átök á fulltrúasamkomu er farsælasta leið til að ráða fram úr felstum málum þjóðar, en ef ágreiningur er djúpur og skýr getur verið besta ráðið að leita til þjóðarinnar sjálfrar. Stjórnarskrá og lög þurfa þá að skýra og skilgreina hvenær slíkt getur gerst, hvernig það fer fram og hvaða afleiðingar niðurstaðan hefur. Fráleitt er að einstaklingi sé falið geðþóttavald um þjóðaratkvæði. Meðan stjórnarskráin vísar ekki veginn verður að gera þá kröfu til forsetaframbjóðenda, sem vilja verða teknir alvarlega, að þeir geri skýra og skilmerkilega grein fyrir því á hvaða forsendum þeir telja að vísa megi löggjöf til þjóðaratkvæðis.
Bent hefur verið á að hlutverk forseta við stjórnarmyndanir muni breytast nokkuð samkvæmt tillögum stjórnlagaráðs. Grundvallarregla þingræðisins mun þó áfram verða í gildi: Ekki verður mynduð önnur ríkisstjórn en sú sem þingið vill samþykkja. Mestu skiptir að forseti sé heiðarlegur og óhlutdrægur þegar kemur til stjórnarmyndunar, njóti trausts allra flokka, en ólíklegt er að reynsla forseta af klækjapólitík og vilji til að beita henni yrði þingi og þjóð til farsældar.
Styrkur mýktarinnar
Engin ein fyrirmynd getur ráðið vali þjóðarinnar á forseta. Hver tími hefur sín viðmið, og óhjákvæmilega eru skoðanir fólks skiptar. Við viljum þó væntanlega öll forseta sem sé heill í öllu sem hún eða hann segir og gerir, að forsetinn sé góður og glæsilegur fulltrúi þjóðarinnar innan lands og utan, bæði fær um og líklegur til að túlka málefni og menningu þjóðarinnar af þekkingu, gjarnan af stolti en án oflætis. Ef þjóðin á í deilum á erlendum vettvangi, sem forseti tekur þátt í, er mikilvægt að forseti og ríkisstjórn tali einum munni. Sérkennilegt er að utanríkisráðherra síðustu ríkisstjórnar virðist telja það forseta til tekna að hafa leynt og ljóst haldið fram annarri utanríkisstefnu en ríkisstjórnin hafði. Ætli starfsmenn utanríkisþjónustunnar hafi ekki haft nóg að gera að skýra fyrir stjórnvöldum annarra ríkja að forsetinn réði ekki utanríkisstefnunni og gæti aðeins lýst persónulegum skoðunum sínum?
Sú manneskja sem við kjósum til forseta þarf að hafa mikinn þroska og fjölþætta reynslu, þótt sú reynsla geti verið fengin við ólík störf og aðstæður. Hún þarf að hafa sýnt getu til að fást við flókin viðfangsefni og valda ábyrgð. Þjóðin þarf að vita eða geta komist að raun um við hvaða gildi forsetaframbjóðandi hyggst miða störf sín. Þar nægja ekki yfirlýsingar um áhuga á málefnum sem ekki eru á verksviði eða valdi forsetans.
Sannarlega þarf forseti að vera sterkur einstaklingur, af því að hlutverkinu fylgir mikil ábyrgð. Forseti hefur áhrif með persónuleika sínum, orðum og gerðum. En forseti ætti ekki að ásælast meiri völd en stjórnarskrá og hefðir afmarka, og þau völd sem forsetinn hefur verður að fara vel með. Vitanlega gerir það engan óhæfan að hafa starfað í stjórnmálum. En sá sem kemur úr þeirri átt þarf eins og aðrir að sannfæra kjósendur um heilindi sín og óhlutdrægni, um hæfni til að hefja sig yfir flokkadrætti. Forseti á að hvetja og sameina. Mýktin á að vera styrkur forsetans.
Höfundur er eldri borgari.