Ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar, um að bjóða sig fram til áframhaldandi setu sem forseti Íslands, í kosningunum í júní, setur kosningabaráttuna í annan farveg. Ljóst má vera að það verði brött brekka fyrir marga sem hafa verið að skipuleggja kosningabaráttuna lengi, að etja kappi við sitjandi forseta til 20 ára.
En á sama tíma skerpir þetta á valkostum og hugmyndum sem frambjóðendur hafa um embættið. Nú reynir á að allir kynni sín sjónarmið, og það má ekki útiloka að ákveðin kynslóðaskipting geti orðið í þetta skiptið í kosningunum. Tuttugu ár í embættinu er langur tími og líklega verður það að teljast ákveðin áhætta hjá Ólafi Ragnari að bjóða sig fram í þetta skiptið, eftir að hafa lýst því yfir að hann ætlaði sér ekki að halda áfram í nýársavarpi sínu 1. janúar síðastliðinn. En Ólafur Ragnar er reynslumikill og vígfimur í pólitískri baráttu, svo mikið er víst. Hann mun alltaf hafa það forskot á aðra keppinauta.
Ákvörðun Ólafs Ragnars hefur hleypt lífi í kosningabaráttuna, og vafalítið telja margir þetta líka geta haft mikil áhrif á Alþingiskosningarnar í haust, og jafnvel færa ríkisstjórnarflokkunum einhvern byr í segl, í ljósi þess hvernig bakland Ólafs Ragnars hefur þróast á undanförnum árum.
En eins og oft þegar kemur að stjórnmálum, þá er vandi um slíkt að spá.