Heilbrigðismálin eru oftar en ekki ofarlega í huga fólks. Nýlega var skorað á stjórnmálamenn að lækka kostnaðarþátttöku almennings úr 18% niður í 9% strax á þessu ári. Samkvæmt fjármálaáætlun munu framlög aukast um ríflega 30 milljarða næstu 5 árin. Þó þessi áætlun sé gerð í kosningaskyni, þá er þetta svar við rúmlega 87 þúsund undirskriftum fólks, sem vill efla heilbrigðiskerfið. Það hefði mátt koma fyrr, en gott og vel engu að síður.
Umræðan um hið svokallaða vinstri og hægri í stjórnmálum snýst oftast um hversu miklu eigi að eyða í samneyslu, hversu háir skattar eigi að vera og svo framvegis. Við þetta skapast miklar deilur, lítil sátt og þar af leiðandi ekki góð samvinna á þingi. Í raun eru flestir hér sammála um að hér eigi að vera öflugar grunnstoðir samhliða frjálsum markaði, kannski mismikil sátt, en að mestu leyti eru stjórnmálamenn sammála um helstu atriðin. Þeir eru fáir, sem vilja einkarekstur í einu og öllu og sömuleiðis eru þeir fáir, sem vilja ríkisrekstur í einu og öllu. Aðalatriðið er að finna réttu blönduna - og því snýst deilan oftast um örfá prósentustig.
Það er þó ýmislegt hægt að gera til að tryggja velmegun allra og sátt sem flestra. Til að mynda má spara töluverða fjármuni með ábyrgum rekstri ríkis og sveitarfélaga, sem einkennir þó sjaldan stjórnarhætti á Íslandi. Nú á dögunum gagnrýndi eftirlitsstofnun EFTA það að hér séu gjarnan gerðir samningar um sölu raforku vel undir markaðsvirði. Mikilvægt er að markaðsgjald sé greitt í samræmi við markaðsvirði auðlindar. Þetta hljóta nær allir að vera sammála um. Með breyttu fyrirkomulagi hvað þetta varðar má auka tekjur töluvert. Auk þess þarf að uppræta mikla ósanngirni, sem felst í því að mismuna svona á markaði. Sérhagsmunagæsla og kjördæmapot virðist ráða hér för, fremur en almannahagsmunir eða markaðslögmál.
Þegar um er að ræða ríkisinnkaup, þá skortir alla yfirsýn, sem verður til þess að milljörðum er sóað á ári hverju í óhagkvæm innkaup. Að auki er núverandi kerfi gróðarstía sérhagsmuna, þar sem það skortir allt aðhald og eftirlit, en um 40% af innkaupum ríkisins eru gerð utan laga eða reglna sem ríkið setur fram. Þetta eru viðskipti sem nema tugum milljarða króna. Áætla má að hægt sé að spara um 10-20% með réttum innkaupaaðferðum og reynsla Dana og Breta sýnir okkur að slíkt sé engin óskhyggja, heldur öllu fremur raunhæf leið til að spara töluverða fjármuni. Mikilvægt er að eyða ekki að óþörfu úr sameiginlegum sjóði landsmanna, líkt og er gert núna. Þess vegna er það eðlileg krafa að breytingar séu gerðar á núverandi kerfi.
Ef tekið væri á þessu tvennu og einnig komið í veg fyrir að ríkiseignir séu seldar á afslætti, sem því miður þó nokkur dæmi eru um, þá má spara marga milljarða, sem væru betur nýttir í að efla grunnstoðir samfélagsins eða lækka matarkostnað neytenda með lækkun tolla. Jafnvel væri hægt að gera bæði eða meira til. Hér snýst deilan ekki lengur um það hvort skattheimta eða ríkisútgjöld séu ákv. mikil eða lítil. Sú umræða er tímafrek og sveiflast til og frá eftir því hvað hentar stjórnmálamönnum hverju sinni. Það væri kannski ráðlagt að byrja fyrst á því að reka ríkissjóð með ábyrgum hætti. Fólk til hægri og vinstri ætti að geta komið sér saman um það.
Höfundur er á meðal stofnenda Viðreisnar.