Talið er að um 30 flóttamenn hafi látið lífið eftir að skip þeirra fór á hliðina á Miðjarðarhafinu í gær skammt frá ströndum Líbýu. Samtals var 77 flóttamönnum bjargað af björgunarsveitum og ítölsku landhelgisgæslunni.
Fréttir sem þessar eru því miður enn algengar. Ekki er langt síðan að leikkonan Angelina Jolie, sem hefur verið ötull baráttumaður fyrir markvissari og meiri aðgerðum í þágu flóttamanna, benti á að vandamál flóttafólks væru að dýpka, og ef ekki yrði meira gert, þá væru hörmungar framundan.
Miklu verri en þær, sem nú þegar hafa sést og sett mark sitt á hið alþjóðapólitíska svið.
Varðandi stöðuna á Miðjarðarhafi, og við strendur Suður-Evrópuríkja og Afríkuríkja, þá verður að segjast eins og er, að það væri óskandi ef mun meiri mannafli og skip yrðu sett í að tryggja öryggi á þessum svæðum. Það veitir ekki af, og það er þyngra en tárum taki að sjá það gerast aftur og aftur, að yfirfullir bátar og skip, séu komin margar dagleiðir út á sjó, áður en þeim hvolfir, eins og oft hefur gerst.
Væri ekki hægt að leggja meira til þessa svæðis? Nýta fleiri herskip, t.d.?
Þetta eru flókin mál, en spurningar eins og þessar koma upp í hugann, þegar skelfilegar fréttir um mannfall á Miðjarðarhafi koma fram aftur og aftur.