Um næstu áramót verður hafist handa við nýtt 620 íbúða hverfi fyrir sunnan Smáralindina í Kópavogi. Hefur verkefnið fengið heitið 201 Smári og eru það Reginn fasteignafélag og Smárabyggð ehf. sem standa á bak við það. Fjallað var ítarlega um þessi áform á mbl.is í gær.
Markmiðið er að skapa eins konar miðbæ á höfuðborgarsvæðinu númer tvö, en með þessari byggð þéttist þetta stóra atvinnu- og íbúðahverfi umtalsvert.
Eins og Kjarninn hefur bent á í greinum að undanförnu, þá er fullt tilefni til þess að fylgjast grannt með gangi mála á fasteignamarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu á næstunni, því margt bendir til þess að mikilvægt sé að auka framboð af íbúðum, einkum litlum og meðalstórum, jafnvel enn meira en áform eru uppi um. Eitt af því sem hefur áhrif í því samhengi, er gríðarlega mikill og hraður vöxtur í ferðaþjónustu.
Viðvarandi ójafnvægi á markaðnum getur haft slæm áhrif til lengdar, og stuðlað að mikilli hækkun fasteignaverðs sem svo ýtir undir verðbólgu. Spor sögunnar hræða í þessu, og vonandi eru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu vel undirbúin vegna þeirrar stöðu sem nú er uppi.