Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra segir að verið sé að skoða hvernig bregðast skuli við álagi á ýmsar stofnanir á Suðurlandi, þar á meðal löggælslu og heilbrigðisþjónustu, vegna aukins fjölda ferðamanna. Forsætisráðhera ræddi um málið í Kastljósi í gærkvöldi.
Vöxturinn í ferðaþjónustunni hefur verið hraður og mikill, og í raun hafa stjórnvöld ekki náð að horfa á málaflokkinn heildstætt, móta stefnu um aðgangsstýringu og gjaldtöku, t.d. inn í þjóðgörðum, og ekki heldur að bregðast við auknu álagi á löggæslu og heilbrigðisþjónustu. Þetta viðurkenndi Sigurður Ingi.
Þó ferðaþjónustan sjái að mestu um að vaxa óstudd án ríkisafskipta, með dugnaði og elju forsvarsmanna og starfsmanna fyrirtækja um allt land, þá skiptir máli að stjórnvöld standi við sitt og styðji við innviðauppbyggingu fyrir greinina og hagkerfið í heild.
Ferðaþjónustan er orðin langsamlega stærsti gjaldeyrisskapandi atvinnuvegur þjóðarinnar, og það verður að bera virðingu fyrir því.