Skelfilegt fjöldamorð á 50 einstaklingum í Orlando, sem voru að njóta lífsins á skemmtistaðnum Pulse, þar sem hinsegin fólk var oft meðal gesta, vekur óhug sem von er. Í Bandaríkjunum hefur umræðan fljótt farið í kunnuglegt far, þar sem sumir stjórnmálamenn reyna að nota atburðinn til að réttlæta stefnu sína í viðkvæmum málaflokkum, eins og þeim sem snýr að byssulöggjöfinni í landinu og trúfrelsi.
Donald Trump, sem verður að öllum líkindum frambjóðandi Repúblikana í forsetakosningunum í Bandaríkjunum, var fljótur til að tjá sig um þessi skelfilegu morð, og sagði strax; ég hafði rétt fyrir mér um Islam! Tengdi hann þar við morðingjann, Omar Mateen, sem skotinn var til baka
Það er óþarfi að eyða mörgum orðum í viðbrögð eins og þessi hjá Trump, en samt verður að halda því til haga, þau eru hluti af sorglegum dæmum um ómálefnalega umræðu í þessu fjölbreytta samfélagi sem Bandaríkin eru.
Forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, fordæmdi árásina og sagði hug bandarísku þjóðarinnar vera hjá þeim sem ættu um sárt að binda vegna hennar. Nú væri þörf á samstöðu.
Hann ítrekaði síðan fyrri afstöðu sína, þegar kemur að byssulöggjöfinni. Hann segir það ábyrgðarhluta að gera ekkert, til að sporna við byssuárásum í Bandaríkjunum. Það hefur ekki þurft menn sem tengjast ISIS til þess að byssuárásir eigi sér stað í Bandaríkjunum. Vandamálin eru djúpstæðari en svo. Þau koma innflytjendum t.d. ekkert við, eins og Donald Trump hefur gefið til kynna.
Hinn 29 ára gamli Mateen, sem drap fólkið á Pulse, hafði verið til rannsóknar hjá FBI, og meðal annars verið yfirheyrður árið 2014 vegna grunsemda um tengsl við hryðjuverkasamtök. Hann var bandarískur ríkisborgari.
Engu að síður gat hann auðveldlega, og samkvæmt lögvernduðum rétti sínum, gengið inn í verslun í Florida og keypt sér hálfsjálfvirkan árásarriffil og skammbyssu. Þessi vopn notaði hann síðan gegn fólki með hroðalegum afleiðingum.
Bandaríkin eru órafjarri öllum öðrum þróuðum ríkjum, þegar kemur að byssuárásum. Hlutfallslega eru þær langflestar í Bandaríkjunum. Þrátt fyrir mikil átök og mikla umræðu á hinu pólitíska sviði, hefur ekki tekist að draga úr þeim, eða koma á lagabreytingum sem hindra að fólk sem yfirvöld hafa upplýsingar um að geti verið hættulegt samborgurum, geti nálgast hættulegar byssur.