Óréttlæti er óþolandi. Það er fullyrðing sem langflestir ættu að geta verið sammála. Þegar eitthvað er svo ósanngjarnt að það svíður í augun og ónotatilfinning líður um líkamann. Þegar fólk fær ekki það sem það á skilið, á meðan annað fólk fær miklu meira en það á skilið. Þegar einn aðili stundar vinnu sína og á Porsche-bifreið, á meðan annar stundar sömu vinnu (með sama árangri) en á Hyundai. Já, þessi pistill fjallar um fótbolta en vitið þið, hann gæti fjallað um svo miklu meira.
En af hverju stafar þetta óréttlæti? Hvers vegna fær karlafótbolti alla þessa athygli og hvers vegna hallar á konur? Í stuttu máli er það samvirkandi ástæður: vegna feðraveldisins og arfleifðar ótaminnar markaðshyggju þar sem völdin eru, fyrirsjáanlega, í höndum karlmanna. Framboð og eftirspurn, karlar eru betri í fótbolta en konur. Og þannig vilja valdhafar hafa það, þannig vilja þeir halda því. En málið er líka flóknara en svo. Það er sveipað óréttlæti af allra hæstu gráðu. Sannleikurinn er nefnilega sá, að valdhafar vilja halda fram einhvers konar mengelískum hugsunarhætti um náttúruval, að það sé í eðli karla að vera betur til þess fallnir að stunda fótbolta – já, eða íþróttir yfir höfuð. Hér skulum við staldra við... og átta okkur á: það er kjaftæði.
Förum aðeins aftur í tímann, aftur til barnæsku okkar allra. Sjálfur starfaði ég sem forfallakennari í Hlíðaskóla um þriggja ára skeið. Það var góður tími. Þar kenndi ég öllum aldurshópum. Þegar veðrið var gott, hvort heldur á haustin eða um vor, lagði ég mig fram við að fara út með börnin. Og hugmyndaflugið var oft ekki meira en svo, að farið var í fótbolta. Það sem er minnistætt (og ætti í raun ekkert að vera það) er að börn í 1.-4. bekk, eru nokkurn veginn öll jafn góð í fótbolta. Eða jafn léleg, skiljið þið? Ég gat svoleiðis sólað þau fram og til baka, jafnvel þrjú í einu með því að vippa boltanum yfir þau og hlaupa framhjá. Haha. Þvílíkir aular!
Hljómar þetta kunnuglega?
Við 9-10 ára aldur byrja hlutirnir síðan að breytast. Strákar fá aukna hvatningu til að stunda fótbolta. Þeir fá betri og fleiri æfingatíma, betri aðstöðu og jafnvel betri þjálfara. Skyndilega taka þeir fram úr. Ekki vegna meðfæddra hæfileika, heldur vegna hvatningar og félagsmótunar, hegðunar sem er rótgróin í okkur og í samfélaginu.
Ég þekki samt persónulega stelpur sem héldu áfram, þrátt fyrir þetta. Uns þær fengu sig fullsaddar, sem ungar konur, að þurfa að þola þetta óréttlæti. Jafnaldrar með getnaðarlim fengu að æfa á grasi, þær á gervigrasi. Jafnaldrar með getnaðarlim fengu aukaæfingar, þær fengu ekkert.
Þessi aðstöðumunur er svo enn verri annars staðar í heiminum. Á Íslandi eru skráðir iðkendur í fótbolta um 20 þúsund samkvæmt upplýsingum frá KSÍ. Þar af er um þriðjungur kvenkyns. Það er ótrúlega hátt hlutfall á heimsvísu. Enn ótrúlegra er þá, miðað við þennan mikla fjölda, hve munurinn er mikill á umfjöllun um „karlabolta“ annars vegar og „kvennabolta“ hins vegar.
En karlar eru jú betri í fótbolta. Það er staðreynd. En hvers vegna? Þessi staðreynd verður til vegna misskiptingar. Staðreyndin er sú að miklu fleiri karlar stunda íþróttina en konur. Samkvæmt síðustu heildartalningu FIFA (sem er reyndar 10 ára gömul) voru iðkendur í heiminum um 265 milljónir. Þar af eru 26 milljón konur. Þetta þýðir að 90% þeirra sem stunda fótbolta eru karlar. Auðvitað eru þeir því betri. Ef markmiðið er að finna 11 bestu leikmenn heims, jafnvel 1000 bestu leikmenn heims, eða 10 þúsund bestu leikmenn heims, er mun líklegra að þeir finnist meðal 239 milljón iðkenda heldur en 26 milljónum. Hvað þá þegar þessir 239 milljón iðkendur fá meiri hvatningu, betri þjálfun og meiri athygli. Þetta er óréttlætið, þetta er það sem stingur og svíður.
Sannleikurinn er sá, að mengelískar, darwinískar pælingar um líkamsburði eða „eðli“ kynja eiga einfaldlega ekki við. Ætlar einhver virkilega að halda því fram að Lionel Messi hafi líkamlegt forskot á leikmann eins og Abby Wambach? Endilega dæmið sjálf.
Það er með fótbolta eins og allt annað. Það er vitlaust gefið. Spilin hafa aldrei verið stokkuð, þeim er vandlega raðað svo annar aðilinn hafi alltaf betur. Persónulega man ég vel eftir því þegar ég var fífl. Þegar ég var blindur. Þegar ég trúði málflutningi og borð við þann sem Barbara og Allan Pease héldu fram í geysivinsælum ritum á borð við „Hvernig á því stendur að karlar hlusta aldrei og konur geta ekki bakkað í stæði“. Um að eðlismunur kynjanna réði því að karlar væru betri í skák, sem dæmi. Pease-hjónin minntust reyndar aldrei á það að iðkendur skákíþróttarinnar eru 95% karlmenn og að konur fá litla sem enga hvatningu til að leggja hana fyrir sig. Auðvitað finnast þá fleiri framúrskarandi skákmenn en skákkonur. Og það er sama með allt annað. Eru konur betri í bútasaumi en karlar? Já, örugglega. Því það eru miklu fleiri konur en karlar sem hafa lagt bútasaum fyrir sig. Þar fengu þær hvatningu. Þetta er ekki stjarneðlisfræði. Þetta er einfaldlega ógeðslega ósanngjarnt (með fullri virðingu fyrir bútasaumi).
Þetta óréttlæti getur ekki haldið áfram. Það þarf að stokka spilin. Mér persónulega misbýður að standa betur að vígi á grundvelli kyns míns. Hvernig get ég komist að mínum eigin verðleikum þegar ég fæ forskot? Því við erum nefnilega öll jafn léleg. En við ættum öll að hafa jöfn tækifæri til að blómstra, á hvaða sviði sem er. Við gætum nefnilega öll orðið framúrskarandi.