Það virðist vera ákveðin hefð fyrir því að gera lítið úr hagsmunaárekstrum á Íslandi. Algeng birtingarmynd þess er að allir eru svo fullvissir um að mögulegir hagsmunaárekstrar geti ekki haft nein áhrif á þá sjálfa að þeir telja enga ástæðu til þess að grípa til ráðstafana. Er það nokkuð mannleg afstaða, þar sem flestir vilja auðvitað trúa því að þeir geri sjálfir aldrei neitt sem fer á svig við lög eða gott siðferði. En hagsmunaárekstrar eru ekki bara fræðilegt hugarfóstur siðfræðinga og stjórnsýsluspekúlanta. Þegar á það reynir kemur gjarnan á daginn að áhrif hagsmunaárekstra eru umtalsvert meiri heldur en væntingar voru um. Í besta falli gera hagsmunaárekstrar það að verkum að aldrei mun ríkja traust um það sem vel er gert. Í versta falli stuðla þeir að brenglaðri ákvarðanatöku, klíkuskap, spillingu og hindra eðlilega virkni markaða.
Hagsmunaárekstrar koma fyrir víða og hafa haft mótandi áhrif á þjóðfélagið okkar frá manna minnum. Það er t.d. áhugavert að setja atburði sem áttu sér stað í aðdraganda hrunsins í samhengi við ráðstafanir sem hefði mátt grípa til í því skyni að draga úr eða koma í veg fyrir hagsmunaárekstra. Má þar fyrst nefna lánveitingar stóru bankanna þriggja til tengdra aðila. Eins og greint var frá í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 voru stærstu lántakendur bankanna þriggja einnig þeirra stærstu hluthafar, eða aðilar tengdir þeim. Aðrir aðilar tengdir bönkunum voru yfirleitt ekki fjarri, á listum yfir stærstu lántakendur. Áhugavert er að velta því fyrir sér hvað hefði orðið, ef bankarnir hefðu sett sér skýrar reglur sem takmörkuðu eða hreinlega bönnuðu lánveitingar til tengdra aðila, sökum þeirra augljósu og stórfelldu hagsmunaárekstra sem felast í slíkum lánveitingum. Í öllu falli er ljóst að slíkar ráðstafanir hefðu haft mikil áhrif á þá atburðarás sem hófst upp úr aldamótum og lauk með falli bankakerfisins.
Einnig má nefna viðskipti bankanna með eigin hlutabréf. Bankarnir þrír áttu allir umtalsverð viðskipti með eigin hlutabréf í aðdraganda hrunsins og veittu mikla fjármuni til lánveitinga gegn veði í þessum sömu hlutabréfum. Í þeirri stöðu fólust augljósir og umtalsverðir hagsmunaárekstrar. Þegar hlutabréfaverð tók að lækka myndaðist hvati hjá bönkunum til þess að kaupa eigin hlutabréf, sem og fjármagna kaup annarra aðila á þeim, í því skyni að koma í veg fyrir frekari lækkanir. Sú staðreynd að fjárhagsleg staða þeirra var orðin nokkuð háð eigin hlutabréfaverði, sökum fyrrgreindra lánveitinga til tengdra aðila og lánveitinga með veði í eigin hlutabréfum, ýtti sterklega undir slíka hvata. Bankarnir gerðu vissulega einhverjar ráðstafanir til þess að draga úr áhrifum þessara hagsmunaárekstra, svo sem með því að mynda „kínaveggi“ í kringum starfsemi þeirra deilda sem sáu um eigin fjárfestingar þeirra. Þær ráðstafanir virðast aftur á móti hafa gengið allt of skammt og ekki virkað sem skyldi. Fjölmargir aðilar hafa hlotið þunga fangelsisdóma vegna viðskipta bankanna með eigin hlutabréf og enn fleiri hafa verið ákærðir. Hefði verið gripið til viðeigandi ráðstafana til þess að koma í veg fyrir og takmarka áhrif hagsmunaárekstra á lánveitingar og viðskipti með eigin hlutabréf væru líklega færri með slíkan fangelsisdóm á bakinu og verðmyndun á hlutabréfamarkaðnum hefði verið eðlilegri, bæði í upp- og niðursveiflunni.
Annað dæmi er mál Baldurs Guðlaugssonar, sem var ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu á árunum fyrir hrun og sat meðal annars í samráðshópi stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað. Á sama tíma var hann hluthafi í Landsbanka Íslands og þegar mest lét var sú eign um 400 milljón króna virði. Baldur seldi öll hlutabréf sín í bankanum í september 2008 og komust dómstólar að þeirri niðurstöðu að hann hefði búið yfir innherjaupplýsingum á þeim tíma, vegna aðkomu hans að samráðshópnum. Fyrir vikið hlaut hann tveggja ára fangelsisdóm, sem hann hefði eðli málsins samkvæmt ekki hlotið hefði hann ekki komið sér í þá stöðu að vera hluthafi í banka á sama tíma og hann var ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu og meðlimur í samráðshópi stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað.
Það er því ekki síst fyrir þá aðila sem hagsmunaárekstrarnir varða, sem nauðsynlegt er að gera allar mögulegar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir þá. Fjölmargir og þungir fangelsisdómar ættu að styðja þá fullyrðingu. Allt eru þetta mál þar sem halda má því fram að ekki hafi verið gripið til fullnægjandi ráðstafana til þess að koma í veg fyrir nokkuð augljósa hagsmunaárekstra. Lengi mætti telja til fleiri dæmi, allt frá einkavæðingu bankanna til pólitískra ráðninga. Afleiðingarnar eru þekktar og bera „hóflegum“ ráðstöfunum gegn hagsmunaárekstrum ekki góða söguna. Það er sjaldnast hægt að útiloka hagsmunaárekstra með öllu, en yfirleitt má grípa til margvíslegra úrræða sem geta hjálpað til við að skapa traust og stuðla að heilbrigðari starfsháttum og ákvarðanatöku. Að draga úr hagsmunaárekstrum er stórt hagsmunamál fyrir okkur sem þjóð og því ættu allir þeir sem gegna ábyrgðarstöðum í stjórnmálum, stjórnsýslu og atvinnulífinu að beina kastljósinu inn á við og meta hvort ekki sé svigrúm til úrbóta.
Baldur Thorlacius, forstöðumaður eftirlitssviðs Nasdaq Iceland.