,,Skemmdarverk” sagði Hjálmar Sveinsson formaður Skipulagsráðs Reykjavíkurborgar óheimilað niðurrif á hundrað og tíu ára gömlu húsi við Tryggvagötu 12. Heimilað hafði verið að rífa tveggja hæða steinhús við Tryggvagötu 10 (nefnt Fiskhöllin, byggð 1905) og tvílyft timburhús með kjallara og risi við Tryggvagötu 14 (byggt 1899), sumsé byggingar sitt hvorum megin við áðurnefnt hús. Einnig hafði verið heimilað að lyfta Tryggvagötu 12 um eina hæð, rífa bakhliðina af og byggja glerviðbyggingu. Af hverju? Jú, það vantar nefnilega hótel. Framkvæmdir hafa verið víða, að vísu með samþykki Reykjavíkurborgar en áhöld eru samt um gildi þeirra framkvæmda og skilgreininguna á skemmdarverki.
Hafnarstræti 19, Rammagerðin,teiknað af Einari Erlendssyni og byggt 1925 var rifið 2015. Húsið við hliðina á því, Hafnarstræti 17, byggt 1900, var nýlega skrælt að innan. Allt tekið, gólf, milliveggir, útveggir. Af hverju? Jú, það átti að breyta húsinu í hótel en burðarþol hússins gerði ekki ráð fyrir baðaðstöðu í hverju herbergi. Það hafði ekki verið hugsað fyrir því árið 1900. Hvað gera bændur þá? Fá leyfi og rústa pleisinu. Þessi tvö hús eru í einum elsta bæjarhluta Reykjavíkurborgar, við gamla hafnargarðinn, hafa staðið þar í eina öld. Ef menn langar til að reka hótel, og húsið sem þeir eiga þolir það ekki, verða þeir ekki bara að finna sér annað hús? Er eðlilegt að fá leyfi til að eyðileggja menningarverðmæti, hluta af borgarsögu okkar fyrir eiginhagsmuni? Getum við ekki treyst skipulagsyfirvöldum til að setja hagsmuni borgarbúa og þjóðarinnar allrar í fyrsta sæti? Að rústa hundrað og tuttugu ára gömlu húsi fyrir enn eitt hótelið séu kannski ekki hagsmunir heildarinnar. Því þessar framkvæmdir verða ekki aftur teknar. Exeter húsið sem stóð við Tryggvagötu 12 er vissulega hægt að endurbyggja, en það verður aldrei eins. Það er einfaldlega ekki hægt.
Skemmdarverk? Já, vissulega. En mér detta önnur skemmdarverk í hug, önnur skemmdarverk sem borgin hefur leyft. Fyrirhugað er að rífa Grettisgötu 4, hlaðið einlyft steinhús með risi frá sama ári. Á sama tíma á að setja niður 2 flutningshús við sömu götu, gegnt þessu tiltekna húsi. Flutningshús sem stóðu áður við Grettisgötu 17 og Hverfisgötu 61. Maður hlýtur að spyrja sig, hvaða hringavitleysa er þetta? Á sama blettinum er verið að rífa og setja niður flutningshús. Þetta er algjör della. Laugavegur 17 og 19 voru rifin að innan, allt skrælt innanúr þeim, bara fronturinn skilinn eftir. Og hvað er þá eftir? Hvað er gamalt hús? Er gamalt hús nýbygging með fronti í gömlum stíl? Ef gólf hafa verið rifin burt, hurðir, milliveggir og útveggir farnir, er húsið þá 110 ára gamalt? Liggja einhver menningarverðmæti í slíkri leikmynd? Því hvað eru þessi hundrað ára gömlu timburhús annað en okkar hallir og kastalar, okkar menningarverðmæti? Ákveðinn byggingarstíll sem einkennir þessi hús er ekki að finna í byggingarlöggjöf og verklagi okkar tíma. Áferð, byggingarefni, aðferðir, lykt, brak og brestir. Þessi hús eru okkar saga, okkar fortíð. Í þeim höfum við alið manninn alla síðustu öld. Og þrátt fyrir almennan misskilning þá eru þau ekkert svo mörg. Hús byggð fyrir 1907 í Reykjavík eru 0,3% af öllum húsum.
Öll þessi hús sem ég hef nefnt eru friðuð. Friðlýst sökum aldurs. En hver er friðunin? Ef allar framkvæmdir eru leyfðar ef farin er rétt leið í kerfinu, hverju breytir þá skilgreiningin friðlýsing?
Húsafriðunarnefnd er einungis ráðgefandi. Minjastofnun Íslands sér um framkvæmd laga um menningarminjar sem sett voru 2012. Reykjavíkurborg hefur ákveðna stefnu um varðveislu bygginga og menningararfs sem unnin var í tengslum við Aðalskipulag. Þessi stefna hefur ekki fengið neina lagalega staðfestingu og pólitíkin hefur lýst þessu sem vilja sínum en þessi vilji hefur ekki komið fram þegar styrinn hefur staðið um einstök hús.
Selfossbær kynnti nýlega hugmyndir um nýjan miðbæ. Byggja skyldi í gömlum stíl. Eins og húsin væru gömul. Þau yrðu öll steypt, en bárujárnsklædd og með timburgluggum í gömlum stíl svo allir héldu að þau væru gömul timburhús. Ungt bæjarfélag myndi skapa sér sögu með fínni leikmynd. Erum við virkilega stödd þar? Að feika það þangað til við meikum það? Því við hljótum að spyrja okkur sjálf hver okkar sjálfsmynd er. Er þetta fáfræði? Eða kannski smekkleysi? Er okkur einfaldlega sama um sögu okkar? Það er kannski þess vegna sem við virðumst ekki læra neitt.
Finnst borginni, Hjálmari Sveinssyni formanni Skipulagsráðs, byggingarfulltrúanum Nikúlási Úlfari, Pétri Ármannssyni, Guðnýju Gerði og félögum á Minjastofnun ekki nóg komið? Eða ætlum við að leyfa skemmdarverkin þar til það er ekkert eftir?