Þrátt fyrir mikla ólgu á sviði stjórnmálanna og vantraust á stjórnmálamönnum, þá er staða efnahagsmála í landinu góð um þessar mundir. Raunar er staðan þannig, nú þegar lokahnykkurinn í áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta er framundan, að flestir hagvísar vísa í rétta átt.
Helsta hættan er ofþensla, segja Seðlabanki Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn. Nú þarf halda vel á spöðunum í hagstjórninni.
Hvernig sem fer á stjórnmálasviðinu, eftir kosningar í haust, þá er óskandi að stjórnvöld muni á næstu árum haga seglum eftir vindi í hagstjórninni og reyni eftir fremsta megni að skapa gott jafnvægi. Eflaust verður það þrautin þyngri, eins og sagan sýnir.
Ábyrg stjórnun fer ekki alltaf saman við vinsældir, svo stjórnmálamenn verða að hafa hugrekki til að horfa á stöðuna kalt og halda skynsamlega um hagstjórnartaumana.