Hvaðan komum við?
Hæ, ég heiti Þetta. Segir það þér eitthvað?
Það er góður indjánasiður að kynna hverra og hvaðan maður er en ekki hvað maður heitir. Annað væri móðgun við þig, foreldra mína, ættingja og samfélagið sem mótaði mig.
Ég er alinn upp í Skaftárhreppi. Sveit staðsett á suðausturlandi, mitt á milli austfjarða og höfuðborgarsvæðisins. Samfélagið saman stendur annars vegar af hráum grunnstoðum. Þar má nefna heilsugæslu, grunnskóla, hjúkrunarheimili og lítil verktakafyrirtæki í iðnaði. Hins vegar byggist það upp á landbúnaði og ferðaþjónustu.
Skólabíllinn sótti mig heim að dyrum klukkan tíu mínútur yfir átta alla mína grunnskólagöngu. Skólinn gekk eins og vel smurð færibandalína. Skólanámskráin stýrði því með sóma. Íslenska, danska, enska, myndlist, smíði, landafræði, líffræði, náttúrufræði, eðlisfræði, efnafræði, lífsleikni og tölvufræði. Þessu var síðan krumpað saman í samfélagsfræði og sögu. Í frímínútum, þegar prósentureikningur hringlaði í hausnum á manni frá því fyrr um morguninn. Fórum við strákarnir oft að metast um það hvaða tegund af traktor væri best eða hvað væru margar kindur á okkar bæ. Það vilja allir vera stærstir og bestir.
Við höfðum minni áhuga á næsta sögutíma. Þar fengum allt að vita um Jón Sigurðsson, Fjölnismenn, Svein Björnsson, Ólaf Thors, NATO, WW2, ameríska drauminn, síldarævintýrið og allt sem gerði Ísland að sjálfstæðu velferðarríki. 9. og 10. áratugurinn voru samt óskráðir í skólabókunum okkar. Bæði vegna þess að bækurnar voru gamlar og sennilega vegna þess að það er enn í dag óvíst hvað verður um þá skrifað.
Hvað er í gangi?
Ég fluttist í bæinn sumarið sem ég varð 16 ára. Fyrir sveitastrák er það mikil breyting. Hraðinn, stressið og skipulögðu skyndilausnirnar voru ekki á pari við það sem ég var alinn upp við.
Amma sendi mér samt alltaf kleinur og flatkökur, bróðir hennar sendi mér fisk en kjöt og kartöflur fékk ég frá foreldrum mínum í sveitinni.
Fátt eitt þurfti ég að kaupa í Bónus. Eitt skiptið lenti ég á tali við konu á sextugsaldri þegar ég var að velja mér ávexti. Hún skammaðist mikið yfir því hvað ungt fólk væri með eindæmum miklir letingjar. „Epli í plastumbúðum, skyr í plastumbúðum, plastskeiðar og einnota mjólkurfernur. Fólk nennir ekki einu sinni að vaska upp eftir sig, hvað þá að vinna!“ Svona var þetta sko ekki þegar hún var ung.
Þessi orð hennar virkuðu sem hvatning á mig þá. Ég vildi sýna henni og öðrum að ég væri ekki letingi og ungt fólk gæti látið til sín taka, sérstaklega krakkar úr sveit. Það hefði mér sko verið kennt.
Í dag langar mig að segja við hana að það uppeldi sem hún fékk og sýn hennar kynslóðar sé hræðsludrifin græðgi. Sú hugsun bjó til einnota umbúðir, þrefaldaði orkuframleiðslu landsins á 20 árum, seldi fiskimiðin á spottprís og flytur inn ólöglegt vinnuafl til að gera skítverkin.
Hún mun eflaust ekki kunna vel við þessi orð því hennar kynslóð er alin upp á mestu uppgangstímum Íslands. Tækninýjungar og framleiðni hefur margfaldast á hennar tímum. Þegar hún hugsar um malarvegina sem hún varð bílveik á í æsku þorir hún ekki annað en að halda áfram í sömu átt sem kom henni frá þeim. Foreldrarnir sögðu henni líka að það væru torfkofar í hina áttina og hún er dauðskelkuð við það eitt að stoppa nema til að taka hálendisríkt flugvélabensín.
Hvert erum við að fara?
Ferðamenn voru um 1.260.000 árið 2015 og skiluðu 238 ma.kr í gjaldeyristekjur. Heildarafli úr sjó var 1.344.000 tonn fisveiðiárið 2014/2015 og skilaði 269 ma.kr í gjaldeyristekjur.
Hver ferðamaður skilar verðmætum sem samsvarar rúmlega tonni af fiski. Sumir bara með því að fara í Bláa lónið.
Hálendið er víða ofbeitt af skepnu sem skilar sama sem engum hagnaði. Þessi gamla hugsun er að keyra í gegn nýja búvörusamninga sem svo gott sem þvinga bændur til að auka sína framleiðslu.
Stórframkvæmdir í stóriðju tröllríða hagkerfinu trekk í trekk. „Fjallkonan“ sem ég hitti í Bónus nýtir tímann milli framkvæmda til að dæla hálendi á bílinn og er á meðan skíthrædd um að torfkofarnir nái henni og reið yfir að stjórnvöld séu ekki búin að setja sjálfvirka áfyllingu á tankinn svo hún þurfi nú ekki að standa í þessu gaufi og veseni.
Þessi úrelta hugsun og uppgripsfíkn er að mergsjúga auðlindir landsins, fiskimiðin eru vanvirt, hálendið er skyndigróðastöð ríkisins og á meðan pössum við að segja engum frá því svo að við getum grætt pening af grunlausum útlendingum. Þeir skila samt svakalega háum upphæðum til okkar allra, er það ekki?
Væri ekki ágætt að geta sagt ferðamönnum að við berum virðingu fyrir auðlindum okkar og meint það?
Hvað eigum við að gera?
Ég hvet „fjallkonuna“ við stýrið til að stoppa bílinn. Þó ekki væri nema í smástund. Þú ert að rústa bílnum þínum og glannaskapurinn er þín ósvalandi græðgi. Börnin þín þurfa að nota sama bíl. Þú sinnir engu viðhaldi og bíllinn eyðir orðið meira en skriðdreki. Hann er skítugur utan sem innan. Dóttir þín er betri að keyra en þú.
Stígðu útúr bílnum, fáðu þér eina með öllu. Rifjaðu upp enskuna og önnur tungumál sem þú hefur fengið að læra, sýndu ferðamönnum hvar þú ert og þinn merkilega bíl. Börnin þín hafa menntað sig í að gera við bíla og keyra sparakstur. Torfkofarnir eru svo langt á eftir þér að það muna fæstir hvernig þeir líta út.
Ekki vera hræðslupúki. Hættu að hlusta á þá sem eru klappstýrur þessarar hugmyndafræði. Ekki segja þeim að fara með fiskinn og hálendið til aflandseyja. Ekki kjósa Ólaf Ragnar Grímsson sem forseta Íslands eða Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn á þing.
Það væri fínt að fá mynd á sögu síðustu áratuga og þessir aðilar eru best geymdir þar sem viðvörun.