Fyrir helgi flutti Nils Muižnieks, mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins, erindi í Norræna húsinu þar sem hann gagnrýndi stjórnvöld fyrir seinagang við fullgildingar á alþjóðlegum mannréttindasamningum. En það eru ekki aðeins alþjóðlegir mannréttindasamningar sem ekki hafa verið fullgiltir á Íslandi í gegnum tíðina. Síðan að Ísland hóf að undirrita alþjóðasamninga hjá Sameinuðu þjóðunum á sjötta áratugnum hafa 37 þeirra samninga enn í dag ekki verið fullgiltir, þeir elstu fyrir 57 árum.
Frá árinu 1933 til dagsins í dag hefur Ísland undirritað, fullgilt eða gerst aðili að 463 alþjóðasamningum og viðbótarsamþykktum þeirra sem eru í vörslu Sameinuðu þjóðanna. Tuttugu og fimm þessara samninga voru fullgiltir sama ár og þeir voru undirritaðir á meðan 126 sem hafa verið undirritaðir voru fullgiltir síðar eða bíða enn fullgildingar. Aðrir samningar og viðbótarsamþykktir voru annað hvort fullgilt án undirskriftar eða Ísland gerðist beint aðili að þeim.
Ef frá er tekinn yfirstandandi áratugur má segja að fjöldi fullgildinga undurritaðra samninga hafi frá upphafi verið sveiflukenndur, líkt og fjöldi undirritaðra samninga. Almennt helst aukning eða fækkun á undirrituðum saningum í hendur við sveiflur í fjölda samninga sem eru fullgiltir. Níundi áratugur síðustu aldar markar undantekningu í þessum efnum þar sem fjöldi fullgildinga jókst á meðan færri samningar voru undirritaðir. Leiða má að því líkur að á þessum tíma hafi legið á að ljúka fullgildingu þeirra samninga sem biðu úrvinnslu, en áratuginn á undan voru einungis þrír samningar fullgiltir.
Tölurnar sýna að þó svo að Ísland hafi gerst sekt um að fullgilda ekki nema hluta þeirra alþjóðasamninga sem ríkið hefur undirritað eru vísbendingar um að stjórnsýslan kunni að geta snúið blaðinu við. Síðastliðin 16 ár hefur fjöldi nýrra undirritaðra samninga að meðaltali ekki farið fram úr fjölda þeirra samninga sem höfðu áður verið undirritaðir og voru fullgiltir á þessum tíma. Vegna þess mikla magns samninga sem þarf að vinna upp, sérstaklega vegna frá sjöunda og tíunda áratugnum, þarf samt meira til ef að ná á jafnvægi í málaflokknum.
Gögnin benda einnig til þess að Ísland hefur alltaf átt á brattann að sækja við fullgildingu undirritaðra alþjóðasamninga. Þetta er ástand sem tímabært er að breyta. Ekki eingöngu vegna þess að fulltrúar alþjóðastofnana beita stjórnvöldum þrýstingi á opinberum vettvangi til að koma málum á hreyfingu, einnig vegna þess að það samræmist hagsmunum ríkisins að gera það. Að láta undirritaða samninga stranda í kerfinu jafnvel svo áratugum skiptir getur skaðað trúverðugleika samningagerða stjórnvalda. Gerð alþjóðasamninga er hagsmunamál fyrir smáríki á borð við Ísland sem þrífst best í reglubundnu alþjóðakerfi og nýtur góðs af fjölmörgum mikilvægum alþjóðasamningum.
Stjórnvöld lögðu nýverið áherslu á að flýta innleiðingu tilskipana Evrópska efnahagssvæðisins í íslenskri stjórnsýslu. Muižnieks benti fyrir helgi á mikilvægi þess að Ísland bætti viðleitni sína í mannréttindamálum og við fullgildingar mannréttindasáttmála, t.a.m. með því að setja á legg sérstaka stofnum sem færi með málaflokkinn. Þegar haft er í huga að meðalfjöldi ára sem líður frá undirritun alþjóðasamnings til fullgildingar hans hefur aukist nokkuð stöðuglega síðan á sjötta áratugnum er ljóst að þörf er á almennari aðgerðum ef stjórnvöld kjósa að ná heildstætt utan um málaflokkinn.
Að því sögðu getur vel verið að gildar ástæður séu fyrir því að sumir samningar eru undirritaðir en ekki fullgiltir. Það getur verið að stjórnvöld vilji ekki vera í fararbroddi á alþjóðlegum vettvangi í ákveðnum málaflokkum og bíði eftir að fleiri ríki sameinist um fullgildingu svo að skrið komist á málið. Einnig getur verið að mikilvægi sumra samninga sem búið er að skrifa undir hafi reynst ofmetið fyrir íslenska hagsmuni. Það ber því að meta stöðuna hverju sinni, innihaldslegt gildi samnings fyrir lýðveldið, orðspor ríkisins á alþjóðavettvangi og almenna kosti þess að búa í einhvers konar reglubundnu alþjóðakerfi. Að lokum er mikilvægt að vega þá kosti og galla sem fylgja ofansögðu á móti getu stjórnsýslunnar, Alþingis og samfélagsins alls að axla þá ábyrg og skyldur sem fylgja því að standa vörð um fullveldi ríkisins.
Höfundur er stjórnmálafræðingur.