Ákvörðunarfælni er banvæn hegðun. Ekki endilega fyrir þann sem er haldinn þessum hvimleiða sjúkdómi heldur þeim sem eiga allt undir að ákvörðun sé tekin af viðkomandi.
Ég nefni tvö dæmi, misalvarleg en sem valda dauða hvort á sinn hátt.
MND félagið hefur haldið uppá alþjóðlegan dag MND félaga með hjólastólarallý og tónleikum, árum saman. Til að þetta geti orðið að veruleika þarf embættismaður hjá Reykjavíkurborg að taka ákvörðun og leyfa eða hafna viðburðinum. Ef hann hafnar tímanlega getum við óskað eftir að halda fjörið í öðru bæjarfélagi t.d. Ef viðkomandi segir já þá er hægt að staðfesta allar bókanir sem gerðar hafa verið. Svona dagur krefst: Sviðs, hljóðkerfi, veltibílinn, mælingafólk í tímatökur, verðlaun, hoppukastala og veitingar svo eitthvað sé nefnt. En embættismaður hjá Reykjavíkurborg, þessi ákvörðunarfælni, hefur ekki svarað af eða á um leyfið, þráspurður frá áramótum. Svo þetta endaði með að hátíðin okkar var blásin af þetta árið. Hann drap daginn í ár. Við látum hann ekki drepa gleðina og fjörið sem við höfum tamið okkur undanfarin ár heldur munum skipuleggja daginn næsta ár hjá nágrönnum okkar í Reykjavík sem vonandi hafa ekki smitast af sjúkdómnum.
Að drepa viðburð er þó ekkert miðað við að svipta menn lífi. MND félagar hafa barist fyrir að fá raunverulegt val um að fólk geti lifað heima með aðstoð öndunarvélar. Við höfum flest valið að deyja enda hinn kosturinn verið að tóra bundinn á sjúkrahúsi allan sólahringinn. Nú hefur Alþingi Íslendinga ályktað að yfirvöld skuli laga þetta strax. Þá reynir á hvort í starfshópinn veljist hópur fárveikra (ákvörðunarfælni) embættismanna sem telja lausnina áfram vera þá að gera bara ekkert. Svara engu og halda áfram skipulögðum kerfistöfum við að vísa hver á annan endalaust. Heilbrigðisráðherra vísar á félagsmálaráðherra sem vísar á sveitarfélögin sem aftur vísa á velferðarráðuneytið. Málið komið í hringi, sem það hefur gert svo lengi að allir sem fylgst hafa með eru komnir með bullandi svima og engin ákvörðun tekin.
MND er ólæknandi ennþá en ég sé á netinu að við ákvörðunarfælni er hægt að fá lækningu með allskonar meðferð. Ég vona af öllu hjarta að veikir embættismenn veljist ekki að þessu grafalvarlega máli.
Lifum heil og njótum augnabliksins.
Höfundur er formaður MND félagsins á Íslandi.