Í ljósi hinnar breyttu stöðu í íslenskum stjórnmálum þá virðist augljóst að sala á eignarhlutum í ríkisins í fjármálakerfinu mun ekki fara fram fyrir kosningar í haust.
Fátt mun komast að annað en að klára lokahnykkinn við losun fjármagnshafta, og vonandi mun sú vinna ganga vel fyrir sig. Almannahagsmunir verða að ráða í þeirri vinnu, og vonandi ná stjórnmálamenn að hefja sig upp úr skotgrafarhernaði þegar það mál er annars vegar. Það er of mikið í húfi.
En þegar kemur að einkavæðingu á bönkunum - ef það stendur til að fara í það ferli án þess að breyta bankakerfinu - þá verður að hafa eitt að leiðarljósi. Og það er gagnsæi í öllu ferlinu. Allt þarf að þola dagsljósið.
Þetta á raunar einnig við um starf Bankasýslunnar. Vonandi dettur þar engum í hug, að setja pólitíska fulltrúa stjórnmálaflokkanna í stjórnir bankanna. Svo dæmi sé tekið.
Þegar kemur að fjármálakerfinu, þá verða stjórnvöld að vanda til verka, og bera virðingu fyrir því, að vantraustið á fjármálstofnunum og stjórnvöldum er mikið og viðvarandi. Ekket feilspor verður liðið.