Nýverið samþykktu Píratar nokkrar tillögur í kosningakerfi sínu sem hafa vakið nokkra athygli og snúa að aukinni tekjuöflun ríkissjóðs. Auðvitað gripu andstæðingar og öfundarmenn það á lofti og fóru að óskapast yfir þessari vinstrivillu Pírata – nú sýndu þeir sitt rétta eðli, eins og hver annar vinstri flokkur sem vill auka skattheimtu og þenja út ríkisbáknið. Litli bróðir Staksteina Moggans, Týr Viðskiptablaðsins sló upp fyrirsögn: „Barnaskapur Pírata“ og ásakar Pírata fyrir að boða harða vinstri stefnu.
Það skondna við þessa gagnrýni er að kjarninn í þessum tillögum Pírata felst í að fara að reka ríkið betur, reka það eins og við myndum reka fyrirtæki ef við hefðum hagsmuni eigenda þess, almennings, að leiðarljósi. Staðreyndin er nefnilega sú að hægri stjórnir undanfarinni áratuga hafa í raun verið mjög lélegir stjórnendur, ef við leggjum á þær sömu mælikvarða og við leggjum á fyrirtæki í rekstri (að því gefnu að ekki séu einhverjar aðrar hvatir eða hagsmunir að baki). Mýtan um hæfni hægri manna í rekstri stenst enga skoðun á hinu pólitíska sviði. Hvaða fyriræki myndi leyfa milljörðum renna úr rekstri sínum áratugum saman í gegnum þá holu sem kölluð hefur verið þunn fjármögnun stóriðjunnar? Hvaða fyrirtæki myndi afhenda verðmæti til ákveðinna aðila fyrir brotabrot af markaðsvirði þeirra, eins og gert er við aflaheimildir? Hvaða fyrirtæki myndi henda tugum milljarða á ári til að halda gangandi fyrirbæri eins og krónunni, þegar allar aðrar sambærilegar rekstrareiningar í heiminum hafa gefist upp á að halda úti eigin fljótandi mynt?
Eina raunverulega skattahækkunin sem í tillögunum felst er hækkun á fjármagnstekjuskatti. Nú hníga ýmis réttlætisrök að því að skattar af fjármagnstekjum ættu að vera sömu og af öðrum tekjum fólks. Hin praktísku rök fyrir lægri prósentu hafa gjarnan verið þau að hærri skattaprósenta leiði til þess að féð leiti annað, t.d. í skattaskjól, fjármagnsskattur ýti upp vöxtum og leiguverði, o.s.frv. En það gildir um alla skatta, þeir hafa ýmis neikvæð áhrif, of hár tekjuskattur letur til vinnu, of hár virðisaukaskattur eykur svarta sölu og starfsemi, o.s.frv. Krafan um jafnræði í skattakerfinu vegur þyngra að mínu mati en praktísk rök, auk þess sem þessi stefna vinnur gegn einu mesta böli heimsins í dag, hinni gífurlegu misskiptingu sem á m.a. rætur sínar að rekja í lög og leikreglur sem hafa allt of lengi verið þeim best stæðu í hag.
Hvaða fyrirtæki myndi afhenda verðmæti til ákveðinna aðila fyrir brotabrot af markaðsvirði þeirra, eins og gert er við aflaheimildir? Hvaða fyrirtæki myndi henda tugum milljarða á ári til að halda gangandi fyrirbæri eins og krónunni, þegar allar aðrar sambærilegar rekstrareiningar í heiminum hafa gefist upp á að halda úti eigin fljótandi mynt?
Ef skoðuð eru lönd sem við berum okkur gjarnan saman við, þá er fjármagnstekjuskatturinn í löndum eins og Danmörku og í Finnlandi á svipuðum nótum og Píratar leggja til, eða í kringum 30%. Hins vegar valda frítekjumörk og ýmsar undanþágur því að raunveruleg innheimta er mun lægri en talan gefur til kynna. Í nánari útfærslu þyrfti að líta til þess hvort einhverjar þær aðstæður sem þar eru kalli á svipaðar undanþágur hér, sem myndi þá leiða til að skattahækkunin skilaði ekki þeim tekjum sem stefnt var að. Þar fyrir utan skila skattahækkanir sér aldrei í sama hlutfalli og prósentan segir til um af ýmsum ástæðum. Þá þarf auðvitað að gæta þess í íslensku krónuumhverfi að skattleggja raunvexti, en ekki nafnvexti – verðbætur eru ekki tekjur.
Fyrirsögn Kjarnans á dögunum varðandi þessi stefnumál hljóðaði á þá leið að Píratar vilji auka tekjur ríkissjóðs um 100 milljarða. Sú fyrirsögn er dálítið villandi, þar sem allar forsendur eru fyrir því að lækka megi skatta á móti. Tekjur ríkisins hafa aukast gífurlega undanfarin ár, aðallega vegna aukins fjölda ferðamanna til landsins. Þær auknu tekjur, auk þeirra sem Píratar vilja sækja, eiga að duga til að gera verulegt skurk í velferðarmálum en jafnframt á faglegri rekstur ríkisins og réttlátari skattheimta að gera kleift að lækka skattbyrði almennings.
Þótt enn sem komið er séu Píratar ekki orðnir eitthvað fastmótað fyrirbæri, þá þykist ég skynja á meðal þeirra áhuga á að sinnt sé vel helstu grunnstoðum samfélagsins eins og heilbrigðis- og menntakerfi, auk þess að framfærsla þeirra verst settu sé tryggð. Um ýmsan annan rekstur ríkisins eru mun skiptari skoðanir og hygg ég að þar muni okkur greina á um margt við hefðbundna vinstrimenn, en það er efni í mun lengri grein.
Höfundur er framkvæmdastjóri Múltikúlti - málamiðstöðvar, situr fyrir Pírata í endurskoðunarnefnd um mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar og er varamaður í mannréttindaráði og fjölmenningarráði.