Hinn ljómandi góði og vandaði fréttavefur Norðurskautið, sem skrifar um nýsköpun á Íslandi og ýmislegt sem henni tengist, fjallaði um rekstur Nýherja á vef sínum í gær, og þá orð sem forstjórinn Finnur Oddsson lét falla, og snéru að samanburði á regluverkinu í Kanada og á Íslandi.
Einkum var það skattastefna landanna þegar kemur að rannsóknum og þróun sem Finnur ræddi um, í samhengi við vaxandi starfsemi Tempo, dótturfélags Nýherja.
Finnur sagði að ástæðan fyrir ákvörðun um vöxt í Kanada, frekar en á Íslandi, væri nokkuð augljós. Kostnaðurinn væri um 30 til 40 prósent minni, vegna þeirrar stefnu sem Kanada ynni nú eftir. Hún miðar að því að draga tæknifyrirtæki til Kanada og örva þann hluta hagkerfisins til muna.
Þó margt hafi verið vel gert á Íslandi í þessum efnum, og þá ekki síst upp á síðkastið, þá má ekki gleyma því að samkeppnin milli landa er hörð. Stefnan þarf því að vera í sífelldri endurskoðun. Annars færast störfin hratt og örugglega úr landi.