Konan mín hún Halla er einstök kona. Þolinmæði og þrautseygju gefið í vöggugjöf enda þolað mig tæp 37 ár.
Ég er mikið uppá kvennhöndina og tókst með Höllu minni að búa til 3 yndislegar stelpur. Konur hafa semsagt verið mér mikilvægar alla tíð. Mamma og ömmur mínar ólu mig upp. Þær eiga það skuldlaust sem er sæmilega heppnað í mér en það sem er á verri veg hef ég skapað sjálfur alveg hjálparlaust.
Virðing mín fyrir konum er miklu mun meiri en flestra karla vegna þess umhverfis sem ég er alin upp við. Ég hef lagt áherslu á það við stelpurnar mínar að þær séu jafnar eða heldur betri en strákarnir sem oft þykjast klárari en þeir eru. Sjálfstæði stúlkna er mjög mikilvægt.
Höllu Tómasdóttur kynntist ég óbeint þegar dóttir mín tók þátt í verkefninu „Auður í krafti kvenna“ það voru strax góð kynni.
Síðar hef ég hitt hana nokkrum sinnum í tengslum við forsetakostningarnar. Þá hef ég sannfærst um að Halla er mitt besta val sem forseti Íslands.
Afhverju vel ég hana?
Við þurfum alvöru manneskju á Bessastaði.
Konu sem jákvæðir straumar gusta um. Það væri ekkert varið í Höllurnar mínar ef lognmollan ríkti um þær.
Vel menntuð kona sem er virt í alþjóðasamfélaginu.
Frumkvöðull sem tekið er eftir fyrir árangur og glæsilega framkomu.
Fyrirmynd æsku Íslands sem við getum verið stolt af.
Brosmildur húmoristi sem gefst aldrei upp.
Á rætur í venjulegu fólki og berst fyrir jafnrétti allra.
Ég ætla að kjósa Höllu Tómasdóttur og treysti á að fleiri geri það. Samanburðurinn er henni hagstæður.
Áfram Ísland-Áfram Halla.
Höfundur er kjósandi í Reykjavík.