Salurinn á Hótel Borg er laus sumardaginn fyrsta. Vill ekki einhver boða til fjöldafundar um femínískt framboð til komandi Alþingiskosninga?
Ég hvet alla sem eru einhvers staðar á rófinu frá karli til konu að hittast og hlera hina. Ég hvet konurnar sem frelsuðu geirvörtuna fyrir fimmtíu árum til að hitta þær sem þurftu að frelsa hana aftur í fyrra. Ég hvet karlana sem brenna fyrir femínisma til að bætast í hópinn. Og ég hvet líka alla aðra til að mæta.
Þetta gæti orðið áhugaverð tilraun. Mörg ljón eru þó í veginum fyrir kvennaframboði, kannski fleiri nú en í fyrri skiptin.
Grænkandi grasrót
Ég sting upp á Hótel Borg af því að þar varð sögulegur atburður þegar kvennaframboð var stofnað á fjöldafundi í janúar 1982. Um svipað leyti varð til kvennaframboð á Akureyri og fleiri fylgdu í kjölfarið þannig að á árunum 1982-1994 sat fjöldi kvenna á Alþingi og í sveitarstjórnum í nafni kvennaframboða og Kvennalista. Jafnvel enn merkari eru þau kvennaframboð sem leiddu til þess að fyrstu íslensku konurnar náðu kjöri og sátu í bæjarstjórn Reykjavíkur á árunum 1908-1916.
Kvennaframboðin náðu miklum árangri en velgengni þeirra allra má rekja til vandaðrar hugmyndafræðivinnnu í grasrótinni. Framboðin breyttu stjórnmálum og samfélaginu öllu. Sem slík juku kvennaframboð ekki aðeins margfalt þátttöku kvenna í stjórnmálum heldur breyttu því hvernig stjórnmál eru skilgreind, rædd og unnin. Sú staðreynd að konur fengu í kjölfarið að grípa í stjórnartaumana breytti svo því hvert ferðinni er heitið. Kvennaframboð breyttu ásýnd, áherslum, umræðuhefð og framtíðarsýn.
Sjálfa langar mig að vera eitt eilífðar smáblóm í grasrótinni sem er og verður mikilvægasti hluti stjórnmálanna. Má ég biðja þá um að rétta upp hönd sem telja að nú vanti okkur „sterka“ og sjálfmiðaða stjórnmálaleiðtoga?
Snertifletir peninga og hamingju
Peningar eru drifkraftur samfélaga og hagstjórn staðalbúnaður á þjóðarskútum. En við vöknum samt enn og aftur upp við þann vonda draum að við höfum einblínt á mælitækin en forðast að horfa til himintunglanna sem eru vegvísar um stærra samhengi.
Krúttþjóðin hefur misst meydóminn. Fleiri þjóðir fást við það sama og hugsanlega verða stjórnmál aldrei söm. Það má að minnsta kosti láta sig dreyma um aukinn þroska nú þegar þjóðarleiðtogar keppast við að hengja út blóði drifin lök til sönnunar á sakleysi sínu.
Hamingjurannsóknir sýna að peningar og hamingja hafa aðeins tvo snertifleti. Það getur valdið óhamingju að hafa ekki í sig og á og það getur valdið óhamingju að vita ekki aura sinna tal. Femínismi snýst meðal annars um að lágmarka vanlíðan þeirra fátæku og þeirra ríku. Hugmyndin um jöfnuð er grunnstef í stefnunni um jafnræði og jafnrétti kynjanna.
Ættum við að panta Hörpu?
Í tærustu mynd sinni snýst femínismi um að jafna aðstöðu þeirra tveggja hópa sem deila jörðinni, kvenna og karla. Árið 2016 eiga konur enn svo lítið af veraldarauðnum að upphæðin er vart sjáanleg berum augum. Er það vegna þess að þær vinna svo lítið? Á heimsvísu vinna konur nær öll ólaunuð störf sem lúta að heimilishaldi og barnauppeldi. Auk þess er tæpur helmingur kvenna í heiminum á vinnumarkaði. Stafar auður karla þá af margfalt meiri atvinnuþátttöku þeirra? Nei, því að aðeins um tveir þriðju hlutar karla eru á vinnumarkaði á heimsvísu.
Einfaldar staðreyndir sem þessar ættu að vekja löngun allra til að beita sér fyrir jafnrétti kynjanna. Samt legg ég ekki til að þið pantið Hörpu fyrir fjöldafund um kvennaframboð enda sé ég tvær ástæður fyrir því að Hótel Borg ætti að nægja. Önnur kemur utan úr samfélaginu en hin úr iðrum kvennahreyfingarinnar sjálfrar.
Eins og vikivaki, tvö skef áfram og eitt afturábak
Það heyrast raddir sem í fullri alvöru halda því fram að Íslandi sé stjórnað af öfgafemínistum. Viðbrögð sem þessi eru þekkt úr mannkynssögunni: Ef konur öðlast einhver völd eru þær sakaðar um að hafa hrifsað þau öll. Hógværari raddir spyrja hvort árangur kvennabaráttunnur sé ekki nægur, hvort ekki sé mál að linni. Um þetta kennir mannkynssagan: Ávinningur mannréttindabaráttu er alltaf eins og vikivaki, tveimur skrefum af árangri sem baráttan skilar málstaðnum fylgir eitt skref aftur á bak. Auk þess er réttindabarátta í sjálfri sér altæk. Þræll berst ekki fyrir að að losna við hlekkina part úr degi, hann berst einfaldlega fyrir því að lásinn sé opnaður og lyklinum hent.
Að lokum heyrast raddir sem telja það skammarlegt að íslenskur konur æsi sig í réttindabaráttu þegar konur um víða veröld hafa það miklu verra. Reyndin er sú að íslensk kvennabarátta er útflutningsvara. Femínískir karlar og konur á Íslandi lýsa sem leiftur um nótt um fjarlægar álfur.
Ég skúra í dag og þú á morgun og jafnrétti er náð
Þegar formæður okkar börðust fyrir kosningarétti og kjörgengi í byrjun síðustu aldar voru átakalínur skýrar. Mörgum, einkum konum, fannst það eðlileg krafa að konur hefðu lýðræðisleg áhrif. Öðrum, einkum körlum, fannst sú hugmynd beinlínis hættuleg.
Þegar kvenfrelsishugmyndir hoppuðu út úr höfði hippalegra stúdentabyltinga fannst okkur mörgum létt verk og löðurmannlegt bíða okkar. Bláeyg sem ég var hélt ég að framundan væru örlítil átök við að skúra skítinn úr almannarýminu og skipta með sér verkum heima fyrir. Ég hélt að við værum að fást við ástkæra, velviljaða en gamaldags eiginmenn okkar, bræður, syni og feður. Ég skildi minna en ekkert þegar djúpúðgar konur fóru að tala um árþúsunda gamalt, andlitslaust og kerfislægt misrétti. Feðraveldið. Nú veit ég meira að segja hvar feðraveldið geymir auð sinn.
Þegar feðraveldið bauð upp í dans missti kvennahreyfingin sakleysi sitt. Síðan hófst umræða um kynheilbrigði, kynfrelsi og samkynhneigð og kynferðisofbeldið braust út úr launhelgum samfélagsumræðunnar. Kvennahreyfingar tóku að kortleggja misbeitinguna og skapa um hana þekkingu. Okkur fór að skiljast að nauðgarinn er ekki óþekktur maður á útihátíð heldur andlitslaust feðraveldið. Með þá þekkingu í farteskinu er erfitt fyrir kvennahreyfingar nútímans að fylgja meginstraumi, að vera mainstream. Þótt miðaldra, gagnkynhneigð, hvít og fjársterk kona á Vesturlöndum styðji Hillary vill hún ekki endilega láta bendla nafn sitt við baráttu fatlaðrar, samkynhneigðrar og svívirtrar flóttakonu. Átakalínum í kvennabaráttunni fer fjölgandi sem gerir umræðu um mannréttindi kvenna flóknari.
Verkefni femínismans
Ég skil tilhneigingu hreyfinga til að einfalda átakalínur baráttumála sinna en álít það samt hlutverk kvennahreyfingarinnar að takast á við erfiðustu viðfangsefnin. Reyndar finnst mér hlutverk kvennahreyfingarinnar svo viðamikið að umræðan þyrfti að fylla alla sali Hörpunnar.
Fyrst vil ég nefna ábyrgð kvennahreyfingarinnar á umræðu um jaðarsetta hópa samfélagsins. Í samvinnu við vísindasamfélagið hefur almenningur á síðustu áratugum gert stórmerka tilraun. Niðurstaða hennar er sú að allt mannkyn er á einhverju rófi, læknisfræðilega og félagslega. Við höfum fengið verkfærin til að draga fólk í dilka eftir því hvar það er á rófinu en við ráðum illa við að hjálpa fólki með greiningar að komast frá jaðri samfélagsins og inn í það mitt. Það er ekki eingöngu af mannúðarástæðum sem við þurfum að hætta að jaðarsetja fólk. Ástæðurnar eru fyrst og fremst efnahagslegar. Það er einfaldlega ódýrara að samþykkja að fólk er eins og það er – mismunandi - heldur en að reyna að breyta því með skurðaðgerðum eða útrýma því með stríðum. Hér geta kvennahreyfingar haft forystu um óhjákvæmilega hugarfarsbreytingu.
Umhverfisvernd og femínismi eru líka órofa tengd. Nú stöndum við Vesturlandabúar frammi fyrir því verkefni að flytja úr einbýlishúsunum okkar ofan í kjallaraíbúðir. Við megum nota draslið sem við eigum en ekki kaupa nýtt. Við þurfum að byrja að borða linsubaunir og skordýr í stað mengandi nautasteikur. Þeir sem stigið hafa út úr óttanum, minnkað umsvifin og tileinkað sér grænan lífsstíl lofa hann og prísa. Fólki léttir við að losna úr auðæfagildrunni. Femínísk hagfræði fjallar um leiðir til að draga saman seglin. Hér eins og annars staðar tala femínistar um að fara vel með samfélagssjóðinn.
Feðraveldi í dauðateygjum
Sólin hefur heiðrað okkur með nærveru sinni þennan aprílmánuð. Fegurðin færist yfir og konur hefja vorverk sem færa okkur von. Mér líður eins og íbúum Nangiala hafi tekist að ráða niðurlögum svarta riddarans Þengils. Drekinn Katla er þó örugglega enn með lífsmarki.
Konur eru ekki í eðli sínu heiðarlegri en karlar. Þær hafa bara ekki krosstengslin til að iðka spillingu. Kannski neyðist samt Birgitta til að segja af sér fjármálaráðherraembættinu ef hún verður uppvís að því að hylma yfir gervigrasrótarumræðu og Katrín forsætisráðherranum ef upp kæmist að hún flokkaði ekki rusl. Vonandi fylgjast heilög Birgitta og heilög Katrín vel með því hvernig almenningur færir stöðugt til viðmið sín um hvaða hegðun pólitíkusa telst í lagi og þjóðinni samboðin.
Stundin er runnin upp
Kannski verður andlit nýs Kvennaframboðs áberandi í næstu ríkisstjórn. Kannski einhver skipuleggjandi Druslugöngunnar eða einn þeirra flottu Sjálfstæðismanna sem á síðustu misserum hafa fikrað sig frá þægindarammanum og uppgötvað að það sem er prívat er líka pólitík?
Í upphafi greinar hvatti ég til fjöldafundar um kvennaframboð en innst inni vona ég að þessi grein skili öðrum árangri. Ég vænti þess að allir flokkar sem bjóða fram til Alþingis árið 2016 hafi femíníska hugmyndafræði á stefnuskrá sinni, ekki bara af því að hún er mannúðleg heldur vegna þess að hún getur bjargað efnahag okkar.
Síðustu daga hef ég sannreynt á eigin skinni það sem kallað er upphaf nýs lýðræðis. Með þessari grein sendi ég upp í skýin ákall um nýjar áherslur í stjórnmálaumræðu. Ef einhver þarna úti er tilbúinn bókar hann Hótel Borg fyrir fjöldafund um kvennaframboð en þótt enginn geri það mun umræða kvikna á ýmsum þráðum. Þannig skynja ég hvernig ég get haft áhrif út fyrir atkvæði mitt. Reyndar gæti ég orðið fyrir aðkasti fyrir að taka mér orðið femínismi í munn. En ef ég skrifaði ekki þessa grein „þá væri ég ekki manneskja heldur bara lítið skítseiði“ svo aftur sé vitnað í grundvallarrit mannréttindabaráttunnar, Bróður minn Ljónshjarta.
En þori ég, vil ég, get ég? Já, stundin er runnin upp.