Könnun MMR, sem sýnir Ólaf Ragnar Grímsson með tæplega 23 prósentustiga forskot á Andra Snæ Magnason í kosningabaráttunni fyrir embætti forseta Íslands, sýnir glögglega hversu áhrifamikil ákvörðun það var hjá Ólafi Ragnari að bjóða sig fram á nýjan leik, 20 árum eftir að hann varð forseti. Sem sitjandi forseti er hann með yfirburðastöðu og algjört forskot á keppinauta, ekki síst vegna þess hvernig ákvörðun hans er rökstudd. Að á óvissutímum, skömmu eftir afsögn forsætisráðherra, þá sé það ráðlegt að bjóða fram kraftana á nýjan leik vegna „óvissu“ og „óstöðugleika“.
Þeir frambjóðendur sem sáu fram á nýja tíma og nýtt upphaf, þegar Ólafur Ragnar myndi hætta sem forseti, höfðu engin vopn á hendi og stóðu í reynd frammi fyrir ókleifum múr, eftir þessa endurskoðuðu ákvörðun. Það sést á könnunum að það eru Ólafur Ragnar og Andri Snær eru eins og tveir turnar - og Ólafur Ragnar mun hærri - en Halla Tómasdóttir mælist með 8,8 prósent fylgi. Það er langt frá þeim fyrrnefndu, en það má ekki gleyma því samt að margt getur gerst á þeim vikum sem eftir eru fram að kosningum. Aðrir frambjóðendur hafa mun minna.
Það má ekki slá því föstu strax, að sigurinn sé vís hjá Ólafi Ragnari. Svo er ekki. Kannanir hafa sýnt að fylgi við flokka og fólk, á hinu pólitíska sviði, er kvikt og breytist hratt. Það sama getur vel átt við um forsetaframbjóðendur. Baráttunni er því langt í frá lokið. Það er óskandi að málefnaleg og skemmtileg kosningabarátta sé nú framundan, þar sem málefni fá að njóta sín með lifandi rökræðum.
Þjóðin á skilið að fá fram málefnalega baráttu, eftir það sem á undan er gengið.