Síðustu daga hafa margir sagt að staðan í stjórnmálum landsins sé leikriti líkust, hvort heldur harm- eða gamanleik eða blöndu af hvoru tveggja. Fjarstæðukenndur farsinn hættir ekki að koma fólki á óvart og rétt þegar búið er að meðtaka síðasta þátt tekur ný flétta við, enn eitt útspilið á sviði fáránleikans. Í ræðustól á Alþingi á mánudag, á ævintýralegum þingfundi, komst Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður, einmitt svo að orði að henni liði stundum eins og hún væri stödd í tragedíu eftir Sófókles. Þau orð tek ég nú undir, án nokkurra tvímæla.
Í klassískum harmleikjum Sófóklesar er öllu gjarnan steypt á hvolf þegar miklar andstæður mætast, svo ekki verður auðveldlega greindur munurinn á góðu og illu, réttu og röngu. Nú er það nákvæmlega sá greinarmunur sem skilur þá að sem skilja kröfur mótmælenda annars vegar og þeirra sem virðast ekki skilja þær hins vegar, þó síðarnefndi hópurinn sé að mestu skipaður innanbúðarmönnum stjórnarflokkanna. Nefnir sá hópur það þá helst forystumönnum sínum til varnar að þeir hafi í raun og veru ekki brotið nein lög með gjörðum sínum og virða þannig að vettugi önnur brot sem kunna að hafa verið framin í búðum þeirra, þó vera megi að ekki sé kveðið skýrt á um slík brot í skráðum lögum manna, hinum óhagganlega lagabókstaf.
Hinar alvarlegustu sakir sem bornar hafa verið á hendur forystumanna ríkisstjórnarinnar varða þó einmitt aðra glæpi en menn virðast færir um að skilja, utan lagabálksins, það er hinn mikla siðferðisbrest, sem orðið hefur hjá ráðamönnum, og dómgreindarskort þeirra í málum er þjóðina varða, enda þótt smugur og undanþágur sé að finna í lagaumgjörðinni. Forystumennirnir virðast því lítið hafa lært af síðasta harmleik íslenskrar stjórnsögu, er þeir keppast við að fría sig vandræðum og firra sig ábyrgð. Reyndar er firringin slík að fráfarandi forsætisráðherra var fjarri góðu gamni og illfáanlegur til tals við fjölmiðla, þegar fárið náði hæstu hæðum, nær alls ófús að svara þeim spurningum sem brunnu hvað heitast á landsmönnum varðandi óljósa stöðu stjórnarinnar. Þá reyndist virðingarleysið gagnvart þjóðinni algjört en hverjum stjórnmálamanni ber siðferðisleg skylda til að þjóna þjóð sinni.
Virðingarleysi þetta ber og vott um hroka þann sem fengið hefur að líðast í stjórnmálum líðandi stundar en nú mun slíkur valdahroki ekki líðast lengur. Drambinu mótmælir alþýða manna nú hástöfum en hin víðfrægu skjöl með upplýsingum um skattaskjól eru aðeins kornið sem fyllti mælinn. Þessar nýju upplýsingar eru nefnilega aðeins birtingarmynd þess misréttis sem hefur rótum skotið í íslensku samfélagi jafnframt því að hafa fengið að viðgangast án afskipta ríkisstjórnarinnar alltof lengi. Skjölin sýna þá svart á hvítu hvílík ógn lýðræðinu stafar af ójöfnuði og misskiptingu, þar sem ójöfnuðurinn er hið raunverulega samfélagsmein sem skera þarf burt. Aðeins með því að uppræta þessa misskiptingu mun samfélagið loks fá meina sinna bót og skjölin færa þjóðinni heim sanninn um það að ríkisstjórnin hefur brugðist þessum skyldum sínum með óyggjandi hætti.
Þess heldur hefur ríkistjórnin ekki látið sitt eftir liggja til þess að auka enn fremur á misskiptinguna í íslensku samfélagi, ekki aðeins sem óvirkur þátttakandi, sem horfir á frá hliðarlínunni og neitar að skarast í leikinn á meðan aðrir nýta gildandi leikreglur sér í hag, heldur einnig sem virkur þátttakandi, sem hagar leikum svo að ákveðinn hópur manna beri sem mestan hag af. Þetta sést best á því hvernig stjórnin hefur veikt innviði landsins og holað ríkið að innan með því að fórna tekjum, lækka auðlindagjald og afnema auðlegðarskatt og stuðla þar með að aukinni tilfærslu eigna og fjármagns frá hinum efnaminni til þeirra efnameiri. Þá hefur stjórnin gert atlögu að stofnunum er starfa í almannaþágu, heilbrigðis- og velferðarkerfinu jafnt sem menntakerfinu og öðrum grunnstoðum samfélagsins.
Með slíkum aðgerðum, jafnt sem aukinni gjaldtöku í formi legugjalds, svo dæmi megi nefna, hefur ríkisstjórnin því gert beina atlögu að þeim sem minnst mega sín í samfélaginu, gegn öryrkjum og ellilífeyrisþegum, bágstöddum þegnum þessa lands og gegn verkamannastéttinni í heild. Því er ríkisstjórnin í raun stjórn hinna efnameiri eða svokölluð auðvaldsstjórn, stjórn auðstéttarinnar, og er það rofið sem orðið hefur á milli þjóðar og þings en þegar þingmenn og ráðherrar, sjálfir forystumennirnir, búa við allt önnur kjör en alþýða manna – fólkið sem þeir eiga að þekkja og þjóna – geta þeir trauðla sett sig í þeirra spor. Þess vegna er auður lélegur mælikvarði á hæfi manna til stjórnarsetu og menn sem vita vart evra sinna tal, á meðan aðrir eru dæmdir til þess að telja aura sína í krónum, síst hæfir til þess að ráða ráðum í þágu almennings, í þágu verkalýðsins og þeirra sem minna mega sín.
Þess vegna kraumar reiðin í samfélaginu nú um stundir, ekki vegna þess að sá gjörningur að geyma fé sitt í skattaskjólum sé hugsanlega ekki löglegur, við þá lagaumgjörð sem við búum núna, heldur vegna þess að það er ekki siðlegt að hegða sér svona í ábyrgðarstöðu fyrir þjóð sína. Það er einfaldlega ekki við hæfi siðaðra manna að bjóða upp á eintóma útúrsnúninga og lagaflækjur til þess að verja glæp þann sem augljós siðferðisbresturinn er. Hrokinn sem felst í því að ætla að firra sig ábyrgð gjörða sinna með slíkum leikjum er óboðlegur. Kemur þvílíkur hroki því miður ekki á óvart þegar leikararnir standa sperrtir á sviði fáránleikans og þenja sig af fremsta megni en neita að gefa heiðarleg svör við einföldum spurningum og skýrum kröfum, neita að svara kallinu um aukinn heiðarleika og bætt siðgæði.
Skrípaleikurinn heldur á meðan áfram – harmleikurinn, gamanleikurinn – og það eitt er ljóst að þeir sem fara með aðalhlutverkin eru ekki í neinum tengslum við raunveruleikann. Veruleikafirrtir átta þeir sig ekki á því að þeirra tíma á leiksviðinu er nú lokið og komið er að þeim að hneigja sig, draga sig í hlé, hverfa burt. Einhvern tímann verður tragedían jú að enda.