Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri og Ingvar J. Rögnvaldsson, vararíkisskattstjóri, skrifa harðorðan leiðara í nýjasta hefti Tíundar, fréttablað embættisins, sem kom út í gær. Segir þar að eftir að Panama-skjölin hafi komið fram sé „kerfi blekkinganna“ óðum að hrynja „ sem aumasta spilaborg.“ Er þar átt við aflandsfélög.
Í leiðaranum segir enn fremur að tilraunir yfirvalda með viðræðum, ályktunum og upplýsingaskiptasamningum sem aflandsríki voru nauðbeygð til að skrifa undir, hafi skilað vissum árangri, en ekki nægjanlega miklum. „Hulunni var ekki svipt frá fyrr en innviðir aflandsbælanna brustu og sýndargerningarnir, leyndin og blekkingarnar urðu heimsbyggðinni ljós.“
Þetta eru hörð orð frá ríkisskattstjóra, en koma ekki mikið á óvart. Umfjöllun erlendis, og einnig varnaðarorð þjóðarleiðtoga, hafa öll verið á svipaða lund, um að starfsemi aflandsfélaga á lágskattasvæðum og skattaskjólum grafi undan hagkerfum landa og bjóði upp á spillingu.
Í leiðaranum segir að ástæða sé til að nýta þann byr sem nú sé um aflandsmál til að skera upp herör gegn því að notkun félaga af þessu tagi verði látin viðgangast. „Sóknarfærin eru nú óvenju sterk gegn þessu athæfi sem varla er unnt að kalla annað en ósóma.“
Vonandi hefur Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kjark til þess að fylgja þessum málum eftir af fullum þunga, og láta ríkisskattstjóra í hendur öll þau vopn sem þarf að búa yfir til að endurheimta fé sem svikið hefur verið undan skatti.