Tónlistarmaðurinn Ólafur Arnalds varð fyrir hrottalegu einelti í skóla, og lýsti því með áhrifamiklum hætti á Facebook-síðu sinni og síðan einnig í viðtali við RÚV.
Kveikjan að því, að hann tjáði sig um málið, var fréttaflutningur af alvarlegu eineltis- og líkamsárásarmáli sem nú er til meðferðar hjá lögreglu, barnavernd og skólayfirvöldum. Vonandi fær fórnarlambið aðstoð og hjálp, og það sama má segja um gerendur í málinu. Makleg málagjöld fyrir þá, er að þeim takist að verða að betri manneskjum og biðji fórnarlambið aðmjúklega afsökunar á ömurlegri hegðun.
Ólafur hefur náð miklum frama í tónlist, og meðal annars hlaut hann BAFTA-verðlaunin árið 2014. Hann sagði tónlistaráhugann og tónlistarsköpuna hafa hjálpað sér að ná bata eftir eineltið.
Hann sagði, í viðtalinu við RÚV, foreldra þeirra sem eru gerendur í eineltismálum geta haft mikil áhrif til góðs, með því að viðurkenna vandamálið og taka á því.
Því miður hefur einelti lengi verið fylgifiskur skólastarfs í íslenskum skólum, og verður eflaust áfram, líkt og víðast hvar annars staðar. Það er gott þegar fólk er tilbúið að deilu reynslu sinni, sem hefur þurft að þola einelti. Það er miskunnarlaust ofbeldi sem á ekki að eiga sér stað. En það er jafnframt mikilvægt að við því sé brugðist með ákveðnum en yfirveguðum hætti. Foreldrar barna eru þar í lykilhlutverkum, eins og Ólafur bendir réttilega á.