Dregið er frá glugganum á sjúkrastofunni. Sólin glampar á vatninu og golan leikur við laufblöð trjánna. Að utan berst lykt af nýslegnu grasi og fuglarnir hamast við að tína ormana úr grasinu upp í hreiðrin til unganna sinna. „Yndislegur dagur, hvernig hefurðu það í dag?“ „Doktor Klopp kemur fljótlega og ræðir við þig“ segir dökkhærði myndarlegi sjúkraliðinn við sjúklinginn um leið og hann gengur út úr herberginu. Þetta verður enn einn dásamlegi dagurinn í Svartaskógi.
Er þetta lýsing á háskólasjúkrahúsi? Nei, þetta er rómantísk lýsing á heilsuhæli úti í sveit sem hefur akkúrat ekkert með nútíma háskólasjúkrahús að gera. Á nútíma háskólasjúkrahúsi er ekki gert ráð fyrir langlegusjúklingum nema í undantekningatilfellum. Flestir fara heim samdægurs eða daginn eftir aðgerð. Ég veit ekki hvort að sá hópur manna sem undanfarnar vikur hefur talað hvað hæst fyrir nýjum spítala á Vífilstöðum er svona rómantískur í eðli sínu eða hreinlega nennir ekki að hafa fyrir, vill ekki eða getur ekki kynnt sér staðreyndir málsins. Í málflutningi hóps sem kallar sig „Betri spítala á betri stað“, rekur líka hver staðreyndavillan aðra.
Vífilstaðaspítali er versti kosturinn
Vegna umræðu um spítala á Vífilstöðum, gerði ég leit í umræðum á netinu. Ég fann ótal dæmi þar sem nafngreint fólk hélt því blákalt fram að aldrei hefði verið gerð könnun á Vífistöðum sem valkost i fyrir spítala. Stjórnendur umræðusíðanna höfðu ekki fyrir því að leiðrétta viðkomandi, þótt að sumir þeirra vissu miklu betur. Samtök um „Betri spítala á betri stað“ vita líka alveg að staðsetning á Vífilstöðum fellir öll þeirra rök um staðarval, miðpunkt höfuðborgar, kostnaðarútreikninga og aðgengi/fjarlægð að spítalanum. Þeim virðist því miður mest í mun að koma í veg fyrir að byggt verði við Hringbraut sama hvaða meðulum þurfi að beita. Staðsetning Vífilstaðaspítala var m.a. könnuð 2001 af White arkitektum. Þeim kosti var einfaldlega ýtt út af borðinu sem þeim versta af eftirfarandi ástæðum (eins og lesa má í þeirri skýrslu bls. 42-45):
A. Einangraður frá byggð af stórri umferðaræð. Þeir sem koma á spítalann þyrftu flestir að koma með bíl eða strætó. Lengst að fara fyrir meirihluta íbúa höfuðborgarsvæðisins.
B. Fjarlægð frá háskólanum eru 10 kílómetrar og því of langt til að hægt sé að halda uppi beinum tengslum þar á milli. Því yrði að byggja upp háskólabyggingar á svæðinu fyrir alla spítalatengda kennslu og mynda einangraðan „campus“ vegna þessa.
Kosturinn var hins vegar að nóg byggingarland er til staðar bæði fyrir spítala og háskólabyggingar. Jú og það er falleg náttúra með útsýni, vatni, kjarri, fuglum og grasi.
Tveir kostir standa þá eftir:
1. Í námunda við Elliðavog, sem miðað við íbúasamsetningu ætti að vera ca. miðja höfuðborgarinnar skv. „Betri spítala á betri stað“ og því „langhagkvæmast“ m.t.t. aðgengis og ferða.
2. Við Hringbraut.
Hvað er góður spítali?
Sjúklingur sem hefur fundið fyrir sérkennilegum verk undanfarið er vísað af heimilislækni til rannsóknar niður á Landspítala. Hann fær bréf heim til sín frá Landspítala þar sem honum er tilkynnt að hann eigi að mæta fastandi þann 10. maí klukkan 10:10. Hann er að sjálfsögðu áhyggjufullur og vill helst fá að ljúka rannsókninni af sem fyrst, ekki bíða í margar vikur.
Skiptir það þennan einstakling mestu máli hvernig aðgengi bílaumferðar að spítalanum er, eða hvort hann er í rólegu náttúrvænu umhverfi? Nei, það sem skiptir hann mestu máli er að fá úrlausn sinna mála á sem bestan og faglegastan hátt. Ef viðkomandi væri staddur í landi með ofgnótt spítala í kringum sig, myndi hann þá spyrja hvert styst væri að keyra eða hvar útsýnið væri best? Nei hann myndi spyrja hvar eru mestar líkur á að ég fái bestu greininguna og bestu meðferðina við því sem hrjáir mig. Og svarið er í langflestum tilfellum, á háskólasjúkrahúsi með nánar tengingar við háskólastarfsemi, rannsóknir og nýsköpun. Þar verða til suðupottar hugmynda, tækniframfara, nýsköpunar og nýrra meðferðaúrræða sem kemur allri þjóðinni til góða. Þeir sem ekki hafa starfað í slíku umhverfi virðast eiga afskaplega erfitt með að skilja hversu mikilvæg náin tengsl spítala, háskóla, rannsókna og nýsköpunar eru. Jafnframt geta skapast ótrúlega mikil verðmæti úr sprotum sem vaxa og dafna af slíkum rótum. Lausnir á klínískum vandamálum eru sífellt að verða verðmætari og verðmætari. Ætlum við að fórna því á altari bílaumferðar, sem eins og kemur fram síðar er ekki meira vandamál þar en annars staðar?
Með því að fara yfir þá spítala í Bandaríkjunum og Evrópu sem teljast bestu spítalarnir með tilliti til greiningar, meðferðar og allra þeirra mælikvarða sem notaðir eru til að meta gæði spítala, kemur í ljós að langflestir þeirra hafa háskóla, rannsóknir og nýsköpun í nærumhverfi sínu. Það er að sjálfsögðu hægt að finna dæmi um annað en þau dæmi eru undantekning.
Á einni af síðum „Betri spítala á betri stað“ er talað um nýja spítalann sem verið er að byggja í Óðinsvéum. Hann er dæmi um glæsilegan spítala sem verið er að byggja á auðu landi rétt utan við borg. Segir þetta alla söguna? Nei, á svæðinu er nefnilega líka Syddansk háskólinn og Cortex Park, sem verða vísindagarðar með rannsóknir, þróun og nýsköpun að leiðarljósi auk þess sem gert er ráð fyrir aðstöðu fyrir sprotafyrirtæki á svæðinu.
Á facebook síðu sömu samtaka er dæmi um háskólasjúkrahús utan byggðar í London Ontario, Kanada án þess að háskóli sé á svæðinu. Þetta eru rangfærslur bæði hvað varðar háskólasjúkrahúsið og hvað varðar fjölda íbúa sem sjúkrahúsið þjónar. Háskólasjúkrahúsið í London Ontario er við hliðina á háskólanum og sjúkrahúsið sem er á myndinni þjónar 1,5 milljóna manna umhverfi skv. heimasíðu þeirra. Þrátt fyrir að þeim hafi verið bent á þetta kusu stjórnendur síðunnar að halda rangfærslunum inni þannig að þeir sem skoða síðuna án þess að skrá sig inn á facebook sjá bara rangfærslurnar(mynd 1, tekin þann 14. apríl 2016).
Í öllum nágrannalöndum okkar er fjöldi spítala með háskóla í
næsta nágrenni. Ekki allir, enda þurfa
ekki allir spítalar að verða háskólasjúkrahús og hjá milljóna þjóðum er hægt að
búa til fjölda suðupotta nýsköpunar, rannsókna og þróunar. En í þrjúhundruðogþrjátíuþúsund manna
eyjasamfélagi ættum við að minnsta kosti að hafa nógu mikið bein í nefinu til að
geta haft eitt alvöru háskólasjúkrahús í nánum tengslum við háskóla, rannsóknir
og nýsköpun.
Aðgengi að spítalanum:
A) Sjúkrabílar.
Því hefur verið haldið fram aftur og aftur af andstæðingum uppbyggingar við Hringbraut að ferðir sjúkrabíla að sameinuðum Landspítala á Hringbraut verði 100 ferðir á dag og 200 í toppum. Þessi tala hefur síðan verið tekin upp gagnrýnislaust af hverjum spekulantinum á fætur öðrum. Nú síðast birtist hún í kosningakerfi Pírata sem ein af röksemdunum fyrir því að hefja nýtt staðarval fyrir spítalann. Hvaðan kom eiginlega þessi tala? Hún er alger þvættingur og er eingöngu til að blekkja þá sem ekki vita eða hafa ekki tækifæri til að kynna sér málið. Ég hafði samband við Slökkvilið Höfuðborgarsvæðisins og bað um upplýsingar um ferðir sjúkrabíla á árinu 2015, ferðir sem enduðu við Fossvog eða Hringbraut. Þar sem vikurnar eru talsvert breytilegar ákvað starfsmaður Slökkviliðsins að senda mér dæmi um tvær mismunandi vikur þar sem akstur sjúkrabíla er flokkaður eftir forgangsakstri eða pöntuðum ferðum í vikum 10 og 25 (tafla 1).
Í ljós kemur að ferðir sjúkrabíla í forgangsakstri (F1 og F2) eru samtals 139 fyrri vikuna og 112 seinni vikuna eða 18 ferðir á dag. Þær eru reyndar fleiri um helgar en á virkum dögum. Þetta er forgangsakstur á slysstað með endastöð á Hringbraut eða Fossvogi hvort sem um var að ræða forgangsakstur frá slysstað niður á spítala eða ekki. Eins og allir vita er forgangsakstur á slysstað það sem skiptir höfuðmáli og í mörgum tilfellum þegar t.d. um árekstur er að ræða er ástand farþega kannað en sjúkrabíllinn þarf sem betur fer oftast ekki að keyra í forgangsakstri niður á spítala. Aðrar ferðir (F3 og F4) eru pantaðar ferðir með sjúklinga, oft á tíðum milli Hringbrautar og Fossvogs svo þeim mun fækka enn frekar við sameiningu spítalana við Hringbraut. Ferðir sjúkrabíla eru því samtals 431 fyrri vikuna og 408 seinni vikuna. Þetta gera að meðaltali 60 ferðir á dag (ekki 100 ferðir með 200 í toppum!) og langstærstur hluti þeirra ferða eru pantaðar og fara ekki fram á háannatíma. Þessi ýkti fjöldi næst ekki einu sinni þótt ferð að spítalanum sé talin sem ein ferð og ferð frá spítalanum sem önnur.
B) Fjöldi ferða (til og frá spítalanum), starfsmenn, nemar, gestir og sjúklingar.
Hér er annað dæmi um hvernig hægt er að nota tölur til blekkinga og misskilnings. Til að meta umferðarþunga að og frá spítalanum er hægt að nota reiknijöfnur. Þær jöfnur nota mismunandi margfeldisstuðla eftir því hvernig húsnæðið er flokkað til að fá fram áætlun miðað við fjölda starfsmanna, sjúklinga o.s.frv. Þessar tölur geta hæglega rokkað til og frá um nokkur þúsund ferðir allt eftir hvaða stuðull er notaður. En það er líka hægt að telja ferðir við núverandi ástand. En samtök um betri spítala á betri stað hafa ekki áhyggjur af þess háttar rugli og tala á facebook síðu sinni 26. apríl 2015 um 18.000 ferðir á dag eða samtals 36.000 ferðir fram og til baka (Mynd 2). Á sömu síðu er talað enn einu sinni um 100-200 ferðir sjúkrabíla á dag. Til samanburðar má svo taka mat á fjölda ferða sem KPMG gerði og gerir ráð fyrir rúmlega 8000 bílferðum til og frá spítalanum á dag. Þar kemur jafnframt fram að það skiptir ekki máli fyrir vegalengdir starfsfólks spítalans hvort spítalinn verður við Hringbraut eða Sævarhöfða. Þar er miðað við raunverulega búsetu starfsmanna. Þar kvarnast enn einu sinni upp úr hagkvæmisútreikningum við Sævarhöfða.
Ekki veit ég hvort rómantíska fólkið sem horfði á Sjúkrahúsið í Svartaskógi horfir líka á Bráðamóttökuna (ER) eða önnur bráðamóttökusjúkrahúsdrama og fær þaðan einhverjar ranghugmyndir um það að flestir sjúklingar spítalans þurfi að komast sem hraðast og auðveldast niður á bráðamóttöku milli átta og níu á morgnanna. Á bráðamóttökur spítalans koma um 100 þúsund manns á ári eða 275-300 á dag að meðaltali á öllum tímum sólarhrings. Hluti þessara einstaklinga kemur þangað vegna þess að heilsugæslukerfið er í algjörum molum og er ekki fært um að sinna þeim tilfellum sem það ætti með réttu að sinna. Á dag- og göngudeildir koma hins vegar 300 þúsund manns á ári eða tæplega 1100-1200 hvern virkan dag (að meðaltali). Þessir einstaklingar koma lika á öllum tímum dags, einungis brot þeirra kemur milli 8 og 9 á morgnanna. (þessar tölur eru fengnar úr árskýrslu LSH fyrir 2014). Ég bað því upplýsingasvið LSH að senda mér upplýsingar um fjölda þeirra sem koma á bráðamóttöku LSH í vikum 10 og 25 árið 2015 og tímadreifingu þeirra fyrir hvern dag. Þar inni eru allar komur, hjartagátt, kvennadeild, fæðingardeild, meðgöngu- og sængurlegudeild, Hreiðrið, bráðamóttaka barna, bráðamóttaka geðdeildar og almenn bráðamóttaka í Fossvogi og Hringbraut. Er einhver sérstakur álagspunktur milli 8 og 9 á morgnanna miðað við aðra tíma dags? Nei og raunar er það svo að mesta álagið á virkum dögum er milli 10 og 17 (mynd 3).
Hvar er umferðarvandinn?
Þegar þessi grein er skrifuð þann 15. apríl 2016 hefur dregið úr morgun- og eftirmiðdagsumferð við Hringbraut og á eftir að gera það enn frekar í næstu viku. Það er vegna þess að kennslu við háskólana er að ljúka og komið er að prófum. Umferðin að Hringbraut tekur aftur að þyngjast eftir miðjan ágúst þegar skólar hefjast að nýju. Það tekur mig núna einungis 5-7 mínútur að keyra frá Síðumúla og niður að Læknagarði eftir Miklubraut um 8 leytið. Tekur mig raunar ekki nema 10-12 mínútur við verstu aðstæður að vetri til. Það er nú öll umferðarteppan. Á sama tíma er neyðarbrautin á Miklubraut sem liggur alveg frá Ártúnsbrekku að Lönguhlíð alltaf auð og opin fyrir sjúkrabíla sem þurfa að komast með hraði niður á Hringbraut. Það vita það allir sem vilja vita að með nýrri samgöngumiðstöð í Vatnsmýrinni (hjá BSÍ) og með gjaldtöku á bílastæðum HÍ og HR má auðveldlega fækka bílaumferð mun meira en sem nemur þeirri aukningu sem verður þegar restin af starfsemi spítalans flyst í nýjar byggingar við Hringbraut. Starfsmenn spítalans eru mættir í vinnu fyrir átta eða áður en umferðarþunginn byrjar. Umferð verður ekki vandamál í aðgengi að spítalanum og íbúar stórra borga myndu hlæja að okkur fyrir að tala um 10-20 mínútur í umferð sem umferðarteppu. Það er þó styttri tími en það tekur“ meðaltalshöfuðborgarbúann“ að keyra upp á Vífilstaði!
Háskólasjúkrahús og nýsköpun
Þeir sem ætla að halda því fram að háskólasjúkrahús þurfi ekki háskóla nálægt sér, þurfa að færa sterkari rök fyrir máli sínu heldur en að það skipti bara ekki máli. Hér að neðan eru fjögur dæmi um nýlega fyrirlestra sem starfsfólk spítalans og HÍ og HR (læknar, líffræðingar, lifeindafræðingar, hjúkrunarfræðingar, verkfræðingar, nemar o.s.frv) mættu á og fengu þar tækifæri til að fræðast, íhuga, ræða saman og fá nýjar hugmyndir. Margir fyrirlestrar eru haldnir í hádeginu svo starfsfólk hafi tækifæri til að „eyða“ hádegismatnum sínum í að læra meira. Já við erum nördar! Þetta myndi aldrei ganga upp ef spítalinn væri settur við Sævarhöfða eða Vífilstaði. Með því að færa spítalann „eitthvað annað“ er m.a. verið að eyðileggja þessi tækifæri nýsköpunar.
a) Erlendur sérfræðingur með fyrirlestur um mismunandi meðferðir við lifrarbólguveirunni. Haldinn í fyrirlestrarsal Barnaspítala.
b) Fyrirlestrar um þróun og efnisnotkun lækningatækja, haldið í HR
c) Fyrirlestur um hreinsun og notkun blóðflaga, haldinn í Læknagarði
d) Fyrirlestur um nýja jáeindaskannann, haldinn í húsi Krabbameinsfélagsins.
Það er erfitt að bera þetta litla samfélag saman við margmilljóna borgir þar sem hver vinnustaður telur fleiri en vinna hjá hinu opinbera í heild sinni og suðupottar vísinda og nýsköpunar eru út um allt. Þó má nefna gott dæmi úr milljónaborginni London, þar sem menn gera sér fulla grein fyrir mikilvægi þess að byggja sjúkrahús við hlið háskóla. University Collage of London, sem staðsett er á einum dýrasta byggingareit í London, þurfti að byggja nýtt og stærra sjúkrahús og sameina gömul úr sér gengin sjúkrahús. Í stað þess að flytja sjúkrahúsbygginguna út í ódýrari lóðir lengra frá háskólanum, var tekin sú ákvörðun að byggja nýtt sjúkrahús við hlið háskólans á dýrasta stað. Svo mikilvæga telja stjórnendur að nálægð háskóla og spítala sé.
Niðurstaða mín er sú sama og alltaf áður, öll rök hníga til þess að besta staðsetning nýs Landspítala sé við Hringbraut. Allir sem kannað hafa þessi mál til hlítar hafa komist að sömu niðurstöðu, fyrir utan „Samtök um betri spítala á betri stað“ sem virðast hafa það eitt að markmiði að stöðva uppbyggingu við Hringbraut sama hvað tautar og raular.
Höfundur er vísinda- og uppfinningamaður.
P.s. fyrir þá sem finnst þetta vera eins og að kaupa hálf-nýjan bíl, þá er miklu réttara að segja að við ætlum að endurnýja og stækka nær allan bílaflotann en sleppa því að selja Bugatti-inn (Barnaspítalann), Kadiljákinn (K-bygginguna og gamla Landspítalahúsið) og Benz sendibílinn (Geðdeildina).
p.s, p.s.
Þessum spurningum þurfa samtök um betri spítala á betri stað að svara:
Hvaðan er talan um 100 til 200 ferðir sjúkrabíla komin?
Hvaðan er talan um 36 þúsund ferðir á dag á Landspítala komin?
Hvaðan eru upplýsingar um sjúkrahúsið í London-Ontario komnar?
Samræmist staðsetning spítala á Vífilstöðum þeim hagkvæmisútreikningum sem samtökin hafa gert um fjölda og lengd ferða til og frá spítala á besta stað? Afhverju andmælið þið ekki þeirri staðsetningu?
Hvað verður tapið fyrir þjóðfélagið mikið per ferð við að hafa spítalann á Vífilstöðum ef miðað er við fyrri forsendur ykkar og kostnað á hvern ekinn kílómetra?
Hvers vegna nota samtökin það sem rök fyrir umferðarteppu að ljóst sé að ekki verður ráðist í að setja Miklubraut í stokk, leggja veg við Hlíðarfót, göng undir Öskjuhlíð og mislæg gatnamót Snorrabraut/Bústaðaveg samhliða uppbyggingu á Landspítalanum?
Hvers vegna nota þá samtökin kostnað við ofangreind umferðarmannvirki sem hluta af kostnaði (20 milljarðar) í sínum „hagkvæmisútreikningum“ á spítala á besta stað þegar þau gera ráð fyrir að þessar framkvæmdir komist ekki á koppinn næstu áratugi?