Hagfræðidoktorarnir Ásgeir Jónsson og Hersir Sigurgeirsson hafa unnið áhugaverða skýrslu fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið um endurheimtur kostnaðar ríkissjóðs vegna falls bankanna. Heildarniðurstaðan er sú að ríkissjóður hefur þegar endurheimt í arðgreiðslum, vaxtatekjum og eignum allan útlagðan kostnað vegna falls fjármálakerfisins og gott betur. Þar með er að sjálfsögðu ekki sagt að ríkissjóður hafi fengið endurheimtur vegna alls tjónsins sem á hann féll, beint og óbeint, vegna hrunsins. Svo er ekki og það taka höfundar skýrslunnar skýrt fram og má í því sambandi minna á beinan rekstrarhalla ríkissjóðs og skuldasöfnun frá hruni fram til ársins 2013 að jafnvægi var náð.
Ríkissjóður kemur vel út úr uppgjörinu
Í umræddri skýrslu er fjallað um fjármögnun nýju bankanna og er sá þáttur sérstaklega forvitnilegur. Þar eru í bakgrunni niðurstöður samninga um uppgjör eigna milli gömlu bankanna og þeirra nýju sem fram fóru til að gera nýju bönkunum kleift að mæta skuldbindingum sínum við innistæðueigendur en samkvæmt neyðarlögunum sem sett voru haustið 2008 öðluðust kröfur þeirra forgang.
Ýmsir aðilar, sem hér verður ekki hirt um að tilgreina, hafa freistað þess af mikilli áfergju að láta líta svo út sem afar illa hafi tekist til við eignauppgjörið. Efni og niðurstöður skýrslu hagfræðinganna leiða annað í ljós en í henni er sýnt fram á að samanlagðar vaxtatekjur, arðgreiðslur og hlutafjáreign ríkissjóðs eru tæpum 138 milljörðum króna (á verðlagi hvers árs) hærri en vaxtagjöld og útistandandi skuldir í skuldabréfum sem gefin voru út vegna fjármögnunar nýju bankanna (RIKH 18). Þetta merkir einfaldlega að ríkið kemur út með 138 milljarða í plús vegna ráðstafana sem gerðar voru til að fjármagna nýju bankana og nemur sú upphæð um 5,5% af VLF. Þótt dreginn séu frá liðlega 20 milljarðar króna kostnaður vegna sparisjóða sem kom til vegna loforða til íslenskra innistæðueigenda um að tryggja allar innistæður, í Sparisjóði Keflavíkur jafnt sem annars staðar, er ríkið samt sem áður vel yfir 100 milljörðum í plús.
Mál er að linni svikabrigslum og níði
Niðurstaða skýrslu hagfræðinganna er vitaskuld einkar ánægjuleg fyrir alla landsmenn. Það góða fólk sem lagði nótt við dag árið 2009 við að endurreisa og fjármagna fallið bankakerfi Íslands, sem kallaði á óhemju flókna og viðamikla samninga milli föllnu fjármálastofnananna og þeirra nýju, ætti nú ekki lengur að þurfa að sitja undir linnulausum og tilhæfulausum samsæriskenningum og brigslum um sviksamlegt athæfi eða jafnvel landráð.