Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra, hélt um margt ágæta ræðu í eldhúsdagsumræðum í gærkvöldi, og færði fram á sviðið pólitískt stöðumat. Það er full þörf á því að gera það, enda stendur Ísland á tímamótum. Vonir standa til þess að fjármagnshöft verði losuð á næstu mánuðum, og hagvaxtar- og skuldahorfur þjóðarbússins hafa sjaldan eða aldrei verið betri.
Í ræðu sinni sagði hann, að þó það væri „drambsöm afstaða“ að þakka núverandi ríkisstjórn allt það góða sem nú væri í gangi í íslensku samfélagi, þá yrði samt ekki horft framhjá þeim góðu verkum unnin hafi verið. „En á sama tíma og menn kenna henni um það sem ekki er í lagi er sjálfsagt að þeir hinir sömu viðurkenni hin góðu verk hennar,“ sagði hann orðrétt.
Þetta er rétt hjá Sigurði Inga, en á sama tíma er full þörf á því að stjórnmálamenn skerpi á rökræðum sínum og um leið málefnalegum ágreiningi. Alltof algengt er að stór orð séu notuð um persónur og leikendur, þegar gagnrýni er annars vegar.
Að lokum leiðir þetta til gengisfellingar hugtaka sem notuð eru, og ímyndar stjórnmálamanna sem standa fyrir málflutningi sem þessum. Má í þessu samhengi nefna orð sumra stjórnmálamanna, sem hafa sakað embættismenn um leynimakk og óheiðarleika, án þess að nokkuð hafi verið leitt fram um það eða staðfest með neinum hætti.
Slík umræðuhefð gerir ekkert annað en að grafa undan trausti á stjórnmálunum. Forystufólk stjórnmálaflokkanna á þinginu, kom inn á þetta mikilvæga atriði, traust, í ræðum sínum. Auk Sigurðar Inga, þau Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, og Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Þetta segir sína sögu, en Alþingi á enn langt í land með að endurvinna traust þjóðarinnar, eins og mælingar hafa endurtekið staðfest.
Það mátti greina það skýrt í ræðunum í gær, að stutt er til kosninga. Eða er það ekki? Það var ekki að heyra annað á Sigurði Inga í gær, í viðtali að loknum ræðum, en að til stæði að kjósa í haust. Þrátt fyrir vilja innan Framsóknarflokksins, meðal annars hjá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni flokksins, um að kjósa ekki haust heldur næsta vor, þá bendir ekkert til annars en að ríkisstjórnin ætli sér að standa við loforð um að kosið verði í haust. Enda má reikna með því að það hefði miklar afleiðingar, ef ekki yrði kosið á þessu ári, eftir það sem á undan er gengið.
Í ræðum forystufólks stjórnarandstöðuflokkanna, Árna Páls, Katrínar, Óttarrs og Helga Hrafns, var komið inn á Panamaskjölin, og hvernig umfjöllun um þau hefur leitt fram aðstöðum mun ríkra, og síðan milli- og lágstéttarfólks. Árni Páll sagði í ræðu sinni, að vel tengdir viðskiptamenn hefðu fengið að auðgast vegna þess að þeir hefðu notið aðgangs að takmarkaðri aðstöðu eða ríkiseignum. „Nú hefur komið í ljós að þessir vildarvinir hafa ekki einu sinni hirt um að borga hér skatt af fengnum,“ sagði Árni Páll.
Katrín sagði í ræðu sinni að tími væri kominn til þess að ráðast að rótum þessarar misskiptingar, með harðari aðgerðum gegn skattskjólum og undanskotum. Samfélagslegt mikilvægi þess væri augljóst og aðkallandi.
Líkt og Sigurður Ingi og Bjarni Benediktsson komu inn á í ræðum sínum, þá hefur endurreisnarstarfið eftir hrunið um margt gengið vel, og stjórnmálaflokkarnir sem hafa komið að stjórn landsins eftir hrunið, til hægri og vinstri, hafa gert margt vel.
Það sem hefur miklu skipt í þeirri vinnu, er að leita til sérfræðinga þegar mál eru flókin og erfið úrlausnar. Það átti við um vinnuna sem fólst í því endurreisa fjármálakerfið, framkvæma fjármagnshöftin, vinna með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og ekki síst, að leysa úr vandanum sem slitabú föllnu bankanna sköpuðu fyrir hagkerfið.
Vonandi munu stjórnmálamenn halda áfram að rökræðum um hugmyndafræðileg atriði þegar kemur að stjórnun landsins. Það er lýðræðið sjálft að störfum. En það er líka vonandi, að stjórnmálamenn átti sig á því, að þeir geta ekki leyst öll vandamál, þurfa stundum að reiða sig á sérfræðinga sem ekki hafa pólitískar hugmyndir sem leiðarljós. Stundum geta slíkar hugmyndir brúað bilið í ágreiningsmálum, eins og saga undanfarinna ára staðfestir.