Muhammad Ali, sem lést á föstudaginn, 74 ára að aldri, var einn áhrifamesti baráttumaður fyrir mannréttindum svartra á 20. öldinni. Hann var stórkostlegur boxari, en áhrifin sem hann hafði á samfélagið í Bandaríkjunum, ekki síst á fimmta, sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar, voru gríðarlega mikil.
Barack Obama, Bandaríkjaforseti, minntist Ali á dánardegi hans, og sagði hann hafa verið eina stórkostlegustu fyrirmynd svartra í sögunni. Hann hefði gert heiminn betri með baráttu sinni, hugrekki, sjálfstrausti og oft óútreiknanlegri hegðun. Hann hefði verið „sannur meistari“ sem hefði fært fólki, ekki síst svörtum, von. Fólk hefði séð í honum frjálsan mann sem hefði sjálfstæða rödd.
Það eru blikur á lofti í Bandaríkjunum þessi misserin, þegar kemur að mannréttindabaráttu, enda er maður, sem er opinberlega hlynntur mikilli frelsisskerðingu á grundvelli trúarskoðana og kynþáttar, kominn langleiðina með að verða fulltrúi Repúblikana í forsetakosningunum í nóvember. Donald Trump er kristaltær rasisti, sem elur á ótta og spilar á lægstu hvatir rasima. Það sama má segja um uppgang slíkra viðhorfa í öðrum löndum, meðal annars í Evrópu. Þar er horft til þess að fá fram stuðning frá fólki, með því að spila inn á lægstu hvatir mannlegrar tilveru.
Það er mikilvægt að minnast manna eins og Ali af mikilli virðingu, því mannréttindabaráttan er endalaus. Því miður geta vandamálin blossað upp aftur og aftur. Það má ekki gleyma því, að svartir fengu ekki sæti á veitingarstöðum, fengu ekki heilbrigðisþjónustu og lifðu við stöðugan órétt, langt fram eftir 20. öldinni. Ennþá má greina kerfislægan órétt svartra í Bandaríkjunum, þó staðan hafi batnað mikið.
Meðal annars vegna þess að menn eins og Ali þorðu að vaða fram á sviðið, og tala hátt með stórum orðum, gegn óréttinum. Vonandi koma aftur fram menn eins og Ali, þó það verði að teljast ólíklegt. Hann var einstakur, og sönn bardaga- og mannréttindahetja.