Alþingi samþykkti í gærkvöldi lög á aðgerðir flugumferðarstjóra með 32 atkvæðum gegn 13. Samkvæmt þeim hafa viðsemjendur frest til 24. júní til að semja. Takist það ekki verður skipaður þriggja manna gerðardómur til að úrskurða um laun flugumferðarstjóra.
Ástæður lagasetningarinnar eru í fyrsta lagi að ríkinu er ómögulegt að sinna lögbundnum skyldum sínum um örugga flugumferðarþjónustu og í öðru lagi eru heildarhagsmunir heillar atvinnugreinar, ferðaþjónustunnar, undir.
Ríkisstjórnin ber ábyrgð á þessari aðgerð, og vonandi er hún hugsuð til enda. Flugumferðarstjórar eru æfir, og það er ekki víst að lagasetningin bindi enda á neinar deilur, heldur þvert á móti dýpki þær enn frekar.
Næstu leikir í þessari hörðu kjaradeilu verða vonandi hugsaðir með það í huga að leysa úr kjaradeilunni með sátt,, fremur en að beita ríkisvaldinu af fullum þunga gegn einni starfsstétt.