Ólympíuleikunum í Rio de Janeiro ætti að aflýsa eða fresta vegna hættunnar sem stafar af zika-veirunni. Þetta er skoðun 150 lækna, vísindamanna og fræðimanna um allan heim sem sendu í gær frá sér yfirlýsingu, þar sem þessari skoðun er lýst.
Fram kemur í yfirlýsingunni að ábyrgðarlaust sé að mati sérfræðinganna að halda Ólympíuleikana í borginni þar sem fjöldi manns hafi sýkst þar af zika-veirunni.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO, sendi einnig frá sér yfirlýsingu í gær, þar sem sagði að óþarft væri að hætta vð leikana eða færa þá annað.
Deildar meiningar eru innan heilbrigðisgeirans um hvernig eigi að hefta útbreiðslu zika-veirunnar. Ljóst er að opinber rifrildi meðal sérfræðinga um stór mál sem þessi, eru vafalítið ekki til þess fallin að auka áhuga ferðamanna á því að koma til Ríó í sumar. Reiknað er með 500 þúsund ferðamönnum í Brasilíu í sumar, sem gagngert koma til þess að fylgjast með Ólympíuleikunum.