Mitt í rússíbanareiðinni í íslenskum stjórnmálum, sem erfitt er að sjá fyrir hvernig mun enda, þá berast mikilvægar fréttir frá útlöndum. Stjórnvöld yfir 120 ríkja hafa þegar lýst því yfir að þau hyggist undirrita loftsslagssamning Sameinuðu þjóðanna, sem samþykktur var í París í haust. Ségolène Royal, utanríkisráðherra Frakklands, upplýsir þetta. Þessi mikli stuðningur er sagður auka á líkurnar á því að samningurinn verði staðfestur í New York þann 22. apríl og þar með bindandi.
Til að þetta megi verða þurfa minnst 55 lönd, sem ábyrg eru fyrir minnst 55% af losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum, að undirrita samninginn. Takmarkinu um fjölda ríkja er augljóslega þegar náð og öruggt má heita að hinu skilyrðinu sé einnig fullnægt. Þannig hafa hvor tveggja Bandaríkin og Kína, þau tvö lönd sem mest losa af gróðurhúsalofttegundum, heitið því að undirrita samninginn, Evrópusambandið hefur skuldbundið sig til hins sama, Indverjar einnig og nokkurnveginn allar Afríkuþjóðir, að sögn Royal.
Þessar skuldbindingar ríkja heimsins gætu haft víðtæk áhrif á gang efnahagsmála, og einnig sett þrýsting á tækni- og orkufyrirtæki, um að leita lausna á þeim miklum vandamálum sem þarf að takast á við, svo mögulegt verði að draga úr mengun.