1. Það hafa liðið tæplega 20 ár frá því Ólafur Ragnar Grímsson varð forseti Íslands, árið 1996. Hann er sjálfur fæddur 14. maí 1943, og tók við embættinu 53 ára.
2. Í forsetatíð hans hafa farið fram fimm Alþingiskosningar. Árið 1999, 2003, 2007, 2009 og 2013.
3. Hugbúnaðarfyrirtækið Google/Alphabet var stofnað tveimur árum eftir að Ólafur Ragnar Grímsson varð forseti, af þeim Larry Page og Sergey Brin. Það er eitt áhrifamesta hugbúnaðarfyrirtæki heimsins. Um það leyti sem Ólafur Ragnar tók við embætti, hófu Page og Brin samstarf við Stanford háskóla sem leiddi til stofnunar fyrirtækisins í tveimur árum síðar. Heildartekjur Google námu í fyrra 74,5 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur um tæplega 10 þúsund milljörðum króna.
4. Miklar kerfisbreytingar urðu á fjármálakerfinu með einkavæðingu sem hófst árið 1998, tveimur árum eftir að Ólafur Ragnar varð forseti, og lauk með sölu á Landsbankanum og Búnaðarbankanum á árunum 2002 og 2003. Til þess að gera langa sögu stutta, þá hrundi allt fjármálakerfið til grunna dagana 7. til 9. október 2008, eftir mikið vaxtarskeið erlendis, en með neyðarrétti var komið í veg fyrir allsherjarþrot hagkerfisins og viðspyrna fyrir efnahagslega uppbyggingu varð möguleg.
5. Fimm árum eftir að Ólafur Ragnar varð forseti var tekin upp flotgengisstefna, árið 2001, sem lauk síðan með setningu fjármagnshafta í nóvember 2008, sem var hluti af neyðaraðgerðum til að koma í veg fyrir allsherjarhrun alls hagkerfisins. Þetta tímabil var sögulegt fyrir þær sakir að þetta er eina tímabilið frá því landið fékk sjálfstæði þar sem viðskipti hafa verið alveg haftalaus á gjaldeyrismarkaði.
6. Á sama tíma og Ólafur Ragnar tók við embætti, nánast upp á dag, var ungur brasilískur leikmaður í fótbolta, Ronaldo að nafni, seldur fyrir metupphæð frá PSV Eindhoven í Hollandi til Barcelona á Spáni. Hann hafði leikið í framlínu hollenska félagsins, og meðal annars verið í liðinu með Eiði Smára Guðjohnsen, sem þá var átján ára gamall. Ronaldo átti eftir að eiga stórkostlegan feril, þrátt fyrir alvarleg hnémeiðsli. Hann var þrisvar sinnum kosinn leikmaður ársins hjá FIFA en hætti knattspyrnuiðkun árið 2011. Þá var Ólafur Ragnar vitaskuld enn forseti, og hefur verið það í fimm ár síðan.
7. Evran, gjaldmiðill evrulandanna í Evrópu, var lögfest sem gjaldmiðill 1. janúar 1999. Tveimur á hálfu ári eftir að Ólafur Ragnar tók við sem forseti.
8. Elsti og víðlesnasti fréttamiðill landsins á internetinu, mbl.is, hóf að veita þjónstu á netinu 2. febrúar 1998. Fréttaþjónusta á netinu tók því að þróast hér á landi eftir að Ólafur Ragnar varð forseti.
9. Íbúum jarðarinnar hefur fjölgað um 1,3 milljarða frá því Ólafur Ragnar varð forseti. Þeir voru 5,8 milljarðar árið 1996, en voru í fyrra 7,1 milljarður. Í Evrópu búa um 520 milljónir manna.
10. Íbúum Íslands hefur fjölgað um ríflega 65 þúsund manns frá því Ólafur Ragnar tók við embætti forseta. Þeir voru 267 þúsund 1996 en voru í fyrra tæplega 333 þúsund.