Davíð Oddsson er snúinn aftur inn á svið stjórnmálanna, en hann vill nú verða forseti Íslands, sem í tíð Ólafs Ragnars Grímssonar hefur breyst í lykilstöðu á stjórnmálasviðinu. Davíð greindi frá þessu í gær, í viðtali við Pál Magnússon í þættinum Sprengisandi.
Enginn skal efast um að Davíð eigi sér fjölmarga fylgismenn, þrátt fyrir umdeildan tíma sem valdamesti stjórnmálamaður landsins um árabil, eða alveg þar til fjármálakerfið hrundi eins og spilaborg, meðan hann var seðlabankastjóri. En hann á líka fjölmarga andstæðinga, og eitt er alveg öruggt, ef þannig fer að honum tekst ætlunarverk sitt, að verða forseti.
Það er að engin sátt um ríkja um Davíð. Hann mun verða miðpunkturinn í deilum stjórnmálamanna.
Framboð Davíðs - sem mun grafa undan möguleikum Ólafs Ragnars á sigri og huganlega ýta honum út úr baráttunni - þarf ekki að vera slæmt fyrir aðra frambjóðendur, eins og Guðna Th. Jóhannesson, Höllu Tómasdóttur og Andra Snæ Magnason. Þetta skerpir línurnar á milli nýrra og gamalla tíma. Almenningur skynjar þetta vel.
Hinn 25. júní mun á vissan hátt koma í ljós hvort kosningarnar verði nýtt upphaf fyrir stjórnmálin, eða áframhald á ferli sömu lykilpersóna og hafa verið á sviðinu síðasta aldarfjórðung. Niðurstaðan mun síðan gefa tóninn fyrir Alþingiskosningarnar í haust.