Nýr samningur Landsvirkjunar og Norðuráls verður fyrsti raforkusamningurinn sem tengdur verður markaðsverði á raforku í Evrópu, segir forstjóri Landsvirkjunar. Hann segir tekjur Landsvirkjunar aukast umtalsvert með nýja samningnum.
Norðurál á Grundartanga er þriðji stærsti viðskiptavinur Landsvirkjunar og hafa fyrirtækin verið í viðskiptum í tuttugu ár. Samningurinn tekur gildi í nóvember 2019 og gildir í fjögur ár.
Þangað til gildir gamli samningurinn. Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar var ánægður þegar hann ræddi samninginn í viðtali við RÚV. „Við erum glöð, þetta er náttúrulega allt búið að vera mikil vinna og eins og ég segi mikil átök enda miklir hagsmunir. Og þegar það næst samningur, sem báðir aðilar eru sáttir við, þá er það gott,“ sagðir Hörður.
Það er grátlegt að langsamlega stærsti raforkusamningur Landsvirkjunar, við Alcoa, sem tekur 37,5 prósent af viðskiptum fyrirtækisins, gildir til 2048. Verðið er lágt, og byggir á svipuðum grunni og gömlu samningarnir við Rio Tinto og Norðurál.
Þetta er grafalvarlegt mál í raun, og einkennilegt hversu lítið hefur um þetta rætt á hinu pólitíska sviði. Vonandi breytist það, og það verði metið hversu mikið tap almennings er af þessum samningi.