Mótmælin og stóra samhengið

Jón Gunnar Bernburg
Auglýsing

Fjöldamótmælin sem fram hafa farið á Austurvelli nánast daglega síðan Kastljós sýndi þátt um tengsl forsætisráðherra við eignarhaldsfélag á Bresku Jómfrúareyjum verða aðeins útskýrð til fulls með því að setja þau í samhengi við alþjóðlegu fjármálakreppuna 2007-2009, aðdraganda hennar og eftirmála. Fjármálakreppan olli ekki aðeins efnahagslegum vanda í mörgum velmegandi lýðræðisríkjum heldur líka straumhvörfum á stjórnmálasviðinu. Útbreidd fjöldamótmæli á fyrstu árum kreppunnar og vaxandi fylgi við óhefðbundin stjórnmál á undanförnum misserum, bæði í Evrópu og vestanhafs, endurspegla útbreidda og vaxandi óánægju almennings með stjórnmál og lýðræði í eftirmála fjármálakreppunnar. Ísland er engin undantekning. 

Hrunið rauf sjálfgefinn veruleika almennings og skapaði trúverðugleikavanda fyrir valdhafa, og bjó þannig sjaldgæft sóknarfæri fyrir pólitískt andóf. Íslendingar lærðu í framhaldinu að það er hægt að hafa bein áhrif á valdhafa, og jafnvel steypa þeim af stóli, með fjöldamótmælum. Sá lærdómur er bersýnilega ferskur í sögulegu minni þjóðarinnar.

Hrunið og arfleið þess

Hvernig leiddi fjármálahrunið til fjöldamótmæla sem hófust í október 2008 og í janúar 2009 leiddu til ríkisstjórnaslita og nýrra kosninga síðar um vorið. Ég hef rannsakað þessa spurningu með viðtölum við mótmælendur, könnunum á mótmælaþátttöku almennings og greiningu á orðræðunni sem myndaðist á mótmælafundum og í fjölmiðlum haustið 2008 (sjá: Economic crisis and mass protest: The Pots and Pans Revolution in Iceland; útg. Routledge, maí 2016). Rannsóknin skýrir hvernig fjármálakreppan skapaði frjósaman jarðveg fyrir pólitískt andóf og fjöldavirkjun almennings. Í fyrsta lagi rauf bankahrunið hversdagsveruleika hins almenna borgara; sjálfgefnar forsendur Íslendinga um efnahagslega velsæld í nútíð og framtið brustu og hið sama gerðist fyrir forsendur almennings um traust fjármálakerfi og um yfirsýn og stjórnfestu ríkisvaldsins. 

Auglýsing

Þegar forsendur um þessar stoðir samfélagsins brustu svo skyndilega sem raun bar vitni urðu margir óttaslegnir og furðu lostnir. Slagorðið „helvítis fokking fokk“ náði að lýsa því alveg ágætlega hvernig þessar fágætu aðstæður sköpuðu sterka þörf hjá óttaslegnum almenningi til að skilgreina hrunið—örvæntingafullt ákall um skýringar á því hvað gerst hafði, hvers vegna það hafði gerst og hvað kæmi til með að gerast næst.

En um haustið 2008 lentu stjórnvöld í trúverðugleikavanda sem gerði þeim erfitt um vik að útskýra hrunið fyrir almenningi á trúverðugan hátt. Íslensk stjórnvöld höfðu leitt frelsun fjármálalífsins og einkavæðingu bankanna áratuginn á undan og í aðdraganda hrunsins höfðu þáverandi stjórnvöld opinberlega hunsað viðvaranir um þá hættu sem stafað hafði að Íslandi vegna útþenslu fjármálageirans. Enn fremur töldu stjórnvöld sig tilneydd til að hefja samstarf við AGS og setjast að Icesave samningaborði vegna gjaldeyrisskorts og þrýstings frá öðrum ríkjum (þess má geta að í þróunarlöndunum hefur samstarf við AGS oft haft í för með sér fjöldamótmæli gegn stjórnvöldum). Með þetta í huga, og í ljósi þess að Ísland var eitt fyrsta fórnarlamb fjármálakreppunnar, er ekki að undra að það hafi verið erfitt fyrir valdhafa að telja Íslendingum trú um að þeir væru einfaldlega fórnarlömb „alþjóðlegs fjármálastorms“, eins og þáverandi forsætisráðherra gaf í skyn í sögulegu ávarpi 6. október 2008.

Aðstæðurnar sem sköpuðust í bankahruninu fólu þannig í sér sóknarfæri fyrir pólitískt andóf; undirliggjandi (þ.e. lítt vinsæl) ádeila á stjórnvöld og þjóðfélagsþróun undangengins áratugs fékk skyndilega hljómgrunn í umræðunni. Þjóðfélagsgagnrýnendur og aðgerðasinnar fundu fyrir áður óþekktum meðbyr og fjöldafundir voru haldnir, án aðkomu stjórnmálamanna, til þess að skilgreina hrunið og ástæður þess. Í óttablöndnu óvissuástandi, sem varaði vikum saman, var bankahrunið í stöðugu kastljósi fjölmiðla. Tilfinningahlaðin orðræða skapaðist um að bankahrunið og áhrif þess á samfélagið (t.d. Icesave krísan, gjaldeyrisskortur, hugsanlegt gjaldþrot ríkisins) væru stjórnmálunum að kenna, einkum ríkisstjórnum undangenginna ára. Orð eins og „spilling“, „flokkadrættir“, „auðmannadekur“, „óréttlæti“ og „blind markaðshyggja“ urðu áberandi í umræðunni. Og orðræðan fékk hljómgrunn. Kannanir sem gerðar voru eftir alþingiskosningar vorið 2009 sýndu að meirihluti Íslendinga (yfir 70%) taldi stjórnvöld bera mikla ábyrgð á fjármálahruninu. Kannanir hafa sýnt að á þeim árum sem liðin eru hefur almennt traust almennings til stjórnmálanna lítið lagast. Hér á landi líkt og víða annars staðar er útbreitt vantraust á stjórnmálunum arfleið fjármálahrunsins.

Mótmælahefðin

Líkt og í mörgum öðrum löndum leiddi fjármálakreppan til mikilla mótmæla hérlendis. Fram að hruni hafði tíundi áratugurinn einkennst af fámennum mótmælum aðgerðasinna, sem einkum beindust að málefnum með alþjóðlega skírskotun (t.d. náttúruvernd og mannréttindabrotum). En fjármálakreppan kveikti í annars konar mótmælum; mikill fjöldi almennra borgara safnaðist saman á torgum til að mótmæla stjórnvöldum. Þetta gerðist í mörgum löndum, einkum í austur- og suður Evrópu. Mótmælin voru víða sjálfsprottin; nýjir leikendur komu fram (í bland við „vana mótmælendur“) og boðuðu og skipulögðu mótmæli með hjálp samfélagsmiðla. Þátttaka almennings varð víða afar mikil. Til að mynda benda kannanir til þess að um þriðjungur Grikkja hafi tekið þátt í mótmælum gegn niðurskurði í ríkisfjármálum árið 2011. Kannanir hérlendis benda til þess að fjórðungur höfuðborgarbúa hafi á einhverjum tímapunkti mætt í búsáhaldamótmælin í janúar 2009. Jafnframt benda þær til þess að 60-70% þjóðarinnar hafi stutt þau mótmæli.

En þó er vert að rifja það upp í þessu samhengi að á fyrstu dögum hrunsins var lítill hljómgrunnur fyrir mótmælaaðgerðum. Fyrstu mótmælafundirnir sem haldnir voru í miðbæ Reykavíkur eftir bankahrunið voru fámennir, enda ekki til staðar væntingar hjá almenningi um að mótmæli á torgum hefðu eða gætu haft áhrif á valdhafa. Slíkar væntingar sköpuðust þegar leið á haustið 2008. Á meðan óvissuástandið dróst á langinn héldu þrautseigir einstaklingar regulega mótmælafundi og borgarafundi og þátttaka almennings fór smám saman vaxandi. Ört vaxandi þátttaka „venjulegs fólks“ í mótmælaviðburðum kveiktu væntingar um áframhaldandi mótmæli, ekki síst hjá aðgerðasinnum sem fóru að skipuleggja og sviðsetja uppákomur sem gáfu mótmælunum róttækan blæ. Eins aðgerðasinni einn tjáði mér: „.Þetta voru ekki bara við þessir venjulegu mótmælendur að rífa kjaft í lopapeysum heldur þverskurður af þjóðinni mættur að heimta breytingar, og þá vissi maður að það gæti gerst.“ Þessi stemning magnaðist upp í janúar 2009 og náði hámarki þegar mótmælendur mættu á virkum degi við upphaf þings 20. janúar með potta og pönnur. Nokkrum dögum síðar gafst ríkisstjórnin upp og boðað var til kosninga. Íslendingar höfðu lært að fjöldamótmæli eru ekki aðeins möguleg heldur geta haft bein áhrif á valdhafana. Þetta var einn af lærdómum hrunsins.

Panamalekinn og mótmælin nú

Opinberun um tengsl forsætisráðherra við eignarhaldsfélag á aflandseyjum endurvakti orðræðu um slæm stjórnmál og óréttlæti sem enn blundar í tilfinningalífi margra Íslendinga. Sýnileg undanbrögð ráðherrans í Kastljósþættinum mögnuðu áfallið og vöktu upp kunnuglega tilfinningu um forsendubrest. Þátturinn vakti sterkar réttlætistilfinningar hjá stórum hluta þjóðarinnar og skapaði um leið sóknarfæri fyrir pólitískt andóf. Gríðarlegur fjöldi „venjulegra borgara“ mætti í mótmælin á Austurvelli mánudaginn 4. apríl, sem búið var að boða til á Facebook með nokkrum fyrirvara. Rétt áður en þátturinn var sýndur höfðu rúmlega fjögur þúsund manns boðað sig á Facebook á mótmælin. Þegar mótmælin hófust daginn eftir höfðu yfir tíu þúsund manns boðað komu sína (yfir 90 þúsund manns var boðið á Facebook). Áreiðanlegar tölur um mætingu eru ekki fáanlegar; líklega var mæting á bilinu 10 til 20 þúsund, allt eftir því hvaða aðferð beitt er við talningu. Sé miðað við 15 þúsund má ætla að um 10% af íbúum höfuðborgarsvæðisins hafi mætt í þessi mótmæli (18-75 ára). Útbreiddar væntingar um að meðborgararnir séu reiðubúnir að mæta í mótmæli og að fjöldamótmæli geti raunverulega haft áhrif á valdhafa eru forsenda þess að slíkur fjöldi mæti skyndilega í mótmæli. Það var jú lærdómur hrunsins. Búsáhaldamótmælin hafa þannig í raun spilað stórt hlutverk í viðbrögðum almennings við Panamalekanum.

En svo virðist sem sóknarfærið sem skapaðist fyrir pólitískt andóf eftir Kastljósþáttinn hafi verið tímabundið, jafnvel þótt margir hafi viljað ganga lengra og mætt á áframhaldandi mótmæli. Mótmælin sem fram fóru síðastliðinn laugardag voru stór á íslenskan mælikvarða og jafnast reyndar á við stærstu laugardagsfundina sem haldnir voru í miðju óvissuástandi hrunsins í nóvember 2008 (mætingin er metin á bilinu 5500 til 12000). Þessi mikla mæting endurspeglar óánægju almennings með stjórnmálin. En þótt laugardagsmótmælin hafi skapað mikla stemmingu hafa mótmæli vikunnar verið fremur fámenn. Mætingin í boðuð mótmæli næstkomandi laugardag mun gefa vísbendingu um hvert framhald mótmælanna verður á næstu vikum. Í bili hafa fjölmiðlar beint kastljósinu annað, hversdagslegri málefni eru komin á dagskrá aftur. Eftir brotthvarf Sigmundar Davíðs sýnist veruleikinn aftur eins og hann var áður. En óánægjan er til staðar. Líkt og víða annars staðar er sú tilfinning útbreidd að stjórnmálin séu ekki lengur farvegur fyrir þau átök og álitaefni sem mestu máli skipta.

Í stuttu máli sýnir atburðarrás síðastliðinna daga að þegar sóknarfæri myndast fyrir pólitískt andóf skapar mótmælahefð sú sem til varð á Íslandi veturinn 2008-2009 möguleika á fjöldamótmælum sem haft geta bein áhrif á valdhafa. Ljóst er að mótmælin 4. apríl sköpuðu mikinn þrýsing á valdhafa, sem sést best á því að atburðarrás þriðjudagsins 5. apríl var með miklum ólíkindum. Þróun mótmælanna undanfarna daga bendir til þess að sóknarfærið fyrir andóf og virkjun fjöldans hafi verið tímabundið, en ljóst er að óánægja kraumar og mótmælahefð hefur fest sig í sessi hérlendis. Sú blanda getur aftur brotist út með afgerandi hætti næst þegar forsendubrestur og trúverðugleikakrísa skekur samfélagið.

Höfundur er prófessor í félagsfræði við HÍ.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Sjókvíaeldi hefur aukist hratt á síðustu árum
Sjókvíaeldi hefur 13-faldast á sex árum
Umfang laxeldis hefur margfaldast á síðustu árum og útlit er fyrir að það muni vaxa enn frekar í náinni framtíð. Gangi spár eftir mun sjókvíaeldi á laxi árið 2023 verða tæplega helmingi meira en það var samanlagt á árunum 2010-2018.
Kjarninn 7. maí 2021
Eldgos hófst í Geldingadölum í Fagradalsfjalli þann 19. mars síðastliðinn.
„Nýr ógnvaldur“ við heilsu manna kominn fram á suðvesturhluta Íslands
Lungnalæknir segir að lítið sé vitað um langtímaáhrif vegna gasmengunar í lágum styrk til lengri tíma og áhrif kvikugasa í mjög miklum styrk í skamman tíma á langtímaheilsu. Nauðsynlegt sé að rannsóknir hefjist sem fyrst.
Kjarninn 7. maí 2021
Viðsnúningur Bandaríkjanna í óþökk lyfjarisa
Óvænt og fremur óljós stefnubreyting Bandaríkjanna varðandi afnám einkaleyfa af bóluefnum gegn COVID-19 hefur vakið litla kátínu í lyfjageiranum. Deildar meiningar eru um hvort afnám einkaleyfa kæmi til með að hraða framleiðslu bóluefna.
Kjarninn 7. maí 2021
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Ísland skoðar að kaupa 100 þúsund skammta af Spútnik V og vill fá þorra þeirra fyrir 2. júní
Viðræður hafa átt sér stað milli fulltrúa íslenskra stjórnvalda og þeirra sem framleiða og markaðssetja hið rússneska Spútnik V bóluefni. Ísland myndi vilja fá að minnsta kosti 75 þúsund skammta fyrir 2. júní.
Kjarninn 7. maí 2021
Tæknivarpið
Tæknivarpið
Tæknivarpið – Sonos fær uppreist æru og Framsóknarmaður vill aldurstakmark á snjalltæki
Kjarninn 7. maí 2021
Bólusetningar ganga nú mjög hratt fyrir sig á Íslandi og samhliða dregur úr takmörkunum.
Fjöldatakmarkanir hækkaðar í 50 manns frá og með næsta mánudegi
Opnunartími veitingastaða verður lengdur um klukkustund, leyfilegur fjöldi í verslunum tvöfaldast, fleiri mega vera í sundi og fara í ræktina. Grímuskylda verður hins vegar óbreytt.
Kjarninn 7. maí 2021
Skálað á kaffihúsi í Danmörku.
Ýta við ferðaþjónustunni með 32 milljarða króna „sumarpakka“
Danska ríkisstjórnin ætlar að setja 1,6 milljarða danskra króna, um 32 milljarða íslenskra, í „sumarpakka“ til að örva ferðaþjónustu landsins.
Kjarninn 7. maí 2021
Kvótinn um 1.200 milljarða króna virði – Þrjár blokkir halda á tæplega helmingi hans
Miðað við síðustu gerðu viðskipti með aflaheimildir þá er virði þeirra langtum hærra en bókfært virði í ársreikningum útgerða. Í næstu viku munu örfáir eigendur útgerðar selja tæplega 30 prósent hlut sinn í henni.
Kjarninn 7. maí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar
None