Það er óhætt að segja að nöturlegum veruleika sé lýst í nýrri skýrslu UNICEF um aðstæður fylgdarlausra flóttabarna sem hafa við í flóttamannabúðum í Frakklandi. Glæpahringir nýta sér neyð barnanna og stúlkur þurfa að selja sig oftar en þúsund sinnum til að eiga fyrir ferðinni yfir Ermasundið, segir meðal annars í endursögn RÚV.
Í flóttamannabúðum í Calais, Dunkirk og nærliggjandi stöðum hafast nú við um 500 fylgdarlaus flóttabörn en 2000 slík börn hafa farið um búðirnar frá því í júní í fyrra. Skýrslan byggir á frásögnum 60 þeirra sem dvelja í búðunum. Viðmælendurnir eru á aldrinum 11 til 17 ára og koma frá Afganistan, Egyptalandi, Eritreu, Eþíópíu, Íran, Írak, Kuwait, Sýrlandi og Víetnam, að því er segir í frétt RÚV.
„Skýrslan afhjúpar skelfilegan veruleika þessara barna," segir Sigríður Víðis Jónsdóttir, hjá UNICEF á Íslandi, í viðtali við RÚV.
Þegar svona upplýsingar koma fram, hugsa flestir eflaust strax, að við þessu þurfi að bregðast og hreinlega bjarga þessum börnum. Því miður sýnir sagan, að svo einfalt er það ekki oft er alþjóðasamfélagið svifaseint þegar að kemur að þessum málum. Vonandi verður svo ekki í þessu tilfelli, og vonandi verður eftirfylgni þessarar skýrslu kraftmikil þannig að staðan nái eyrum þeirra sem ráða, og eru í stöðu til að gera betur.
Staða eins og þessi er smánarleg fyrir alþjóðasamfélagið og raunar algjörlega ólíðandi.