Forsetakosningarnar fara fram, 25. júní, og má segja að töluverður æsingur sé kominn í kosningamaskínu Davíðs Oddssonar, og hann sjálfan. Í þættinum Eyjunni á Stöð 2 í gær, þeim síðasta á þessum vetri, gagnrýndi hann Guðna Th. Jóhannessonar, sem var með honum í beinni útsendingu, harðlega fyrir ýmsa hluti, en einkum og sér í lagi fyrir afstöðu hans til Icesave á sínum tíma.
Guðni svaraði fyrir sig af yfirvegun, en í þessum umræðum kom fátt nýtt fram.
Það verður að teljast með nokkrum ólíkindum ef Davíð Oddsson, sem var seðlabankastjóri á árunum fyrir hrun og fram að því að honum var gert að hætta árið 2009, telur sig hafa mikil sóknarfæri í því að rifja upp Icesave-málið. Icesave-deilan er eitt, og tilurð vandamálsins er svo líka atriði sem fólk gleymir ekki svo glatt. Þar var Davíð í fámennum hópi sem hefði getað beitt sér gegn Icesave-innlánasöfnuninni en gerði það ekki.
Það verður að koma í ljós, hversu mikið bit er í Icesave-sverðinu í þessari kosningabaráttu.