David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, er nú lentur í vandræðum í Bretlandi, þar sem hann gaf ekki upp allar upplýsingar um sína persónulegu hagi, þegar kemur að fjármálum. Hann viðurkenndi í gær, að hafa hagnast af félagi sem skráð var á föður hans, Blairmore Investment Fund. Hagnaðurinn nam 31.500 pundum, eða sem nemur 5,5 milljónum króna.
Félagið kemur fyrir í hinum svonefndu Panamaskjölum, og var aflandsfélag í skattaskjóli. Cameron fullyrðir sjálfur, að skattgreiðslur er tengdust honum hafi alla tíð verið í takt við lög í Bretlandi. Hann sleit formlega á tengsl við félagið fjórum mánuðum áður en hann tók við sem forsætisráðherra 2010.
Telegraph, sem er viðurkennt og þekkt stuðningsblað Íhaldsflokksins í ritstjórnarskrifum, það er flokks Cameron, er ekki ánægt með stöðu forsætisráðherrans og birti í gær afar gagnrýnan pistil um stöðu hans. Aðeins nokkrum klukkutímum eftir að Cameron viðurkenndi fyrrnefnd atriði, var ljóst að þetta er orðið erfiðasta mál sem hann hefur staðið frammi fyrir sem forsætisráðherra, þegar orðspor hans og trúverðugleiki, er annars vegar. Þegar hefur komið fram krafa um að hann birti öll gögn um málið.
Það flækir síðan málin enn frekar að þær hörðu deilur sem nú geysa í Íhaldsflokknum, vegna kosninga um hvort Bretland á að vera í Evrópusambandinu eða ekki, eru erfiðar fyrir Cameron fyrir, og margir þeirra sem eru í framvarðasveit baráttunnar fyrir því að Bretland fari úr Evrópusambandinu, koma við sögu í Panamaskjölunum.
Cameron er meðal annars gagnrýndur fyrir að hafa þessi tengsl við félag í skattaskjóli, og fyrir að hafa ekki gefið þessa hagsmuni upp, á sama tíma og stjórnmálamenn segja almenningi að þeir séu að berjast gegn alþjóðavæddum aflandseyjaviðskiptum og skattaskjólum.
Forvitnilegt verður að fylgjast með því hvernig þetta mál fer, ekki síst í ljósi þeirrar stöðu sem Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, er í hér á landi. Hann átti í félagi sem skráð var í þekktu skattaskjóli, en það eitt, að hafa slík tengsl, þykir hneyksli á alþjóðavettvangi. Á því hafa íslenskir stjórnamálamenn ekki áttað sig, fyrr en hugsanlega núna, þegar þeir hafa verið á forsíðum allra útbreiddustu dagblaða hins vestræna heims í nokkra daga, og stanslaust til umræðu í sjónvarpi og á netinu.
Bjarni er yfirráðherra skattamála og skattrannsókna. Augljóslega þarf hann að leggja fram öll gögn um mál sín, skatta- og eignayfirlit, mörg ár aftur í tímann, til þess að svara því sem kallað er eftir. Hann getur ekki einhliða matað fjölmiðla með upplýsingum, eftir það sem á undan er gengið. Málið er þegar orðið of alvarlegt.
Gott væri líka að hann legði fram yfirlit yfir fjármagnshreyfingarnar seinnipart árs 2009, sem hann talaði um sjálfur í viðtali við Kastljós. Almenningur skilur þetta væntanlega illa, enda hefur hann verið með sinn sparnað bak við lögbundin fjármagnshöft frá því í nóvember 2008. Seðlabankinn setti reglur 30. október 2009, til að hindra að það væri hægt að taka „hringinn“ á aflandsmarkaðnum með krónuna. Þegar þessar upplýsingar verða teknar saman, þá mætti fylgja nákvæmt yfirlit yfir gengi krónunnar, ef um gjaldeyrisviðskipti er að ræða, og tímasetningar viðskipta, svo það sé alveg öruggt að hann hafi ekki verið að hagnast á aflandsgengi krónunnar.
Mikilvægt er að Bjarni sjálfur átti sig á því, að þessa spurningar eru algjörlega sjálfsagðar, og hann einn getur upplýst um málið og eytt óvissu. Og um leið byggt upp trúverðugleika sinn á nýjan leik. Ef ekkert er óeðlilegt við þessi fjármál hans, þá er ekkert að óttast.
Auglýsing
Við þurfum á þínu framlagi að halda
Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.
Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.
Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.
Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.
Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.
Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.
Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.
MorgunpósturinnEkki missa af neinuNánar