I. Stundum er sagt að forsetinn eigi að vera sameiningartákn. Þetta finnst mér vitleysa. Og því oftar sem ég heyri þetta og því meira sem ég hugsa um þetta, því fráleitara finnst mér þetta. Þegar ég hugsa um aðra hluti sem líka eiga að vera sameiningartákn – til að mynda fánann eða fótboltalandslið – þá sannfærist ég enn frekar um að forsetinn eigi ekki að vera sameiningartákn. Það er helst að fáninn geti talist slíkt tákn, því af þessu er hann einn um að vera tákn. Forseti og landslið eru ekki tákn.
Fánar eru tákn, en ekki endilega sameiningartákn. Fáni Sameinuðu þjóðanna er kannski sameiningartákn vegna þess að sá félagsskapur var beinlínis stofnaður með hugsjón samstarfs og einingar að leiðarljósi og til höfuðs sundrung og óvinafagnaði. Kannski er íslenski fáninn líka sameiningartákn – við veifum honum þegar við gleðjumst saman á 17. júní, sumardaginn fyrsta og þegar við mætum til að horfa á landsliðin okkar. Það sama verður ekki sagt um bandaríska fánann. Vissulega eru Bandaríkjamenn duglegir að flagga þegar þeir koma saman en í hugum margra Bandaríkjamanna er fáninn frekar tákn um margra alda kúgun og yfirgang.
II. En aftur að forsetanum. Forseti er handhafi valds og sem slíkur er hann gerandi en ekki tákn. Og þar af leiðandi ekki sameiningartákn. Það er mikill munur á því að vera gerandi eða tákn. Tákn er máttvana gagnvart þeim sem það túlka. Fáninn, sem blaktir við hún á tyllidögum, getur ekki tekið það upp hjá sér að breyta merkingu sinni. Hann getur ekki haft neitt frumkvæði. Það erum við sem drögum fánann að húni og horfum á hann þar sem hann blaktir í vindinum, það erum við sem gefum honum merkingu. En það erum ekki við, sem horfum á forsetann á hlaðinu á Bessastöðum, sem gefum honum merkingu. Ef forsetaembættið hefur einhverja merkingu yfirleitt, þá er það vegna þess að þeir sem hafa gegnt því hafa gert eitthvað, ekki vegna þess að við sem áhorfendur höfum lagt einhverja merkingu í það.
Þannig er það líka með fótboltalandslið. Það er gerandi en ekki tákn. Þegar stelpurnar hafa spilað á stórmótum – og nú strákarnir líka – og standa sig vel, þá sameinumst við í hvatningu og fögnuði, finnum til samkenndar og stolts. En sameiningin er ekki til komin vegna þess að fyrir augu okkar ber sameiningartákn heldur vegna þess að við berum tilfinningar til leikmannanna og hrífumst af dugnaði, ákveðni, hugrekki, þrautseigju og öðrum góðum eiginleikum sem við sjáum í fari þeirra. Ef karlalandsliðið hefði mætt huglaust til síns fyrsta leiks á Evrópumeistaramótinu og spilað af ragmennsku og undirlægjuhætti gegn hinum bráðsnjöllu Portúgölum, þá hefðu Íslendingar ekki fundið til stolts og samstöðu við að horfa á leikinn. Þvert á móti hefði fólk yfirgefið völlinn sem sundraður hópur, reitt og jafnvel fundist það lítillækkað – og eflaust látið illum látum og orðið þjóðinni til skammar. Fótboltalandslið er ekki sameiningartákn, því það er ekki tákn, þótt það sem gerandi geti vissulega verið sameiningarafl. En sameiningarmáttur landsliðs veltur á því hvernig það stendur sig.
Forseti er ekki sameiningartákn en hann getur verið sameiningarafl. Til þess að svo megi verða, þurfa ákveðin gildi og dygðir að einkenna störf hans. En hvaða gildi og hvaða dygðir? Hér vandast málið. Í fjölhyggjusamfélögum samtímans er ekki hægt að ganga að neinum tilteknum gildum og dygðum sem hinum réttu. Það er engin eining um hvað séu „íslensk gildi“ og þess vegna getur forsetinn ekki orðið sameiningarafl með því að vera sammála öllum. Ef hann vill ekki stíga tærnar á neinum, þá getur hann ekki hreyft sig úr stað. Ef hann vill ekki segja neitt sem einhver er ósammála, þá verður hann að þegja. En slíkur forseti yrði aldrei annað en stofustáss á Bessastöðum; eins og fáni sem blaktir í vindinum á hátíðisdögum, yrði hann ekki sameiningarafl en kannski prýðilegt skraut.
III. Þegar fólk sameinast, þá sameinast það um eitthvað. Hið dásamlega við fótboltann er að fólk skuli geta sameinast um eitthvað sem í raun er fullkomlega tilgangslaust. En forsetinn á ekki kost á slíku. Sem hluti af ríkisvaldinu getur hann ekki vænst þess að fólk sameinist um hann í krafti þess að hann geri eitthvað fullkomlega tilgangslaust – jafnvel þótt hann gerði það snilldarvel. Þvert á móti verður sameiningarafl forseta að eiga rætur í einhverju sem er mikilvægt en ekki tilgangslaust. Það verður í raun að tvinnast úr tvenns konar þáttum: gildum og samræðu. Annars vegar gildum sem eru einhvers konar grunngildi þjóðarinnar. Hins vegar verður forsetinn að eiga í samræðu við þjóðina um þessi gildi – og því umdeildari sem gildin eru, þeim mun mikilvægari verður samræðan.
Samræða forseta við þjóð sína má ekki vera hvernig sem er. Hún verður að einkennast af virðingu fyrir þeim sem eru ósammála; hún má ekki verða kappræða þar sem leitast er við að sigra þá sem eru á öndverðri skoðun, heldur rökræða þar sem leitast er við að skapa gagnkvæman skilning. Þegar fólk skipar sér í fylkingar sem síðan lýstur saman í kappræðu, þá vegast menn með spjótum mælskubragða. Þar fer lítið fyrir kærleika og umhyggja fyrir sannleika er víðs fjarri. Þannig hafa stjórnmálin oft verið – átakastjórnmál þar sem jafnvel forystumenn í ríkisstjórn og flokkum leggja sig fram um að hæðast að andstæðingum og gera lítið úr þeim sem eru þeim ósammála. Þetta er lítilmótlegasta tegund stjórnmálamanna, því með slíku háttalagi ganga þeir fram undir gunnfána sundrungar.
Forseti sem tekur þátt í eiginlegri samræðu við þjóðina – einhvers konar opinni rökræðu – skipar sér ekki í fylkingu. Í eiginlegri samræðu – eins og vinur ræðir við vin – mætist fólk ekki í fylkingum þótt það taki afstöðu og sé oft ósammála. Fólk mætist sem vinir, forvitið um hugmyndir annarra en jafnframt leitandi að rökum fyrir eigin afstöðu og jafnan reiðubúið til að endurskoða hana. Í slíkri samræðu reynir fólk vissulega að sannfæra hvað annað en það mætist líka til að læra hvað af öðru, gjarnan í þeirri trú að gott líf einkennist af sífelldum lærdómi. Andstæðan er líf sem einkennist af þvergirðingshætti og þumbaraskap. Þumbaraskapurinn höfðar reyndar til margra eins og sést á því að fólk er stundum lofað fyrir að standa fast á eigin skoðun. Það er einlæg trú mín að það sé betra að búa í samfélagi þar sem fólk er opið fyrir skoðunum annarra og líti á ólík sjónarmið og jafnvel ágreining sem tækifæri til að læra eitthvað nýtt, heldur en í samfélagi þar sem hver hangir á sinni sannfæringu eins og hundur á roði.
Ég held að við ættum að leita okkur að forseta sem getur verið sameiningarafl. Slíkur forseti leitar ekki að lægsta samnefnara allra í samfélaginu (þá verður hann bara stofustáss), heldur leitar hann að mikilvægum gildum (jafnvel umdeildum) og setur þau á dagskrá í samræðu við þjóðina. Það er ekki gefið hver nákvæmlega þau gildi ættu að vera, en ég held að þau þurfi að vera af þrennum toga. Í fyrsta lagi varða gildin náttúruna sem er forsenda alls lífs. Stærsta verkefni samtímans er að tryggja að þessi eina jörð sem við höfum til að búa á geti áfram verið bústaður mannkyns og annarra lífvera. Í öðru lagi varða gildin menninguna sem við sækjum í til að glæða líf okkar merkingu. Menningin spannar allt litróf mannlífsins og varðar okkur bæði sem njótendur og sem skapendur. Án menningarinnar yrði lífið í þessu landi einungis deyfðarlegt strit. Í þriðja lagi varða gildin stjórnskipanina og stjórnmálamenninguna sem gerir okkur kleift að lifa farsællega saman í þessu landi.
Höfundur er heimspekingur.