Þegar við lærðum um efahyggju í inngangi að heimspeki í menntaskóla fundu vissir félagar mínir tímabundinn lífsfarveg og tóku að efast um allt. Jafnvel að það sem færi upp kæmi aftur niður. Mér þótti það hálf kjánalegt að efast um tilvist náttúrulögmála, ég hef jú aldrei upplifað neitt annað en að þyngdaraflið virki. Þegar ég ætlaði mér of hátt upp í tré eða reyndi að klifra upp á húsaþök sem barn skellti það mér gjarnan niður aftur. Það hefur sýnt mér að ég get ekki beygt það. Ég efast ekki um þyngdarlögmálið.
Við lifum í heimi sem er stjórnað af ýmsum lögmálum. Í uppeldinu lærum við að þekkja þau og eftir því sem við eldumst sjáum við sífellt fleiri lögmál sem setja mark sitt á líf okkar. Þegar við stígum okkar fyrstu skref inn á vinnumarkaðinn uppgötvum við að sum störf eru verðlögð hærra en önnur. Að þeir sem skapa verðmæti fyrir aðra eiga ekki sanngjarnt tilkall til verðmætanna sem þeir skapa. Að líf okkar verður órjúfanlega tengt ákveðnum efnahagslegum lögmálum.
Þrátt fyrir að við þekkjum ekkert annað, þrátt fyrir að þessi lögmál hafi oft varpað mér í jörðina undir lok mánaðarins og sagt mér að nú þurfi ég að draga fram vísakortið eða hætta að lifa, leyfi ég mér að efast um þau. Ég veit að einhverjum finnst álíka kjánalegt að efast um lögmál markaðarins og mér finnst að efast um náttúrulögmálin, en á þeim er svolítið afgerandi munur. Efnahagskerfið er nokkuð sem við manneskjurnar bjuggum til sjálf. Upphaflega til að auðvelda viðskipti, til að auka lífsgæði, til að við gætum nýtt verðmæti betur og látið þau þjóna okkar hagsmunum.
Við þekkjum kannski ekki annað en að það sé eðlilegt að sumar stéttir séu betur launaðar en aðrar. Kannski teljum við að þeir sem eigi mikinn auð séu einfaldlega duglegri en aðrir. Að þeir sem eru láglaunaðir hafi valið sér rangann lífsfarveg, óskynsamlega menntun eða leggi ekki hart að sér.
Ég er ósammála því að það sé óskynsamlegt að fólk ákveði að verða kennarar, lögregluþjónar eða hjúkrunarfræðingar. Ég er líka ósammála því að það sé náttúrulögmál að þeir sem séu ríkir séu einfaldlega duglegri en aðrir. Ef að Panama lekinn hefur sýnt okkur eitthvað þá er það að þeir efnuðustu í samfélaginu okkar hafa oftar en ekki orðið það með því að brjóta ákveðna samfélagssáttmála. Kannski brutu þeir ekki lög, en gott siðferði er ekki byggt á lögum.
Við lifum við kerfi og lögmál þar sem fólk þjónar peningum en ekki öfugt. Það að greiða niður lán verður jafn eðlislægt og að draga andann, að hafa áhyggjur af fjármálum jafn hversdagslegt og að vakna klukkan sjö. Við þekkjum ekki annað en að misskipting aukist og að fjármagn heimsins safnist sífellt á færri hendur.
Við þurfum að leyfa okkur að sýna hugrekki til að efast um fjármálakerfið okkar og lögmálin sem stjórna því. Ólíkt þyngdaraflinu höfum við mennirnir sjálfir skapað öll þau lögmál sem gilda um peninga. Við búum við kerfi sem virkar ekki, kerfi sem þjónar ekki venjulegu fólki, og því þurfum við að breyta. Það er ekki ógerlegt, enda erum við ekki að efast um náttúrulögmál.
Höfundur gefur kost á sér í 3. sæti á lista Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi.